132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[12:49]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er ástæða til þess, þar sem við erum að tala um kjaramál í þessu þjóðfélagi, að fara nokkrum orðum um kjarastefnu ríkisstjórnarinnar. Það liggur fyrir, hæstv. forseti, að vaxandi mismunur er í þjóðfélaginu milli þeirra sem hafa hæstu launin og bestu kjörin og þeirra sem lakast eru settir í kjörum, þ.e. þeirra sem hafa lægstu launin. Það má líka nefna eldri borgara, það má nefna öryrkja og ríkisstjórnin stuðlar að því að það dragi enn frekar í sundur í rauntekjum fólks með skattstefnu sinni.

Það er auðvitað hægt að hafa skattstefnu í þessu landi sem kæmi fólki með lægri tekjur verulega til góða. Við í Frjálslynda flokknum höfum ítrekað bent á að skattstefna sem hefði haft það að markmiði, úr því að menn vildu skoða hvort ekki mætti laga til í skattkerfinu, að hækka persónuafsláttinn verulega hefði verið raunhæfasta kjarabótin fyrir þá sem lægri hafa launin. Það segir sig sjálft, virðulegi forseti, að þegar ríkisstjórnin er að fjölga skattgreiðendum með því að breikka skattstofninn — fjölga skattgreiðendum í lágtekjuhópunum, fjölga skattgreiðendum í hópum verkamanna og iðnverkamanna, eldri borgara og öryrkja — þá er verið að leggja tekjuskatt á fólk sem hefur varla nægilegar tekjur sér til framfærslu. Það þýðir ekkert að mæla því í mót að fólk með 100 þús. kr. í tekjur greiðir tekjuskatta, 9 þús. kr. um það bil í tekjuskatta. Þetta fólk hefur ekki notið neinna sérstakra kjarabóta í gegnum breytingar á skattkerfinu miðað við þá stefnu sem ríkisstjórnin hefur rekið. Ríkisstjórnin valdi þá forgangsröðun að aflétta hátekjuskatti á fólk með háar tekjur, valdi þá forgangsröðun að fara í flata prósentulækkun á tekjuskatti sem kemur þeim eðlilega best sem hæstar hafa tekjurnar. Það liggur ljóst fyrir að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur valið hvað varðar breytingar á tekjuskatti virka þannig að þeir sem hafa hæstu launin fá miklu fleiri krónur í vasann en þeir sem lægri tekjurnar hafa.

Um þetta er grundvallarágreiningur milli ríkisstjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar að því leyti að við höfum talið að eðlilegra væri að reyna að hækka rauntekjur þeirra sem lægstar hafa tekjurnar meira — það hefði verið auðveldast að gera með því að setja fjármuni í persónuafsláttinn. Ef skattar eru lækkaðir um 1%, eins og ríkisstjórnin hefur valið, lækka tekjur ríkissjóðs um 4 milljarðar kr. Ef þeir peningar hefðu verið settir yfir í persónuafsláttinn þá lægi hækkunin þar fyrir sömu fjármuni á bilinu 2.500–2.600 kr. hjá einstaklingi. Það hefði sem sagt verið hægt að fara þá leið í skattstefnunni að hækka persónuafsláttinn um kannski tæpar 11 þús. kr. á kjörtímabilinu í stað þess að fara í 4% lækkun á tekjuskattinum, þ.e. 1% á síðasta ári, 1% nú og síðan 2% á kosningaárinu 2007. Við teljum að það hefði komið láglaunafólkinu miklu betur og orðið til þess að hér væri í raun og veru verið að hífa upp þá sem lægri hafa launin sem hefðu notið þeirra skattbreytinga betur í rauntekjum sínum en núverandi stefna leiðir af sér.

Hæstv. forseti. Það hefur ýmislegt merkilegt komið í ljós við yfirferð á þessu máli í efnahags- og viðskiptanefnd. Það hafa verið dregnar fram upplýsingar um það að í okkar launaþróun er samanburður við það sem er að gerast í kerfinu og við höfum tvenns konar fyrirkomulag: Við höfum lög um Kjaradóm og kjaranefnd og kjaranefndin úrskurðar yfir ákveðinn hóp og Kjaradómur yfir annan hóp.

