132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[16:54]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil vekja athygli hv. þingmanns á því að útvarpsstjóri, Páll Magnússon, hinn ágæti útvarpsstjóri er einmitt ósammála Samfylkingunni og talsmanni hennar í þessu máli, hv. þm. Merði Árnasyni.

Með leyfi forseta, segir útvarpsstjóri m.a.:

„Einhverjum kann í fljótu bragði að þykja sem þetta skipti ekki miklu máli, — formið sé aukaatriði en innihaldið aðalatriði. Ekkert er fjær lagi. Þvert á móti má færa fyrir því gild rök að óbreytt rekstrarfyrirkomulag beri í sér dauðann sjálfan fyrir þessa merku stofnun.“

Þetta segir útvarpsstjóri, virðulegi forseti.

Ég vil líka vekja athygli hv. þingmanns og talsmanns Samfylkingarinnar í þessu máli á því að ég hef lesið þingsályktunartillögu þeirra um Ríkisútvarpið. Og í hverju fólst sú tillaga? Fylgiskjölin voru mörg og mikil, innihaldið ágætt, en tillagan fól fyrst og fremst í sér að skipa nefnd. Öðruvísi mér áður brá. Miðað við umræður undanfarinna daga má ekki skipa nefnd í nokkurn skapaðan hlut en það er megintillaga Samfylkingarinnar, að skipa nefnd í málefnum Ríkisútvarpsins, en ekki í sjálfu sér að taka afstöðu til þess hvernig rekstrarfyrirkomulagið á að vera. Ég er nefnilega sammála útvarpsstjóra í því efni að rekstrarfyrirkomulagið skiptir máli. Rekstrarfyrirkomulagið skiptir máli vegna þess að frumvarpið eins og það liggur fyrir mun stuðla að enn betri almannaþjónustu en áður. Það mun auka og efla menningarhlutverkið og það er fyrst og fremst þess vegna sem við erum að berjast fyrir breyttu rekstrarfyrirkomulagi að við eigum enn þá öflugra Ríkisútvarp í almannaþágu.