132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Fjárframlög til stjórnmálastarfsemi.

[15:04]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Ég vil beina til hæstv. forsætisráðherra fyrirspurn er varðar fjárframlög til stjórnmálaflokka.

Nú stendur yfir prófkjörsbarátta hjá Framsóknarflokknum og sá fjáraustur er einsdæmi, tel ég, í prófkjörsbaráttu í Íslandssögunni. Maður veltir auðvitað fyrir sér hvaðan þessir fjármunir komi. Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra: Hvað líður því að settur verði einhver rammi um fjárframlög til stjórnmálastarfsemi? Þetta ástand er algerlega ólíðandi og menn verða að fara í aðrar heimsálfur til að finna viðlíka reglur og eru hér.

Auðvitað eru menn að koma sér hjá því að svara fyrirspurn sem þessari með því að segja: Málið er í nefnd. Jú, málið er í nefnd og það bólar ekkert á því að við fáum eitthvað út úr því nefndarstarfi. Ég tel að í raun sé mjög einfalt að setja reglur um þessa hluti, herra forseti. Það er bara að fara til annarra landa og sjá hvernig reglurnar eru þar. Það eru ágætisreglur í Noregi og menn geta einfaldlega tekið þær upp. Ég er á því að í þeim fjáraustri sem við sjáum í sambandi við þetta prófkjör í Reykjavík séu miklum mun hærri upphæðir en t.d. Frjálslyndi flokkurinn hefur til umráða til að auglýsa í allri kosningabaráttu sinni. Hvað er að gerast í þessu þjóðfélagi?

Herra forseti. Þetta er ótrúlegt. Eru menn að þakka fyrir sig? Er það S-hópurinn sem er að skila fjármunum til baka inn í prófkjörsbaráttuna? Við verðum að gæta að því að hér er um að ræða aðstoðarmann forsætisráðherra sem er í fullu starfi sem slíkur og virðist hafa ógrynni fjár til að kynna stefnumál sín. Ég verð að segja að þessar reglur og ástandið hér þjónar ekki almannahagsmunum í landinu.