132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[15:18]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður talaði um forsetann og stjórnarskrárákvæðið. Hann vitnaði í það að sérstaklega hefði verið tekið fram í athugasemdum 1944 með stjórnarskrárfrumvarpinu að ákvæðin væru einungis til að vernda rétt forseta til sömu krónutölu og hann hefði í upphafi haft en engan veginn hafi þau tryggt að kaupmáttur krónunnar haldist óbreyttur. Þetta held ég að verði ekki skilið öðruvísi í ljósi sögunnar en að menn hafi talið að forsetinn ætti ekki neina kröfu á verðlagshækkunum á sín laun á því kjörtímabili sem hann sæti og það getur ekki dugað sem skýring á því að það eigi að lækka ákvörðuð laun forsetans eins og hér stendur til af hálfu meiri hlutans og ég tel skýlaust brot á stjórnarskránni.