132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Fsp. 3.

[15:24]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil sérstaklega taka fram að ég tel afar brýnt og þýðingarmikið að tekið verði á þessu máli en ég geri það ekki nema í samráði og samvinnu við fagaðila. Þeir sem koma að Íslenskri málnefnd, m.a. samkvæmt frumvarpinu, eru Kennaraháskóli Íslands, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Ríkisútvarpið, Háskólinn í Reykjavík, Rithöfundasambandið, Blaðamannafélagið, Hagþenkir o.fl.

Ég tel afar brýnt að allir þessir aðilar sameinist um að reyna að styrkja stöðu íslensku tungunnar. Það er okkar stefna. Ég tel brýnt þess vegna að við afgreiðum það mál sem nú liggur fyrir hjá hv. allsherjarnefnd um Stofnun íslenskra fræða, að það frumvarp komist í gegnum þingið þannig að við getum blásið, eins og ég gat um áðan, til sóknar fyrir hönd íslensku tungunnar og þjóðarinnar.