132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[16:15]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú einu sinni þannig að ég og hv. þingmaður erum á öndverðum meiði varðandi skipulag og stjórnun Ríkisútvarpsins. Hann er þeirrar skoðunar að Ríkisútvarpið eigi að vera áfram ríkisstofnun. Ég er ósammála því. Og af hverju er ég ósammála því? Af því ég tel ríkisstofnunarfyrirkomulagið ekki henta Ríkisútvarpinu í því samkeppnisumhverfi sem það býr við í dag. Ég tel að Ríkisútvarpið hf. komi til með að sinna menningarlegu hlutverki sínu mun betur en það gerir í dag, gerir það þó með ágætum í dag, en það á eftir að verða mun öflugra og betra. Það verður mun skýrara stjórnskipulag og stjórnarfyrirkomulag undir Ríkisútvarpinu hf. Því eins og við þekkjum er hlutafélag mun hentugra rekstrarform og mun gegnsærra stjórnkerfi sem ríkir samkvæmt hlutafélagalögum. Það eru mjög skýr lagaákvæði sem gilda um hlutafélög. Ég vil benda hv. þingmanni að lesa lögin um hlutafélög frá árinu 1995. Þar eru ákvæðin mjög skýr og að sjálfsögðu fer Ríkisútvarpið hf. eftir þeim lögum sem þar eru.