132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[17:28]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp hæstv. menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið hf. Enn skal reynt og nú í annað sinn. Á vordögum ræddum við frumvarp hæstv. menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið sf. Nú hefur sf. verið skipt út fyrir hf.

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns harma það að hér skuli ekki hafa verið lögð fram samtímis frumvarp um ný fjölmiðlalög og nýtt frumvarp um Ríkisútvarpið. Ég er einn þeirra fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna sem sátu í hinni svokölluðu fjölmiðlanefnd sem skilaði af sér í byrjun apríl á síðasta ári stórri skýrslu upp á einar 200 síður og ég vil fá að ítreka það að við þá skýrslu gerðum við fulltrúar stjórnarandstöðunnar ákveðna bókun. Mér finnst rétt að ég fái að lesa aðeins upp úr henni svo það sé fært til bókar í þingtíðindum hvernig sú bókun leit út núna við upphaf þessarar umræðu nýrra laga um Ríkisútvarpið. Bókunin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alveg frá því að starf nefndarinnar hófst höfum við gert athugasemdir við þá ákvörðun menntamálaráðherra að takmarka svigrúm hennar til að fjalla um málefni Ríkisútvarpsins, samanber bréf frá formönnum þingflokka stjórnarandstöðunnar, sem sent var menntamálaráðherra þegar tilnefnt var í nefndina. Við erum þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að ná sátt um samræmda heildarsýn fyrir íslenska fjölmiðla sem taki bæði til Ríkisútvarpsins og einkarekinna fjölmiðla. Slíkt er einungis mögulegt ef vinnan við lagasetningu um Ríkisútvarpið fer fram samhliða vinnunni við hina almennu löggjöf. Sjálfstætt almannaútvarp stuðlar að pólitískri og menningarlegri fjölbreytni og er forsenda þess að fjölmiðlar geti gegnt aðhaldshlutverki og verið útverðir lýðræðis í samfélaginu. Það er mat okkar að eigi að nást víðtæk sátt í samfélaginu um almenna rammalöggjöf um fjölmiðla, eignarhald og starfsumhverfi verði að tryggja faglegt og rekstrarlegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins gagnvart stjórnvöldum og varðveita það traust sem ríkir milli stofnunarinnar og eigenda hennar, þ.e. þjóðarinnar.“

Síðan ítrekuðum við það þarna á vordögum á síðasta ári að komið væri fram frumvarp um Ríkisútvarpið um það leyti sem nefndin sem við vorum í var að ljúka störfum, án þess að okkur hafi nokkurn tímann verið gerð nein grein fyrir því hvers mætti vænta í þessu nýja frumvarpi um Ríkisútvarpið.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér finnst þetta mjög slæmt. Ég hygg að okkur öllum í stjórnarandstöðunni hafi þótt þetta mjög slæmt enda gerðum við sameiginlega þessa bókun sem var undirrituð hér í Reykjavík þann 7. apríl 2005 af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Kolbrúnu Halldórsdóttur og þeim sem hér stendur. Þetta var síðasta blaðsíðan í þessari viðamiklu skýrslu fjölmiðlanefndarinnar.

Ég hef tekið eftir því að formaður menntamálanefndar, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, hefur komið hér upp tvisvar til að fara í andsvör við jafnmarga talsmenn hinna stjórnarandstöðuflokkanna, þ.e. Samfylkingar og síðan Vinstri grænna. Hann hefur í bæði skiptin verið að höggva eftir því hver væri stefna þessara flokka varðandi Ríkisútvarpið. Hvað þeir vildu nú gera við Ríkisútvarpið. Þetta er gömul ræðutækni að reyna að drepa málunum á dreif með því að tala ekki um það sem menn eru sjálfir að gera heldur benda á andstæðinginn og koma honum í varnarstöðu og fá hann til að festast í tali um það sem hann er að gera. Ég ætla að fá að nota nokkrar mínútur hér til að gera grein fyrir hvað við í Frjálslynda flokknum höfum viljað gera með Ríkisútvarpið, því við um margra ára skeið haft verulegar áhyggjur af þeirri merku stofnun og höfum fimm sinnum lagt fram tillögu til þingsályktunar um rekstur Ríkisútvarpsins. Þessi tillaga hefur verið flutt örlítið breytt frá ári til árs og hún hefur alltaf hlotið þau meinlegu örlög að enda í menntamálanefnd þaðan sem hún hefur ekki átt afturkvæmt eins og með svo mörg önnur ágæt þingmál stjórnarandstöðuflokkanna, nánast öll ef svo má segja.

Við vildum að Alþingi ályktaði um að kosin yrði nefnd sem væri skipuð fulltrúum allra þingflokka þannig að allir þingflokkar fengju að koma að þessu starfi. Þessi nefnd ætti að semja frumvarp um breyttan rekstur Ríkisútvarpsins. Þessi nefnd allra þingflokka ætti að fá að koma að þeirri vinnu að semja þetta frumvarp hér, hvort frumvarpið er það nú, það er víst þetta hér, þetta er víst nýja frumvarpið, hér er gamla frumvarpið frá í fyrra. Maður ruglast auðveldlega á þeim því þau virðast nákvæmlega ef maður rennir augunum yfir þau en þegar maður skoðar þau nánar eru þau svolítið mismunandi. Ég fer yfir það hér á eftir. En hér er sem sagt nýja frumvarpið.

