132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[15:36]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við göngum hér til atkvæðagreiðslu um mikilvægt mál sem valdið hefur miklum usla og óánægju í samfélaginu. Ekki fyrir þá sök að menn einblíni á niðurstöður Kjaradóms einar, heldur varpar dómurinn ljósi á það kjaramisrétti sem verið hefur að þróast á Íslandi á undanförnum árum. Í efnahags- og viðskiptanefnd hefur verið fjallað rækilega um tillögur ríkisstjórnarinnar en því miður klofnaði nefndin. Það er slæmt að við skyldum ekki ná þverpólitískri samstöðu um aðkomu að þessu máli. Tillögur stjórnarandstöðunnar eru frábrugðnar tillögum stjórnarmeirihlutans að því leyti að stjórnarminnihlutinn, stjórnarandstaðan á Alþingi, hefur sett fram tillögur sem kveða á um að niðurstaða Kjaradóms komi ekki til framkvæmda að neinu leyti en sem kunnugt er vill stjórnarmeirihlutinn að þingmenn, ráðherrar, dómarar og embættismenn sem undir Kjaradóm heyra fái nú 2,5% kauphækkun. Við leggjum hins vegar til að fyrir miðjan marsmánuð liggi fyrir frumvarp um nýtt fyrirkomulag kjaraákvarðana og fái nýr ákvörðunaraðili hreint borð að starfa á. Fyrir 10 árum lagði ég til að kjaraákvarðanir væru færðar inn í þingið þannig að Alþingi stæði og félli með ákvörðunum sínum, væri ábyrgt gerða sinna. Fyrir þessu reyndist ekki vera hljómgrunnur á þinginu. Nú bregður hins vegar svo við að Alþingi telur sig þess umkomið að taka ákvörðun um launakjörin, ganga gegn niðurstöðu Kjaradóms en jafnframt hækka launin um 2,5%. Ég vek athygli þingheims á hversu mótsagnakennd þessi afstaða er, einkum af hálfu þeirra sem hafa verið því andvígir að ákvarðanir um launakjör alþingismanna og embættismanna verði færðar inn í þingið.

Tillögur stjórnarandstöðunnar eru hreinni og beinni en stjórnarmeirihlutans og betur í samræmi við ábendingar lögfræðinga sem komu fyrir efnahags- og viðskiptanefnd. Hinu er svo rétt að halda til haga að fram hefur komið við þessa umræðu að stjórnarmeirihlutinn hefur ekki áhyggjur af kjaramisréttinu í landinu heldur aðeins hinu að launafólk í landinu komi auga á misréttið. Þess vegna er talað um að rugga ekki bátnum eða valda óróa á vinnumarkaði. Kjaramisréttið á að uppræta en það á ekki að fela það. Ég vona að við séum að stíga fyrstu skrefin í þá átt.