Ég held að þetta sé ekki mjög gott fyrirkomulag, hæstv. forseti. Það er hætta á því að í þessum ákvörðunum, annars vegar kjaranefndar og hins vegar Kjaradóms, verði víxlverkun upp á við — Kjaradómur fer inn á forsendur kjaranefndar sem venjulega úrskurðar hækkanir á undan. Kjaranefndin hefur fundið sér viðmiðanir í sambærilegum störfum eða eins og það er metið, m.a. hjá ríki, borg og sveitarfélögum og þetta verður svona skrúfa upp á við. Það kann að vera að ef allar breytingar í launakerfinu lægju ljósar fyrir þegar hver og einn gerir kjarasamninga fyrir sína starfsstétt þá gæti þetta fyrirkomulag gengið. Ég er hins vegar á þeirri skoðun, hæstv. forseti, að þegar þessi lög um Kjaradóm og kjaranefnd verða endurskoðuð eigi að horfa til þess hvort ekki eigi að vera eingöngu einn úrskurðaraðili, þ.e. annaðhvort kjaranefnd eða Kjaradómur eða hvað svo sem við köllum það. Ég lít svo á að Kjaradómur sé í raun og veru gerðardómur. Úrskurður Kjaradóms er ígildi kjarasamnings vegna þess löggjafinn hefur jú valið þetta fyrirkomulag til að komast að niðurstöðu um laun ákveðinna hópa í þjóðfélaginu. Þegar niðurstaðan er fengin verður úrskurðurinn ígildi kjarasamnings að mínu viti. Þetta er svo sem fyrirkomulag sem hefur viðgengist víða og menn hafa oft notað gerðardóma til að ákvarða laun og launabreytingar þegar ekki hefur tekist að leysa mál á annan hátt. Ég er ekkert viss um, og hef sagt það áður úr þessum ræðustóli, að við finnum annað betra fyrirkomulag til framtíðar en að hafa einhvers konar dóm eða nefnd til að ákveða laun alþingismanna og annarra sem efstir eru í opinberu kerfi.

Hitt er annað, hæstv. forseti, og kem ég þá að víxlverkuninni aftur, að í kjarasamninga á opinberum vinnumarkaði eru innibyggð ýmis atriði sem ekki eru fyrir séð. Ég geri þó ráð fyrir því að með lengri reynslu manna af ýmsum ákvæðum í samningum opinberra starfsmanna safnist smátt og smátt upp gagnleg vitneskja hvað það varðar. Þeir sem sjá um að semja ættu þá að geta þekkt betur afleiðingar sem fylgdu varðandi launahækkanir á gildistíma kjarasamnings.

Kjarasamningar á opinberum vinnumarkaði hafa innibyggð ýmis atriði sem ekki eru fyrirséð þó að ég geri ráð fyrir að með lengri reynslu manna af ýmsum ákvæðum sem eru í samningum opinberra starfsmanna komi smátt og smátt til þekking sem gerir það að verkum að þeir sem eru að semja vita betur hvaða afleiðingar fylgja varðandi launahækkanir á gildistíma kjarasamnings. En það virðist samt sem áður vera svo, hæstv. forseti, að í þessum launasamningum séu ákveðnar skrúfur sem virðast bara geta skrúfast upp á við. Okkur hafa verið kynntar niðurstöður í samningum BHM við ríkið og í samningum BSRB og síðan hefur auðvitað verið samið við mörg sveitarfélög. Það virðist vera svo, hæstv. forseti, að vegna ýmissa ákvæða sem eru í þessum samningum séu enn þá inni í kerfinu launahækkanir sem koma munu til framkvæmda um mitt þetta ár og sem eftir á að taka tillit til við ákvörðun launa kjaranefndarfólks og kjaradómsfólks sem heyra undir þessar stofnanir.

Hæstv. forseti. Af þeim upplýsingum sem fram komu í efnahags- og viðskiptanefnd og ýmsum orðatiltækjum sem þar voru notuð um það sem ég vil kalla hálfpartinn sjálfvirka hækkun, hækkunarskrúfu í þessum kjarasamningum, verður ekki nákvæmlega séð fyrir hvað þetta muni leiða af sér. En að öllu samanlögðu er alveg ljóst að það mun leiða til hækkana miðað við það kerfi sem við höfum.

