132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[14:02]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Málið sem við ræðum hér er komið til 2. umr. og engar breytingar hafa verið gerðar á upphaflega frumvarpinu. Það er ástæða til að nefna það vegna þess að mjög margir hlutir hafa verið dregnir fram sem benda til þess að menn verði að stíga varlegar til jarðar en gert hefur verið hvað varðar stjórnarskrána. Ég ætla ekki að fara nákvæmlega yfir þau atriði en vil segja að þegar ljóst er að vafi leikur á því hvort brotið muni gegn stjórnarskránni þá eiga þingmenn að láta stjórnarskrána njóta vafans.

Væri það erfitt í þessu tilviki? Ég held ekki. Ég held að það væri ekki mjög erfitt. Ég lít líka þannig á að þetta mál sé í raun fremur táknrænt en að gríðarlegar upphæðir séu á ferðinni sem skipti máli hvað varðar viðmiðun í launum á landinu. Vegna þess að möguleikarnir til að breyta launakjörum þeirra sem hér eiga í hlut eru afskaplega litlir. Menn geta mótað nýja launastefnu og haft áhrif á framhaldið, á þróun þeirra launa sem verða greidd í framtíðinni. En það breytist ekki mikið gagnvart þeim launakjörum sem í gildi eru.

Hér er gríðarlega mikið í húfi sagði hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson áðan. Hann kallaði þetta þjóðarnauðsyn, að Alþingi gerði þær breytingar sem hér stendur til að gera. Ég dreg mjög í efa að hægt sé að kalla það þjóðarnauðsyn. Til að þetta mál gagnist eins og menn ætlast til þá þarf fólkið í verkalýðsfélögunum að sjá gripið til ráða sem skipta það miklu máli til að hægt sé að halda áfram svipaðri stefnu hvað varðar hina svokölluðu þjóðarsátt og verið hefur. Ég dreg mjög í efa að það sé hægt að sannfæra verkalýðsfélögin um þetta. Verkalýðsforingjarnir hafa, frá því að þjóðarsáttin komst á, haft það hlutverk að sannfæra sitt fólk um að skynsamlegast sé fyrir það að samþykkja þá samninga sem gerðir hafa verið hverju sinni. Það hefur sannarlega ekki alltaf verið auðvelt. Menn hafa einfaldlega séð að þeir sitja eftir með Svarta Pétur. Það hefur sést í hverjum samningnum eftir annan, að lægstu launabæturnar hafa gengið til almenns launafólks í landinu. Aðrir hafa fengið miklu meira. Ríkið hefur rekið aðra launastefnu gagnvart starfsmönnum sínum en þá sem komið hefur út úr samningum á almennum vinnumarkaði.

Ríkið hefur auk þessa rekið skattastefnu sem hefur komið öðrum til góða en þeim sem búa hér við almenn launakjör. Ég vil þess vegna segja: Ríkið og stjórnvöld í þessu landi hafa í raun svikið þjóðarsáttina. Hvernig geta menn látið sér detta í hug að kippa Kjaradómi úr sambandi og gera ekkert annað en að lýsa yfir með óljósum orðum að þar hafi verið á ferðinni stefnubreyting í launamálum hins opinbera? Telja menn að það dugi til að almennt launafólk í landinu sætti sig við að halda áfram í sama fari og það hefur gert fram að þessu? Mér dettur það ekki í hug.

Ég verð að segja að ef verkalýðsleiðtogarnir sem kölluðu á að úrskurður Kjaradóms yrði felldur úr gildi hafa gert það í þeim tilgangi að varðveita þjóðarsáttina óbreytta til framtíðar þá hafa þeir brugðist sínu fólki. Það er ekki hægt að bjóða almenningi í landinu upp á áframhaldandi þjóðarsátt þar sem almennt launafólk situr eftir með Svarta Pétur. Ef stjórnvöld treysta sér hins vegar til að lýsa yfir að breyta skuli launastefnu ríkisins og skattstefnunni þannig að komið verði til móts við fólkið í landinu og þjóðarsáttin endurlífguð með þeim hætti að menn ætli að koma til móts við þá sem orðið hafa eftir í þessu kapphlaupi þá er hægt að búa til þjóðarsátt. Ég held að skilaboðin til launanefndar sveitarfélaga verði gagnslítil ef þau verða eingöngu fólgin í að kippa til baka þessari niðurstöðu Kjaradóms og gera ekkert meira. Það dugir ekki.

Ég ætla ekki að blanda mér í einhver samanburðarfræði um hverjir hafi hækkað mest og hverjir minnst hjá hinu opinbera, hjá Reykjavíkurborg eða á hinum almenna launamarkaði. Það er hins vegar ekki þrætuefni að gagnvart almennu launafólki snerist þjóðarsáttin ekki bara um launasamninga. Hún hefur allan tímann snúist um almenn kjör fólks í landinu. Það er einmitt ríkisvaldið sem stjórnar gríðarlega stórum þáttum í þeim málum, þ.e. annars vegar sköttum og hins vegar launastefnu hins opinbera. Í báðum tilfellum hefur ríkið svikið samkomulagið. Það hefur svikið þjóðarsáttina í báðum tilfellum. Ég held því ekki fram að það hafi verið að yfirlögðu ráði hvað varðar launastefnu hins opinbera. Það kann vel að vera að þar hafi menn verið óheppnir eða sofið á verðinum og ekki velt nógu vel fyrir sér hvað þeir voru að gera. En ég fullyrði að það er að yfirlögðu ráði sem skattstefnunni sem er í gildi núna var komið á. Milli stjórnarflokkanna fóru fram umræður og var samningaþóf um skattabreytingarnar. Við vitum að hverju er stefnt í því. Það liggur allt fyrir. Niðurstaðan af því er sú að það eru þeir sem hafa bestu kjörin í þessu landi sem fá þar viðbót en hinir hafa minna eða ekkert út úr þeim breytingum. Þær hafa jafnvel skilað sumum, því miður helst þeim sem hefðu þurft á kjarabótum að halda, verri kjörum heldur en þeir bjuggu við áður.

Þannig er gliðnunin sem orðið hefur í samfélaginu á undanförnum árum. Menn geta ekki kallað eftir þjóðarsátt, eins og hv. þingmaður Einar Oddur Kristjánsson gerir hér, endurvakinni þjóðarsátt, eins og hálfs áratugs gamalli, inn í þær aðstæður sem nú ríkja. Þá verða menn að búa til nýjan möguleika, nýja sátt. Hún hlýtur að felast í að ríkisvaldið lýsi yfir nýrri launastefnu og nýrri skattastefnu og séð verði til þess að í komandi kjarasamningum megi vænta betri kjara hjá því fólki sem hefur setið eftir með Svarta Pétur í mörg ár á grundvelli svokallaðrar þjóðarsáttar, leitt áfram af verkalýðsforingjunum sínum, sem hafa séð þróunina hjá hinu opinbera og í skattkerfinu. Þeir hafa samt verið tilbúnir að leggja til að samið yrði um svokallaða hóflega kjarasamninga en sjá líklega fyrir endann á þeirri stefnu. Þróunin verður ekki stöðvuð með því að samþykkja þetta mál. Það þarf meira til.

Ég krefst þess að ríkisvaldið leggi sig fram við að skapa nýja þjóðarsátt um breytta skattstefnu, breytta launastefnu ríkisins, nýja þjóðarsátt um hækkun lægstu launa og bætt kjör þeirra sem hafa það erfiðara en aðrir í þessu samfélagi.