132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[14:52]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér liggur fyrir og hefur verið til umræðu frumvarp til laga um breytingu á lögum um Kjaradóm og kjaranefnd. Ég átti sæti við afgreiðslu málsins í efnahags- og viðskiptanefnd og vil eins og aðrir koma inn á þá annars ágætu umfjöllun sem þar átti sér stað. Við fengum fjölda gesta og miklar upplýsingar og áttum þar ágætisumræðu að ég tel.

Menn hafa rifjað með ýmsum hætti upp aðdraganda málsins, eða það andrúmsloft sem myndaðist við úrskurð Kjaradóms fyrir jól. Ég sé í sjálfu sér ekki mikla ástæðu til að rifja það neitt frekar upp. Hér hafa menn einnig rætt um mismunandi sýn á þróun kjara.

Eins og fram hefur komið var á þessum tíma nýlokið endurskoðun á forsendum kjarasamninga og fyrir hendi lá þríhliða samkomulag milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisins. Menn vita, eins og hér hefur komið fram, hvaða viðbrögð urðu við Kjaradómnum og við því þurfti að bregðast.

Ríkisstjórnin tók það frumkvæði í málinu að koma fram með þá tillögu að allir flokkar sem sæti eiga á Alþingi mundu eiga fulltrúa í nefnd sem mundi fara yfir starfsreglur og leikreglur Kjaradóms og kjaranefndar. Stjórnarandstaðan hafnaði því tilboði, vildi ganga fyrst frá lögum þar sem úrskurðurinn yrði felldur úr gildi eða honum frestað. Nú liggur það frumvarp fyrir og mér sýnist af umræðum hv. þingmanna að ekki beri í sjálfu sér mikið á milli þeirra leiða sem liggja fyrir þinginu. Ég held að það sé mikilvægt að okkur takist að klára þetta mál sem allra fyrst, ekki síst vegna þeirrar umræðu sem m.a. á sér stað á launaráðstefnu sveitarfélaganna — þau skilaboð sem koma frá þingi og stjórnvöldum eru mikilvæg inn í þá umræðu. Ég tel að með því sýnum við þann vilja okkar í verki að halda frið á vinnumarkaðnum.