132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[16:18]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Rétt er að vekja athygli menntamálaráðherra á því að hún skilur eftir lausa enda í sínu eigin frumvarpi. Í 8. gr. segir svo um réttindi og skyldur Ríkisútvarpsins hf.: „Um réttindi og skyldur Ríkisútvarpsins hf. skal mælt nánar fyrir í samþykktum félagsins.“ Ég lýsi hér með eftir skýringu á þeim orðum. Hver eru þessi réttindi og skyldur sem á að mæla nánar fyrir í samþykktum félagsins? Veit menntamálaráðherra það eða þarf hún að leita til aðstoðarmanns síns þarna í salnum?

Í 10. gr. er enn fremur sagt: „Að öðru leyti en að framan greinir ákveðst starfssvið stjórnar í samþykktum félagsins, …“ Sjálf stjórnin í samþykktum félagsins, segir þar. Hvaða ákvarðanir eru það sem menntamálaráðherra, sem ræður þessum samþykktum einn ef frumvarpið verður að lögum, ætlar að taka um starfssvið stjórnarinnar?

Í 11. gr. segir um útvarpsstjórann: „Í samþykktum félagsins má skilgreina nánar starfssvið útvarpsstjóra.“ Hvaða ferð er á því og hverjar eru þær skilgreiningar sem menntamálaráðherra ætlar að koma með á fyrsta fundinum þar sem hún ákveður sjálf samþykktir (Forseti hringir.) þessa nýja fyrirtækis? Svar!