132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[12:16]
Hlusta

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að gera þá játningu hér að kannski birtist í þessari ræðu sá veruleiki sem endurspeglast svo í nefndarálitinu. Það er talið rétt að segja ekkert frá þeirri umræðu sem fram fór og koma síðan hér og halda því fram sem manni dettur í hug, því sem hentar á því tímabili. Þetta er með hreinum ólíkindum. Hver einn og einasti lögfræðingur sem var spurður um stjórnarskrána taldi að þetta færi í bága við hana. (Gripið fram í: Baldur Guðlaugsson.) Baldur Guðlaugsson var ekki spurður um þetta. Bara til að halda því til haga. Hver einasti lögfræðingur sem var spurður nefndi þetta með þessum hætti. Eiríkur Tómasson talaði mjög skýrt fyrir þessu. Sigurður Líndal vísaði í minkadóma og fleiri dóma sem nefndir voru í þessari umræðu. Ég spyr: Var hv. þingmaður ekki á fundinum þó líkaminn hafi verið þarna? Fylgdist hv. þingmaður ekkert með þeirri umræðu sem fram fór? Það er með hreinum ólíkindum þegar menn koma hér, hv. þingmenn meiri hlutans, með nefndarálit sem greinir ekkert frá umræðum og halda því fram að eitthvað allt annað hafi farið fram en það sem raunverulega fór fram.