132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[14:50]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér talar nú sjálfur siðapostulinn á þingi og eins og hreinn engill; (PHB: Ha, nei.) taki ekki dagpeninga, taki ekki starfskostnað og geri ekki hitt og þetta. Ég hef ekki orðið vör við að hv. þingmaður hafi mikið verið að hjálpa mér í því þegar ég hef hér á undanförnum árum verið að reyna að fá fram meira gagnsæi í launakerfi ríkisins með ýmsum hætti. Ég hef ekki orðið vör við að ég hafi haft nokkurn stuðning af hv. þingmanni í því efni. Ég hef ekki setið yfir því í forsætisnefnd að ákveða dagpeningagreiðslur þingmanna. Ég veit ekki einu sinni til þess að það sé sérstaklega forsætisnefnd sem ákveður þær greiðslur. Ég hef haldið að það væri eitthvað sem fjármálaráðuneytið gerði. Af hverju snýr hv. þingmaður sér ekki til hæstv. fjármálaráðherra og lætur taka í gegn þetta dagpeningakerfi almennt hjá ríkinu? Ég hef ekki orðið vör við að hv. þingmaður hafi verið að beita sér í að taka upp dagpeningakerfi hjá ríkinu. Ef honum þykir þetta dagpeningakerfi hjá ríkinu svona ósiðlegt, af hverju snýr hann sér ekki að sínum flokksbróður? Hverjir hafa ráðið fjármálaráðuneytinu á undanförnum 10–15 árum eða allt of lengi? Það er fjármálaráðherra. Það er í höndum hans að breyta þessu. Ég hef oft og iðulega gagnrýnt t.d hvernig háttað er fyrirkomulagi á bílum hjá ráðherrum. Ég hef gagnrýnt ferðakostnað hjá ríkinu og viljað fá hann lækkaðan. Ég hef gagnrýnt dagpeningagreiðslur, hvað þær eru háar. Það er í höndum fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar að breyta því. Ég hef lagt til að lækka þessar greiðslur, ferðakostnað og dagpeningagreiðslur hjá ríkinu, á hverju ári um að minnsta kosti 15% og hv. þingmaður hefur í hvert skipti við fjárlagagerðina fellt þær tillögur. Hann hefur fellt þær. Af því að hann er greinilega svona sáttur við þetta kerfi. (Gripið fram í.) En ég skora á hv. þingmann að tala við (Forseti hringir.) flokksbróður sinn og láta breyta dagpeningakerfinu. Ég hugsa að hann fái stuðning minn til þess. (Forseti hringir.)