132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Laxeldisfyrirtækið Sæsilfur.

[15:09]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Herra forseti. Undanfarið hafa okkur verið að berast slæmar fréttir af atvinnulífi og rekstri fyrirtækja á landsbyggðinni. Við heyrum að fyrirtæki segja unnvörpum upp fólki, loka, hætta starfsemi og fólk missir vinnu sína.

Nýjasta dæmið um þetta eru fréttir af laxeldisfyrirtækinu Sæsilfri í Mjóafirði sem öflug útgerðarfélög eiga en treysta sér ekki lengur til að halda gangandi. Þau eru að hætta henni, loka. Þau kenna tveimur þáttum um, annars vegar sterkri krónu, stöðu íslensku krónunnar, og hins vegar raforkukostnaði. Þess vegna, virðulegi forseti, kveð ég mér hljóðs og spyr iðnaðarráðherra hvað gera skuli í þessum málum. Á þetta virkilega að ganga svona áfram?

Forsvarsmenn Sæsilfurs hafa nefnt sem dæmi að raforkukostnaður þeirra eftir að nýju raforkulögin tóku gildi hafi hækkað um rúm 30% og eigi eftir að hækka á næstu tveimur árum þannig að hækkunin verður 100% þegar sá tími er kominn. Þeir lýsa því hvernig þessi hái raforkukostnaður gerir það að verkum að þeir neyðast til að loka. Með öðrum orðum virðist með þessu, virðulegi forseti, sem menn ætli að kasta rekum á laxeldi hér á Íslandi. Þetta er dapurt, þetta er aumt, þetta er rothögg og þetta er „nánast dauðadómur“, sagði sá ágæti maður Sigfús Vilhjálmsson, hreppstjóri og oddviti á Brekku í Mjóafirði, sem ég veit að hæstv. iðnaðarráðherra er mjög vel málkunnug. Hann lýsir því líka og segir, með leyfi forseta: „Því miður eru ekki þeir atvinnumöguleikar hér að við getum veitt öllu þessu fólki vinnu. Því miður eru stjórnvöld ekki að gera eitthvað fyrir þessar strjálu byggðir. Það er ekki gert nógu mikið, alla vega. Mér finnst það allt of lítið, eins og með raforkuverðið. Hvað á þetta að þýða?“

Virðulegi forseti. Spurning mín til hæstv. iðnaðarráðherra er: Hvað á þetta að þýða?