Síðan verð ég að segja, hæstv. forseti, að þær upplýsingar sem komið hafa fram í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, virðast vera þannig að það séu þó nokkur rök fyrir niðurstöðu Kjaradóms. Þó hef ég þar á einn afar sterkan fyrirvara. Ég tel að það hafi verið misráðið, nánast afglöp hjá Kjaradómi að taka núna inn þau 3% sem skilin voru eftir í janúar 2004. Það var búið að kveða upp úrskurði í Kjaradómi fyrir þann umdeilda úrskurð sem við ræðum hér án þess að þessi prósentuhækkun hafi verið tekin inn. Ég tel að ekki hefði átt að taka þessar prósentur inn við þessi áramót og það hafi í raun og veru verið mjög vanhugsuð aðgerð að gera það úr því menn gerðu það ekki á sínum tíma þegar aðrar stéttir fengu viðmiðunarhækkanir um áramótin 2003/2004.

Ef það hefði ekki verið gert í þessum dómi hefði launahækkun til alþingismanna og annarra í þessum skala verið um 5% í stað 8,18. Ég tel að það hefði verið rökréttari niðurstaða og tel misráðið í ákvörðun Kjaradóms að hafa tekið þessa viðmiðun inn. Eins og ég sagði áðan hef ég miklar efasemdir um að það eigi að vera tvær stofnanir í þessu launaferli, Kjaradómur og kjaranefnd. Það er full ástæða til að endurskoða lögin um Kjaradóm og kjaranefnd og fara yfir hvernig þessum málum á að vera fyrirkomið í framtíðinni, í fyrsta lagi að það verði ekki endalaus víxlskrúfa upp á við þar sem Einbjörn miðar við Tvíbjörn o.s.frv. Og í öðru lagi að setja kannski um það skýrari fyrirmæli við hvaða atriði á að miða í ákvörðunum Kjaradóms. En eins og komið hefur fram í bréfaskriftum milli Kjaradóms og hæstv. forsætisráðherra þá lítur Kjaradómur svo á, ef túlka má bréf formanns Kjaradóms, að leiðsögn Kjaradóms um þau atriði sem snúa að viðmiðun við hinn almenna vinnumarkað séu heldur veikburða. Í mínum huga eru þau ekki mjög veikburða því þar segir: „Enn fremur skal Kjaradómur taka tillit til þróunar kjaramála á vinnumarkaði.“ Þetta er samt túlkun þeirra og hefur sennilega mótast í niðurstöðum Kjaradóms alveg frá 1992.

Ég tel fulla ástæðu til að unnið verði vel að því að endurskoða lögin um Kjaradóm og kjaranefnd og vonandi tekst það vel. Á grundvelli nýrra laga verði síðan til Kjaradómur eða kjaranefnd eða hvaða niðurstöðu menn komast að þar. Ég tel í raun og veru að það eigi bara að vera eitt ákvörðunarferli, þ.e. annaðhvort Kjaradómur eða kjaranefnd og það sé ekkert sjálfgefið þegar slík stofnun kveður upp úrskurð um launaviðmiðanir fyrir starfsmenn í hinu opinbera kerfi að þá fylgi alþingismenn alltaf með í þeirri ákvörðun á sama tímapunkti eða dómarar o.s.frv. Það sé sem sagt ekki skrifað í lagatextann að allir hópar sem undir ákvörðunina heyri fái breytingar á sama tímapunkti þó að það sé einn og sami aðili sem kveði upp niðurstöðuna. Ég held að það sé betra en að hafa þá viðmiðun sem menn hafa í dag að Kjaradómur miðar við niðurstöðu kjaranefndar o.s.frv. o.s.frv.

