132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[12:19]
Hlusta

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get að sumu leyti tekið undir lokaorð hv. þingmanns, vel má vera að skynsamlegra hefði verið að hefja þessa vinnu strax. En það breytir ekki hinu að vandinn verður sá sem við stöndum frammi fyrir í dag þegar úrskurðurinn kemur til framkvæmda. Þar eru eiginlega vatnaskil — þá verður þessi vandi til. Í þeim skilningi hefði kannski ekki skipt öllu hvort þessi vinna hefði farið fram strax í byrjun janúar eða hvort hún á sér stað síðar. Við erum að bregðast við þeirri staðreynd að úrskurðurinn er kominn til framkvæmda með þeirri tillögu sem við hér leggjum til.

Mér þótti á hinn bóginn miður að skynja það viðhorf sem mér fannst koma fram í ræðu hv. þingmanns, og þá ætla ég ekki að gera ágreining um hversu fast lögmennirnir kváðu að orði um þessa hluti. Hv. þingmaður er tilbúinn til þess, þrátt fyrir öll þau varnaðarorð sem höfð eru uppi, að leyfa stjórnarskránni ekki að njóta vafans. (Gripið fram í.) Ég er að vitna hér í orð hv. þingmanns sem sagði að mikill vafi hefði leikið á því að þetta stæðist. Ég er bara að taka þau orð. Ég er ekki að taka þann skilning sem ég hef á málinu. En hv. þingmaður sagði að lögmennirnir hefðu sagt að á þessu léki mikill vafi. Mér þykir miður að þau viðhorf skuli þá vera uppi í tilvikum sem þessum að hv. þingmenn séu ekki tilbúnir að láta stjórnarskrána (Forseti hringir.) njóta vafans.