132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[12:45]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé að ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson verðum ekki alveg sammála um þetta atriði vegna þess að í tillögu hv. minni hluta er verið að fresta úrskurðinum en ekki fella hann úr gildi eins og í tillögu okkar í meiri hlutanum. Eins og kom fram í máli mínu áðan töldum við að það væri mildari aðgerð að þessi 2,5% mundu fylgja eins og hefur gerst á almennum vinnumarkaði. Hv. þingmaður talaði um hreint borð og það er mín skoðun að við séum að skapa nefndinni hreint borð og ég vil ítreka það hér.

Það kom fram í máli hv. þingmanns að hann hefði lagt fram mál um að Alþingi tæki sjálft ákvörðun um launakjör. Það er eitt af því sem verður væntanlega rætt í þessari vinnu, við ræðum það þá í framhaldinu. Það er alveg ljóst, eins og fram kom í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, að það er alveg sama í hvaða farvegi þessi mál verða. Slíkar ákvarðanir verða alltaf óvinsælar hvað varðar Alþingi en ég held að það sé mjög mikilvægt að launahækkanir komi fram með eðlilegri hætti eins og á almenna markaðnum en ekki í svona miklum stökkum. En við förum í þessa umræðu með opnum huga. En ég vil ítreka þau orð mín hér að ég tel svo sannarlega að við séum að gefa nefndinni fullt svigrúm og hreint borð. Við erum ekki að fresta úrskurðinum. Við sitjum ekki uppi með restina af prósentuhækkun heldur fellum hana úr gildi.