132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Laxeldisfyrirtækið Sæsilfur.

[15:14]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst alveg með ólíkindum að hæstv. iðnaðarráðherra fullyrði sífellt eitthvað allt annað í raforkumálum um hækkanir en það sem forsvarsmenn atvinnufyrirtækjanna sem fá reikningana til sín og eiga að borga þá eru að segja. Í hvaða hugarheimi, virðulegi forseti, er hæstv. iðnaðarráðherra? Ég hef lengi vitað að hún væri í mikilli sjálfsafneitun gagnvart landsbyggðinni og atvinnurekstri þar.

Ég geri hér að umtalsefni þetta með raforkukostnaðinn og gengið hvað varðar laxeldið, og hæstv. ráðherra segir bara að forsvarsmenn þessara fyrirtækja sem borga reikningana viti nánast ekki hvað þeir eru að segja. Hvers konar málflutningur er þetta? Það eru hækkanir, þær eru viðurkenndar hvort sem áður voru einhver afsláttarkjör eða hvað. Þetta er að ganga af þessari starfsemi dauðri. Hvers vegna skyldu forsvarsmenn þessara fyrirtækja hugleiða að flytja til Færeyja? Hvað er betra í rekstrinum þar? Ódýrari raforka kannski?

Virðulegi forseti. Það má nefna fleiri atriði í þessu sambandi. Ég geri hér að umtalsefni almennt atvinnuleysi á landsbyggðinni. Hvernig er skipaiðnaðurinn? Skinnaiðnaður á Akureyri lokar á næstu dögum. (Forseti hringir.) Allt eru þetta mál sem heyra undir hæstv. iðnaðarráðherra og þá kemur hún (Forseti hringir.) bara hér og segir að forsvarsmenn atvinnulífsins viti ekki (Forseti hringir.) hvað þeir eru að tala um.

(Forseti (BÁ): Forseti biður hv. þingmenn að virða þann takmarkaða ræðutíma sem er í þessari umræðu.)