132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[15:40]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Ríkisútvarpið hf. Eins og þingmenn þekkja og ég rakti í framsöguræðu minni vegna frumvarps til laga um Ríkisútvarpið sf. á síðasta þingi á endurskoðun laga um Ríkisútvarpið sér töluvert langan aðdraganda. Um þá sögu vísa ég til upphafs umfjöllunar í almennum athugasemdum við þetta frumvarp, um Ríkisútvarpið hf.

Mikil umræða hefur átt sér stað á undanförnum árum um nauðsyn þess að endurskoða lög um Ríkisútvarpið. Ég hef áður sagt að ég hef sjálf lengi verið þeirrar skoðunar, ekki síst eftir að hafa fengið að kynnast starfsemi Ríkisútvarpsins af eigin raun, að nauðsynlegt væri að endurskoða lögin og skipulag stofnunarinnar. Ég lýsti því þessu strax yfir þegar ég tók við embætti menntamálaráðherra og skömmu síðar hófst vinna við endurskoðun laganna.

Núverandi stjórnskipulag stofnunarinnar hefur ítrekað verið gagnrýnt. Ég leyfi mér að halda því fram að það sé almenn skoðun hér á landi að rétt sé að breyta rekstrarumhverfi Ríkisútvarpsins með það að markmiði að styrkja rekstur þess og efla hið mikilvæga menningarhlutverk sem stofnunin gegnir í þjóðfélaginu. Núverandi fyrirkomulag á fjármögnun stofnunarinnar með afnotagjöldum hefur einnig verið gagnrýnt lengi. Menntamálaráðuneytið hefur um nokkurt skeið unnið að tillögum um breytingar á lagaákvæðum um Ríkisútvarpið. Nú á síðari stigum hefur verið unnið náið að endanlegri útfærslu þessa frumvarps sem hér er til umræðu og ég hef lagt fyrir hið háa Alþingi.

Virðulegi forseti. Eins og þingmenn þekkja lagði ég á síðasta löggjafarþingi fram frumvarp til laga um Ríkisútvarpið sf. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir umtalsverðum breytingum á rekstrarumhverfi útvarpsins. Ráðgert var að leggja niður ríkisstofnunina Ríkisútvarpið og að nýtt félag, sameignarfélag, tæki við rekstri þess. Enn fremur var mælt fyrir um afnám afnotagjalda frá og með 1. janúar 2008 og lagt til að rekstur félagsins yrði eftir það grundvallaður á sérstökum skatti, nefskatti sem lagður yrði á einstaklinga og lögaðila, auglýsingatekjum og öðrum tekjum. Auk þessa var lagt til að stjórn félagsins yrði breytt þannig að útvarpsráð yrði lagt niður og við tæki sérstök rekstrarstjórn sem mundi m.a. ráða og reka útvarpsstjóra.

Að mínu mati hlaut frumvarpið mjög góða umfjöllun í menntamálanefnd á sínum tíma. Á því voru gerðar vissar breytingar sem ég tel að almennt hafi verið til bóta. Ég tel rétt að minna á, í tengslum við framsögu mína um þetta frumvarp og með hliðsjón af því sem rakið var í frumvarpinu í fyrra og einnig í þessu frumvarpi, að hinn 23. apríl 2004 gaf Samkeppnis- og ríkisstyrkjadeild Eftirlitsstofnunar EFTA, sem ég mun nefna ESA hér eftir, út leiðbeinandi reglur um ríkisstyrki á sviði almannaútvarpsþjónustu, „public service broadcasting“. Í kjölfarið hófst athugun ESA á fjármögnun og rekstri RÚV á grundvelli 1. mgr. 17. gr. í II. hluta 3. bókunar viðaukasamnings við EES-samninginn um eftirlit og dómstólameðferð.

Hinn 3. júní 2005 barst íslenskum stjórnvöldum tilkynning ESA þar sem gerð er grein fyrir bráðabirgðamati ESA varðandi fjármögnun og rekstur RÚV. Á fundi ESA með embættismönnum fjármála- og menntamálaráðuneytisins í Reykjavík 9. júní síðastliðinn kom fram að rekstrarformið sameignarfélag í eigu íslenska ríkisins sé ekki til þess fallið að leysa úr þeim vandamálum sem leiðir af ótakmarkaðri ábyrgð ríkisins á skuldbindingum RÚV sem ríkisstofnunar. Um þetta er nánar fjallað í almennum athugasemdum með frumvarpinu og ætti því ekki að koma neinum þingmanni á óvart.