Það liggur ljóst fyrir, virðulegi forseti, að það hefði verið miklu auðveldara að fást við þessi mál öllsömul ef við hefðum borið gæfu til þess að taka þessi lög úr sambandi fyrir áramót þannig að þau hefðu aldrei komið til framkvæmda. Það var tillaga stjórnarandstöðunnar að gera slíkt, að kalla þingið saman og fella lögin úr gildi, stöðva framkvæmdina með lögum áður en hún kæmi til framkvæmda. Nú sitjum við uppi með það að þessi laun hafa verið greidd og það er greinilegt af viðtölum við þá lögmenn og ýmsa aðila sem komið hafa á fund efnahags- og viðskiptanefndar að þeir draga þá ályktun að það sé miklu erfiðara að taka á þessum málum eftir að launagreiðslur hafa komið til framkvæmda. Þar af leiðandi er það niðurstaða mín, hæstv. forseti, að það hafi verið mjög misráðið hjá hæstv. forsætisráðherra að taka ekki því tilboði stjórnarandstöðunnar sem lá fyrir milli jóla og nýárs, að taka þetta mál inn í þingið og afgreiða það á tiltölulega stuttum tíma. Ég held að við höfum nefnt að hægt væri að afgreiða þetta á tveimur klukkustundum í þinginu og láta þessi lög ekki koma til framkvæmda. Það hefði verið miklu eðlilegri framgangsmáti á málinu og mundi gera okkur málið auðveldara og við værum lengra komin í málinu en við erum í dag varðandi það að skoða lög um kjaranefnd og Kjaradóm. Ég tel því að það hafi verið mistök hjá hæstv. forsætisráðherra að þiggja ekki þetta boð stjórnarandstöðunnar að kalla þingið saman. Og ég tel að það hafi verið mistök hjá Kjaradómi að taka þessi 3% inn í úrskurðinn nú svo ég dragi það saman í stuttu máli sem ég hef verið að segja hér.

Hitt verð ég að segja, hæstv. forseti, að það virðist ljóst að tilefni sé til launahækkana vegna þess að það er launaskrið í opinbera geiranum. Það kemur til af ýmsum ástæðum. Þar hafa verið nefndir stofnanasamningar og launaflokkahækkanir og svokallað vörpunarákvæði, nýyrði sem ég heyrði fyrst í efnahags- og viðskiptanefnd þar sem mönnum er varpað upp á við í launakerfinu ef samanburður á milli launaflokka er meiri en ákveðin prósenta. Allt virðast þetta vera nokkuð sjálfvirkar skrúfur í launaskriði í opinbera geiranum og það er auðvitað allt öðruvísi fyrirkomulag og ákvarðanir en á almenna vinnumarkaðnum. Mér sýnist, hæstv. forseti, og get ekki dregið dul á það að almennir verkamenn í landinu og iðnverkafólk sé að dragast aftur úr fólki sem vinnur hjá því opinbera, ríki og sveitarfélögum. Ákvarðanir kjaranefndar og Kjaradóms byggjast svo á þessu launaskriði ofan á þessi kerfi og þar er verið að hækka hæstu launin um þær prósentur sem við höfum verið að tala hér um. Þetta leiðir auðvitað til þess að það dregur áfram í sundur með stéttum í þjóðfélaginu. Þeir sem njóta launaskriðs og ákveðinna viðmiðana við það og fá hækkanir út á það bæta kjör sín miklu meira en verkafólkið, það situr eftir. Þetta virðist hafa átt sér stað og vera innbyggt í BHM- og BSRB-samningana og það er líka ljóst, hæstv. forseti, að ýmsir samningar við sveitarfélög vítt og breitt um landið, bæði á suðvesturhorninu og annars staðar, taka mið af þessu og þar er einnig um prósentuhækkanir að ræða sem ekki koma til verkafólks og iðnverkafólks. Það er ekki með slíkan samanburð tryggðan í samningum sínum.

Niðurstaðan á síðasta hausti varðandi laun verkamanna var sú að gera örlitla hækkun í prósentum, innan við 1% ef ég man rétt, og síðan eingreiðslu upp á 26 þús. kr. Að vísu var samið um önnur atriði eins og aðkomu ríkisins að örorkuþættinum í lífeyrissjóðakerfinu, sem ég tel mjög mikilsverða fyrir þessar stéttir í framtíðinni, og fleiri atriði. En eftir sem áður sýnist mér að málin séu þannig að það dragi frekar í sundur milli stétta hér á landi, þ.e. á milli verkamanna og iðnverkamanna og þeirra sem taka laun í opinberu kerfi.

