132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Fsp. 3.

[15:26]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni einmitt fyrir að vekja athygli á frumvarpinu um Ríkisútvarpið. Eitt af leiðarljósum þess frumvarps er einmitt að efla innlenda dagskrárgerð og menningararfinn sem við síðan skilum til framtíðar.

Ég vil líka undirstrika að það er mikilvægt að hér náist þjóðarsamstaða um að efla stöðu íslensku tungunnar. Það er mikilvægt að sú samstaða náist. En það er líka brýnt að ná til allra, þar á meðal heimilanna. Það ágæta fólk sem m.a. stóð að ráðstefnunni í gær í Norræna húsinu hefur líka komið á minn fund og lýst yfir miklum áhyggjum af því að foreldrar lesi ekki nægilega mikið fyrir börnin sín. Þess vegna hvet ég líka heimilin til að taka þátt í að lesa meira fyrir börnin.