132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[13:52]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gagnrýndi þá fyrir frásagnir þeirra. Í texta nefndarálits minni hlutans stendur, með leyfi forseta:

„Þeir töldu víst að frumvarpið færi gegn ákvæðum stjórnarskrár um eignarrétt og jafnræði, auk þess sem orðalag 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrárinnar heimili ekki að laun forseta séu lækkuð á miðju kjörtímabili.“

Ég sagði frá því, virðulegi forseti, að ég legði heiður minn að veði að ég myndi það nákvæmlega orðrétt hvað Eiríkur Tómasson sagði. Hann sagði: Ég hallast frekar að því — og ég endurtek þetta hér (MÁ: Viltu ná í …?) og við getum þá kallað manninn til vitnis um það sjálfan, við vorum nú tíu eða tólf á fundinum. Ég ítreka þetta og er reiðubúinn að gera það aftur og aftur. Ég gagnrýni það þegar menn fara svo óvarlega og svo rangt með. Ég hef ástæðu til þess vegna þess að þegar við erum að fá menn, virta lögfræðinga, til að koma og tala við okkur þá tel ég að það minnsta sem við getum gert sé að hafa það rétt eftir sem menn sögðu. Þeir lögðu sig alla fram um að segja hug sinn, ég efast ekkert um það, ég ber fullt traust til þeirra. Þess vegna eigum við að sýna þeim þá virðingu að fara rétt með þeirra mál.