132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[14:48]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður situr í forsætisnefnd Alþingis og ákvarðar t.d. dagpeningana. Þannig að þetta er nú ekki alveg óviðkomandi hv. þingmanni. Þau atriði sem ég nefndi eru allt atriði sem ég hef gert miklar athugasemdir við. Ég vil að laun þingmanna séu uppi á borðum algjörlega og þau séu á hreinu svo menn geti áttað sig á hver þau eru. Ég hef flutt frumvarp um að þingmenn taki lífeyrisréttindi eins og annað fólk og hækki launin sem því nemur þannig að það sé á hreinu hvernig þessum málum er háttað. Ég tek undir með hv. þingmanni. Öll leynd í launum er óeðlileg og alveg sérstaklega hjá opinberum starfsmönnum og forráðamönnum ríkisins. Það kemur sérstaklega niður á jafnrétti karla og kvenna t.d. eins og hv. þingmaður hefur mörgum sinnum benti á. Ég skora á hv. þingmann að breyta þessum reglum um dagpeninga þannig að þingmenn fái greitt samkvæmt kostnaði. Ég hef alltaf átt í vandræðum með þessa dagpeninga. Hef reyndar sent þá að mestu leyti til Hjálparstofnunar kirkjunnar, það eru held ég 700–800 þús. kall eða eða eitthvað svoleiðis gegnum tíðina.

Við verðum að vera sjálfum okkur samkvæm, herra forseti. Það er ekki hægt að tala um að eitthvað sé prívat og persónulegt hjá mér sjálfum og það komi engum við. Þetta eru reglur sem við setjum sjálf. Við setjum sjálf reglur um lífeyrisréttindi þingmanna. Við setjum sjálf reglur um starfskostnaðargreiðslurnar sem eru alveg ótrúlegt fyrirbæri. Við setjum sjálf, eða forsætisnefnd, reglur um dagpeninga. Og vildarpunktar flugfélaganna — við ráðum því að sjálfsögðu ekki, það er um allan heim. En það er afskaplega ósiðlegt kerfi og ég held að þingmenn ættu saman að berjast gegn því.