Frumvarp þetta byggist fyrst og fremst á þeirri pólitísku stefnumörkun að nauðsynlegt sé að skapa Ríkisútvarpinu ný tækifæri til að dafna og styrkjast, m.a. með því að breyta rekstrarformi þess til nútímahorfs svo það geti staðið undir þeim kröfum sem við gerum til þess varðandi almannaþjónustu og menningarhlutverk. Við samningu frumvarpsins var litið til þeirra athugasemda sem fram hafa komið af hálfu ESA á undaförnum missirum um rekstur Ríkisútvarpsins.

Virðulegi forseti. Með hliðsjón af því sem ég hef sagt hér að framan eru helstu nýmæli frumvarpsins frá núgildandi lögum um rekstur stofnunarinnar eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er ráðgert að leggja niður ríkisstofnunina Ríkisútvarpið og stofna samtímis hlutafélag um reksturinn. Með því er rekstrarformi Ríkisútvarpsins breytt og rekstur yfirfærður í félagsform með takmarkaðri ábyrgð ríkisins. Í stað ótakmarkaðrar ábyrgðar ríkisins á rekstri RÚV, sem frumvarp til laga um Ríkisútvarpið sf. gerði ráð fyrir, leiðir hlutafélagsformið til þess að ábyrgð ríkisins takmarkast við eignir félagsins og það hlutafé sem lagt verður í Ríkisútvarpið hf.

Í öðru lagi er mælt fyrir um afnám afnotagjalda frá og með 1. janúar 2008 og lagt til að rekstur hlutafélagsins verði eftir það grundvallaður á sérstöku gjaldi, svokölluðum nefskatti, framlagi af fjárlögum, auglýsingatekjum og öðrum tekjum sem Alþingi kann síðan að ákveða sérstaklega.

Í þriðja lagi er stjórnun félagsins breytt. Þessi breyting er í meginatriðum tvíþætt. Annars vegar er ytra eftirlit útvarpsráðs lagt af með niðurlagningu þess og hins vegar er innra eftirlit framkvæmdastjórnar Ríkisútvarpsins lagt niður. Gerir breytingin því ráð fyrir að hlutafélagið verði rekið á rekstrarlegum forsendum og stjórnunarvald fyrirtækisins verði alfarið í höndum stjórnar þess.

Í fjórða lagi er mælt fyrir um fjárhagslegan aðskilnað á fjárreiðum reksturs sem fellur undir útvarp í almannaþágu eins og það er skilgreint í 3. gr. og alls annars reksturs sem ekki fellur undir þá skilgreiningu, þar á meðal samkeppnisreksturs.

Auk framangreinds er lagt til að fella niður þátttöku Ríkisútvarpsins í rekstri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sbr. b-lið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 36/1982. Fyrir þeirri breytingu er mælt fyrir í öðru frumvarpi, frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 36/1982, um Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem við munum taka til umræðu á eftir umræðu um þetta frumvarp um Ríkisútvarpið.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan byggir frumvarp þetta á því að ríkisstofnunin Ríkisútvarpið verði lögð niður og nýtt félag, hlutafélag, taki við réttindum og skyldum þess. Ég legg áherslu á að gert er ráð fyrir því að ríkið eigi allt hlutafé í Ríkisútvarpinu hf. og sala félagsins eða eignarhluta þess svo og slit þess séu óheimil. Orðalagið er frábrugðið því sem tíðkast hefur í lögum þar sem ríkisstofnunum er breytt í hlutafélög en þar hefur verið tekið fram að sala hlutafjár væri óheimil nema með samþykki Alþingis. Í þessu frumvarpi kemur ekki fram fyrirvarinn „nema með samþykki Alþingis“ til þess að leggja áherslu á að breytingin er ekki gerð til þess að selja félagið. Það verður einungis gert með nýrri lagasetningu og ég legg þunga áherslu á að engin áform eru uppi um slíkt af hálfu núverandi ríkisstjórnar.

Rekstrarformi Ríkisútvarpsins verður breytt með því að stofnað verður hlutafélag um rekstur Ríkisútvarpsins sem ber heitið Ríkisútvarpið hf., sbr. 1. gr. og ákvæði til bráðabirgða I. Ætlunin er að í meginatriðum hagi félagið starfsemi sinni í samræmi við lög nr. 2/1995 um hlutafélög og Ríkisútvarpið fái þann sveigjanleika í rekstri sem á að fylgja því að breytast úr ríkisstofnun í hlutafélag.