Það hefur stundum verið sagt og haft að máltæki að verður sé verkamaðurinn launa sinna. Tek ég undir það. Ég tel afar misráðið að þær stéttir sem oftast vinna á lægstu töxtum þjóðfélagsins séu látnar sitja eftir vegna þess að í launakerfi annarra sé falin sjálfvirk skrúfa upp á við. Ég velti því fyrir mér, hæstv. forseti, hvort forustu ASÍ hafi ekki verið ljóst að slík ákvæði væru inni í kjarasamningum annarra stétta. Menn virðast hafa haft hugboð um það síðastliðið haust hvað þarna gæti verið á ferð án þess að hafa kannski séð það nákvæmlega fyrir. Þá er ég að tala um þá niðurstöðu sem Kjaradómur komst að og færði rök fyrir í efnahags- og viðskiptanefnd, að launaskriðið sem gert var ráð fyrir í ákvörðuninni væri að eiga sér stað.

Þess vegna held ég, hæstv. forseti, að verkafólk þurfi að huga vel að stöðu sinni og halda á lofti rétti sínum ef það á ekki að dragast verulega aftur úr í launamálum. Ég geri mér vel grein fyrir því að sú launaþróun sem gæti farið af stað við þá samanburðarfræði kann að verða þjóðfélaginu mjög erfið í þessari stöðu. Mér finnst samt að við verðum bara að horfast í augu við það. Það getur ekki verið svo að við unum því að launaskrið í opinbera geiranum og í hærri launakerfum þjóðfélagsins sé innbyggt í kerfið en að þeir sem hafa lægri launin og þeirra viðmiðanir dragist aftur úr.

Þetta held ég að menn þurfi að athuga vel og þess vegna er sú staða sem við erum í auðvitað afar viðkvæm. Við í minni hlutanum leggjum því til, og ég held að það sé rökrétt þótt erfitt sé eftir að lögin hafa komið til framkvæmda, að ákvörðun Kjaradóms verði tekin algerlega úr sambandi um skamman tíma og að unnið verði hratt að því að semja nýjan lagagrunn fyrir Kjaradóm og kjaranefnd fyrir 15. mars. Jafnframt yrði auðvitað að huga að því hvernig þessi sjálfvirkni hefur átt sér stað og reyna að semja lögin í samræmi við að ákvarðanaferlið verði að taka mið af því sem er að gerast í launakerfum á almenna vinnumarkaðnum í meira mæli en verið hefur.

Það getur ekki verið svo til framtíðar, hæstv. forseti, að opinberi geirinn dragi launahækkanirnar áfram í þjóðfélaginu. Það hlýtur að þurfa að taka mið af framleiðslugetu og taka mið af því hvað framleiðsluatvinnuvegirnir, útflutningsatvinnuvegirnir þola varðandi launakjör. Að það sé litið til þeirra starfa þegar verið er að velta fyrir sér hverjar viðmiðanir eigi að vera í framtíðinni.

Ég held sem sagt, hæstv. forseti, að þegar þessu ferli verði lokið þurfi sérstaklega að huga að kjörum verkafólks í landinu. Mér sýnist það vera að dragast aftur úr öðrum. Auðvitað verður verkafólkið sjálft að taka upp sína vakt og fylgja því eftir í hvaða stöðu það er að komast. En þær upplýsingar sem hafa verið lagðar fram í þessu máli benda til að það sé launaskrið. Að það verði ekkert fram hjá því horft. Mér finnst ástæða til að vekja athygli á því að svo virðist sem ákvæði í ýmsum kjarasamningum um launaskrið sé sjálfvirkt og þar af leiðandi verða viðmiðanir upp á við í kjaranefnd og Kjaradómi.

Ég sé ekki sömu ákvæði í hinum almennu kjarasamningum. Þess vegna held ég að ef áfram heldur óbreytt muni draga enn frekar í sundur með þeim sem eru í hærri tekjunum og fólks á almennum vinnumarkaði. Þess vegna held ég að það sé rétt, hæstv. forseti, að staldra nú við og setja þessi lög, taka þetta ferli úr sambandi og skoða málin með það að markmiði að slík gliðnun haldi ekki áfram í þjóðfélaginu en hún hlýtur eingöngu að geta endað með sprengingu á vinnumarkaði og miklum átökum. Því að sjálfsögðu mun verkafólkið ekki una því að það sitji eftir þegar aðrir eru að taka til sín.