132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[15:21]
Hlusta

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held ég leyfi mér bara að lesa beint upp úr greinargerð frumvarps hv. þingmanns sem var lagt fram á þinginu árið 2000, svo enginn misskilningur sé nú á ferðinni. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ástæða þess að frumvarpið er lagt fram nú er að þær breytingar sem felast í frumvarpinu verða ekki gerðar á kjörtímabili forseta vegna ákvæðis 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrárinnar ...“

Með öðrum orðum þá verður launakjörum forseta ekki breytt nema í upphafi kjörtímabils. Þetta segir berum orðum í greinargerð hv. þingmanns með sínu eigin frumvarpi. Nú kemur hv. þingmaður og mótmælir því og telur það ekki við hæfi að líkja honum saman við þekkta persónu úr Spaugstofunni sem ekki hikaði við, þegar hann taldi það eiga við, að skipta um hest í miðri á. En það að hv. þingmaður skuli í einni ræðu fara gegn tveimur frumvörpum sem hann sjálfur hefur flutt hlýtur að vera einhvers konar met á hinu háa Alþingi.