Eins og ég sagði áðan verður íslenska ríkið einn eigandi félagsins eða alls hlutafjár í félaginu og verður sala þess, slit eða innkoma nýrra eigenda óheimil. Ríkissjóður leggur allar eignir, réttindi, viðskiptavild, skuldir og skuldbindingar Ríkisútvarpsins til hlutafélagsins. Þá fær Ríkisútvarpið hf. með lögunum leyfi til útvarps á þeim rásum og á þeim tíðnisviðum sem Ríkisútvarpið hefur til umráða eða Ríkisútvarpinu hf. kann síðar að verða útvarpað. Ég legg einnig sérstaka áherslu á að í frumvarpinu er aðalstarfsemi Ríkisútvarpsins hf. skilgreind með skýrum hætti sem útvarp í almannaþágu eða útvarp með opinbert þjónustuhlutverk, eða á ensku „public service broadcasting“ eins notað er í alþjóðasamfélaginu. Jafnframt því er Ríkisútvarpinu hf. heimilað að standa með annarri starfsemi eða rekstri sem tengist aðalstarfsemi félagsins en í því sambandi er tekið fram að sú heimild er mun takmarkaðri í frumvarpi þessu en var í frumvarpi til laga um Ríkisútvarpið sf.

Mælt er fyrir um fjárhagslegan aðskilnað þess reksturs sem fellur undir útvarp í almannaþágu, sbr. 3. gr., og alls annars reksturs, þar á meðal nýrrar starfsemi sem félagið kann að fara út eitt og sér eða með öðrum og rekstur sem telja má samkeppnisrekstur og ekki fellur undir skilgreiningu um útvarp í almannaþágu.

Menntamálaráðherra fer með eignarhlut ríkisins í félaginu og í því felst m.a. að ráðherra kýs stjórn á aðalfundum félagsins. Hins vegar er ekki mælt fyrir um vald hans til ráðningar á tilteknum starfsmönnum Ríkisútvarpsins eins og nú er gert í lögum um Ríkisútvarpið heldur ræður stjórn félagsins útvarpsstjóra og síðan fer útvarpsstjóri með ráðningarvald allra annarra starfsmanna félagsins.

Stjórn félagsins skal kosin á aðalfundi en áður en sú kosning fer fram skulu kosnir jafnmargir stjórnarmenn, bæði aðalmenn og varamenn, hlutbundinni kosningu á Alþingi, sem síðan skulu kosnir í stjórnina á aðalfundi. Hlutverk stjórnarinnar verður í meginatriðum hin sama og stjórna almennt í hlutafélögum, þ.e. yfirumsjón með rekstri félagsins. Stjórninni er ætlað að skipuleggja starfsemi félagsins ásamt stjórnendum þess. Felld eru brott öll ákvæði um deildaskiptingu fyrirtækisins. Slík ákvæði þykja ekki lengur eiga heima í lögum heldur heyrir það undir eðlilegt starfssvið stjórnenda Ríkisútvarpsins hf. að taka ákvarðanir um skiptingu fyrirtækisins í rekstrareiningar eins og almennt tíðkast í fyrirtækjarekstri. Það er ekki talið meðal verkefna stjórnar fyrirtækisins að hafa afskipti af dagskrá. Útvarpsstjóri er æðsti yfirmaður dagskrárgerðar. Tryggir þetta fyrirmæli ritstjórnarlegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins hf.

Í samræmi við það sem ég hef hér rakið verður útvarpsstjóri æðsti stjórnandi Ríkisútvarpsins hf. í daglegum rekstri, bæði framkvæmdastjóri og yfirmaður allrar dagskrárgerðar á vegum félagsins. Er þetta í stórum dráttum í samræmi við núverandi fyrirkomulag og þó er sjálfstæði útvarpsstjóra aukið frá því sem nú er.

Útvarpsráð verður lagt niður og þar með hætt afskiptum þess af dagskrá.

Með setningu laganna verður framlag ríkissjóðs í formi innborgaðs hlutafjár í upphafi ákveðið a.m.k. 5 millj. kr.

Ég legg sérstaka áherslu á að tryggilega er búið um réttindi núverandi starfsmanna Ríkisútvarpsins og í því sambandi hefur frumvarp þetta tekið mið af þeim breytingum sem meiri hluti menntamálanefndar lagði til í nefndaráliti sínu á síðasta þingi um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið sf. Verði frumvarp þetta að lögum munu allir þeir starfsmenn Ríkisútvarpsins sem við gildistöku þeirra eru ráðnir ótímabundinni ráðningu eða eru skipaðir eiga rétt á störfum hjá Ríkisútvarpinu hf. við yfirtöku þess á starfsemi Ríkisútvarpsins. Samkvæmt frumvarpinu er þeim veittur fortakslaus réttur til starfa hjá félaginu sambærileg þeim sem þeir gegndu áður hjá Ríkisútvarpinu. Þá eru ákvæði rétt starfsmanna hins nýja félags til aðildar að A-deild LSR auk þess sem biðlaunaréttur til starfsmanna helst óbreyttur þiggi þeir starf hjá hinu nýja félagi. Með þessu er reynt að valda sem minnstri röskun á högum starfsfólks. Réttindi þess eiga að vera óbreytt og óskert.

Frumvarp þetta byggir á því eins og frumvarpið frá síðasta þingi að tekjustofnar Ríkisútvarpsins breytast þannig að sérstakt gjald er lagt á þá einstaklinga sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, og lögaðila sem skattskyldir eru skv. 2. gr. sömu laga, sbr. 12. gr. og ákvæði laga til bráðabirgða IV. Fram að þeim tíma, þ.e. til og með 31. desember 2007, verður lagt á og innheimt afnotagjald með sama hætti og verið hefur. Þannig er gert ráð fyrir því að frá og með 1. janúar 2008 falli niður öll ákvæði núgildandi laga um Ríkisútvarpið er varða afnotagjald og innheimtu þess, en það verður þó að gerast í áföngum til að tryggja innheimtu þeirra afnotagjalda sem gjaldfalla í tíð núgildandi laga, samanber gildistöku ákvæði frumvarps þessa.

Svo ég víki stuttlega að fjárhæð hins fyrirhugaða nefskatts, u.þ.b. 13.500 kr., þá er sú fjárhæð ákvörðuð með tilliti til núverandi tekna Ríkisútvarpsins að þær haldist því sem næst óbreyttar en að fjárframlag til Sinfóníuhljómsveitarinnar verði lagt af. Það hefur numið um 25% af tekjum hljómsveitarinnar eða sem svarar til 120 millj. kr. á ári. Við útreikning nefskattsins er við það miðað að Ríkisútvarpið hf. standi straum af 2,6 milljörðum kr., þ.e. 2,6 milljarða kr. skuldabréfi stofnunarinnar vegna áður áfallinna lífeyrisskuldbindinga við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins en afborgun af því á ári nemur um 220 millj. kr.

Miðað er við innheimtu afnotagjalda til og með 31. desember 2007 með sama hætti og verið hefur en frá og með 1. janúar 2008 falli niður öll ákvæði núgildandi laga um Ríkisútvarpið er varða afnotagjaldið og innheimtu þess. Til að tryggja stofnuninni sömu tekjur og hún nýtur í dag er talið að gjald það sem lagt er á hvern einstakling og lögaðila þurfi að nema um 13.500 kr. á ári. Alls leggst gjaldið á um 160 þúsund einstaklinga á aldursbilinu 16–70 ára og um 22 þúsund lögaðila. Gjaldið lýtur sömu lögmálum og sérstakt gjald sem lagt er á samkvæmt lögum um málefni aldraðra til tekjuöflunar fyrir Framkvæmdasjóð aldraðra. Tekjutenging gjaldsins þýðir að tekjulausir eða tekjulágir einstaklingar greiða ekkert gjald.

Ákvæði útvarpslaga eiga að gilda um Ríkisútvarpið hf. að því leyti sem ekki eru sett sérákvæði um félagið samkvæmt þessu frumvarpi. Almenn ákvæði útvarpslaga, nr. 53/2000, eiga því að gilda um Ríkisútvarpið hf. eins og aðrar útvarpsstöðvar, svo sem ákvæði um auglýsingabirtingu, ákvæði til verndar börnum, önnur fyrirmæli sem sett verða í samræmi við Evópusambandstilskipanir 89/552/EBE og 97/36EB, svo sem um hlutfall evrópsks efnis í útvarpsdagskrá og hlutfall efnis frá sjálfstæðum framleiðendum, ákvæði um eftirlit útvarpsréttarnefndar og ákvæði um ábyrgð á útvarpsefni.

Ekki þykir ástæða til að taka upp í frumvarp þetta ýmis ákvæði sem nú er að finna í lögum um Ríkisútvarpið. Við gerð frumvarps þessa hefur verið leitast við að einfalda innra skipulag Ríkisútvarpsins. Vísast til þess að í texta frumvarpsins er einungis lýst helstu atriðum er varða innra skipulag Ríkisútvarpsins hf. Þannig er ekki gert ráð fyrir því að rekstrarleg atriði séu upptalin í lögunum sem eðlilegast er að stjórn félagsins og daglegir stjórnendur taka ákvarðanir um eins og gengur og gerist í almennum hlutafélögum.

Í stórum dráttum munu gilda svipaðar reglur um Ríkisútvarpið hf. og giltu áður um Ríkisútvarpið samkvæmt útvarpslögum, nr. 68/1985, og nú samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið, nr. 122/2000, að því leyti sem ekki hefur verið gerð grein fyrir breytingum hér að framan.

Virðulegi forseti. Um kosti þess að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag vil ég fyrst og fremst benda á að lagarammi um starfsemi hlutafélaga er skýr hér á landi auk þess sem löng hefð er fyrir rekstri slíkra félaga. Eins og menn þekkja eiga sér stað stöðugar breytingar og framfarir á öllum sviðum fjölmiðlunar og því skiptir miklu máli að stjórnendur fjölmiðlafyrirtækja geti brugðist skjótar við breyttum aðstæðum. Ég tel mig geta fullyrt að rekstrarform ríkisstofnana henti illa í þessu sambandi og hlutafélagaformið muni tryggja Ríkisútvarpinu svigrúm sem er nauðsynlegt við þessar aðstæður til að vera í stakk búið til að sinna hlutverki sínu og standa sig í þeirri þjónustu sem því er ætlað að veita. Ég er jafnframt sannfærð um að aukið sjálfstæði félagsins og svigrúm þess til athafna eigi eftir að skila sér til allra starfsmanna þess í betri möguleikum til framtaks í starfi og þar með áhugaverðari starfsvettvangi. Því mæla öll rök með því að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag þó að ríkið verði áfram einn eigandi félagsins.

Þá ber að geta þess að viðskiptaráðherra hefur þegar lagt fram á þingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög, mál nr. 404, þar sem fjallað er um hlutafélög sem eru að öllu leyti í eigu hins opinbera, þ.e. opinber hlutafélög. Eignarhald á Ríkisútvarpinu mun einmitt falla að því formi sem þar er lagt til að verði tekið upp. Með því verður sköpuð eðlileg umgjörð utan um rekstur hlutafélaga í eigu ríkisins, en gert er ráð fyrir að sérreglur um opinber hlutafélög felist einkum í auknu aðgengi að upplýsingum um rekstur slíkra félaga. Að öðru leyti munu sömu reglur gilda um rekstur Ríkisútvarpsins hf. og nú gilda um hlutafélög.

Í frumvarpi þessu er vikið frá þeirri meginreglu hlutafélagalaga að stofnendur og eigendur hlutafélags séu tveir eða fleiri aðilar. Þó eru fordæmi fyrir stofnun hlutafélaga þar sem ríkið er eini eigandinn, sbr. 2. gr. laga nr. 75/1994, um stofnun hlutafélags um Lyfjaverslun ríkisins og heimild til sölu hlutabréfa í því félagi, og í 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 103/1996, um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar. Í fyrrgreindum ákvæðum, og það er rétt að veita þessu athygli, var veitt heimild til stofnunar hlutafélaga þrátt fyrir þann áskilnað í þágildandi hlutafélagalögum að fleiri hluthafa þyrfti til stofnunarinnar.

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir meginþætti frumvarpsins. Ég hef farið nokkuð ítarlega yfir það að Ríkisútvarpið sé hlutafélag í eigu ríkisins og að frumvarpið styrki nú enn frekar sjálfstæði Ríkisútvarpsins með breyttri stjórnun þess. Ritstjórnarlegt sjálfstæði er treyst með því að útvarpsstjóri er æðsti yfirmaður dagskrárgerðar og sjálfstæði hans aukið, auk þess sem ekki þarf lengur að leita tillagna pólitísks kjörins útvarpsráðs um ráðningu starfsfólks og afskipti þess af dagskránni eru afnumin. Öll ákvæði frumvarpsins sem ætlað er að styrkja sjálfstæði Ríkisútvarpsins hf. sem útvarps í almannaþágu eru í samræmi við tillögu og tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins frá 1996 til aðildarríkja þess um tryggingu fyrir sjálfstæði útvarps í almannaþágu einkum að því er varðar ritstjórnarlegt og stofnanalegt sjálfstæði.

Í 3. gr. er fjallað um hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins hf. og hlutverk þess sem útvarps í almannaþágu er skilgreint. Er sú skilgreining sett fram með mun nákvæmari hætti en er í gildandi lögum um Ríkisútvarpið. Almennt má segja að fylgt sé nokkuð hefðbundinni skilgreiningu á skyldum útvarps í almannaþágu, að flutt sé vandað og fjölbreytt dagskrárefni sem nái til allra landsmanna, lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi séu virt, lögð sé rækt við þjóðleg gildi, efnisval sé miðað við þarfir sem flestra þjóðfélagshópa, gætt sé óhlutdrægni, stutt við ýmiss konar menningarstarfsemi, haldið uppi nauðsynlegri öryggisþjónustu — og rétt er að vekja athygli hv. þingmanna á því að það er í fyrsta skipti sem öryggishlutverk Ríkisútvarpsins er lögfest — og starfsemin sé innt af hendi með sem fullkomnustum tækjabúnaði.

Varðandi þetta ákvæði vil ég minna á að ríkisstyrkjareglur sem í gildi eru á Evrópska efnahagssvæðinu leggja þær skyldur á herðar okkar að skilgreint sé í löggjöf hvað telst falla undir útvarpsstarfsemi í almannaþágu sem nýtur ríkisstyrkja. Mikilvægt er að heimildir í þessu sambandi séu víðtækar til að hefta ekki þátttöku Ríkisútvarpsins í þeirri hröðu framþróun sem er í útvarpsrekstri og þeirri tækniþróun sem henni fylgir.

Um starfsemi Ríkisútvarpsins verður að ríkja breið sátt. Ef Ríkisútvarpið fær að beita afli sínu og ríkisstyrkjum til að berja á einkareknum fjölmiðlum á samkeppnismarkaði og færa út kvíarnar stefnulaust væri rofin sú sátt sem hefur ríkt um Ríkisútvarpið. Það getur hins vegar þjónað markmiðum Ríkisútvarpsins sem menningarstofnunar að fara í einstaka tilfellum út fyrir hið hefðbundna svið útvarps og sjónvarps. Innan veggja Ríkisútvarpsins er t.d. að finna gífurleg menningarleg verðmæti, hljóðvarps- og sjónvarpsupptökur er hafa ómetanlegt menningarlegt gildi. Ég tel mikilvægt að þessi verðmæti rykfalli ekki í hirslum RÚV heldur hafi Ríkisútvarpið svigrúm til að gera þau aðgengileg almenningi, hvort sem er í gegnum netið eða með sölu á geisla- eða DVD-diskum. Þetta gæti átt við um útvarpsleikritin, tónleika eða sjónvarpsþætti á borð við margrómaðar Stiklur Ómars Ragnarssonar.

Virðulegi forseti. Ég undirstrika hér að lokum að Ríkisútvarpið gegnir mikilvægu hlutverki sem menningarstofnun í íslensku samfélagi. Það er því mikilvægt að lagarammi Ríkisútvarpsins sé skýr á hverjum tíma og til þess fallinn að tryggja að Ríkisútvarpið geti sinnt þeirri starfsemi sem því er ætlað. Í nýrri skýrslu fjölmiðlanefndar er lögð mikil áhersla á að treysta beri stöðu Ríkisútvarpsins á hljóðvarps- og sjónvarpsmarkaði og telur nefndin mikilvægt að hlutverk RÚV sem almannaþjónustuútvarps verði styrkt eftir föngum. Vil ég sérstaklega taka undir þau sjónarmið fjölmiðlanefndarinnar og tel að með því frumvarpi sem við ræðum hér í dag megi einmitt ná þeim markmiðum sem fjölmiðlanefndin umrædda hefur sett fram í sínu ágæta plaggi.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. menntamálanefndar að lokinni þessari umræðu.