Við hefðum viljað að allir fulltrúar flokka hér á þingi hefðu fengið að koma að þessari vinnu. Ég er ekkert hræddur um að sú vinna hefði þurft að vera svo óskaplega erfið. Ég er ekkert hræddur um það, hef engar áhyggjur af því. Þegar fólk í fjölmiðlanefndinni settist loks niður og fór að vinna saman og tala hvert við annað eins og manneskjur kom í ljós að það var ekkert voðalega erfitt. Það var ekkert svo voðalega erfitt að búa til tillögur um það hvernig við mundum vilja hafa löggjöf fyrir fjölmiðlaumhverfið hér á Íslandi. Að sjálfsögðu tók þetta tíma, þetta var vinna. En það voru engar krísur í gangi. Það var ekki þannig að þetta væri eitthvert óyfirstíganlegt, ofurmannlegt verkefni sem fólk væri að takast á hendur. Að sjálfsögðu ekki. Það kom í ljós þegar upp var staðið nú í byrjun apríl á síðasta ári að við höfðum náð lendingu í þessu máli. Allar götur síðan, virðulegi forseti, hef ég beðið spenntur eftir að á hinu háa Alþingi kæmi fram frumvarp um fjölmiðlalöggjöf á Íslandi — að það kæmi fram fyrir jól, kæmi fram strax á haustdögum, vegna þess að ég tel að það þurfi ekki að vera svo mikið vandamál fyrir sérfræðinga og lögspekinga á vegum menntamálaráðuneytisins að setjast niður og útbúa frumvarp um fjölmiðlaumhverfi á Íslandi á grundvelli niðurstaðna fjölmiðlanefndar. Á sama tíma hefði líka átt að koma með nýtt frumvarp um Ríkisútvarpið. Ég hef skoðað bæði þessi frumvörp og borið þau saman og ég fæ engan veginn séð að það hafi þurft að taka rúmlega hálft ár að útbúa þetta nýja frumvarp þar sem Ríkisútvarpið átti allt í einu að verða hlutafélag í staðinn fyrir svokallað sameignarfélag. Þetta voru ekki svo stórkostlegar breytingar að það hefði þurft að draga þetta svona á langinn. Þetta hefði átt að vera tilbúið hér í haust þegar þing kom saman. Þá værum við sennilega búin að afgreiða bæði þetta mál og líka löggjöf um fjölmiðla. Við hefðum sennilega getað afgreitt það núna um áramótin. Þá væru þessi mál úr sögunni. Þetta er alveg ótrúlegur seinagangur, virðulegi forseti.

En aftur að því sem við í Frjálslynda flokknum höfum viljað gera. Ég nefndi hér áðan að við hefðum viljað koma á fót nefnd fulltrúa allra þingflokka. Við í Frjálslynda flokknum leggjum nefnilega mjög þunga áherslu á að Ríkisútvarpið sé menningarstofnun, viðurkennd stoð fyrir íslenska tungu og íslenska menningu. Ég tel, og við teljum öll í mínum flokki, að rekstur Ríkisútvarpsins sé hreint og beint ómissandi til þess að gefa íslenskum almenningi kost á að fá hvers konar fræðslu- og menningarefni sem aðrir ljósvakamiðlar vanrækja. Hér tel ég að margir séu sammála mér. Því þegar við skoðum íslenska ljósvakamiðla í dag verður ekki annað sagt en að oft og tíðum er efni sem þar er á borð borið afskaplega sorglegt. Ekki er mikill metnaður þar á bak við. Erlendar seríur einhverjar, framhaldsþættir, yfirleitt amerískir, og svo er hent inn á milli kannski einhverju íslensku efni sem er afskaplega ódýrt í framleiðslu og oft og tíðum liggur lítið á bak við það.

Ég tel að fjölmiðill eins og Ríkisútvarpið, sem ætti að standa fyrir metnaðarfullri fræðslu og menningardagskrá á íslensku en líka á erlendum tungumálum, verði að vera í þjóðareign og fjármagnaður af almenningi. Við höfum lagt það til að Ríkisútvarpið yrði fjármagnað úr ríkissjóði, að það yrði hreinlega á fjárlögum. Ég hef sjálfur haft svolitlar efasemdir um það. Ég óttast að ef slík stofnun yrði sett á fjárlög þá muni þingið á hverjum tíma falla í þá freistni að fjársvelta hana. Ég hef enn þá efasemdir um þetta. En ég er ekki einn í mínum þingflokki og félagar mínir hafa frekar hallast að þeirri hugmynd að fjárlög skuli það heita og þá verð ég víst að segja gott og vel. En ég hef samt sem áður maldað svolítið í móinn út af þessu.

Við höfum lagt ríka áherslu á að það beri að taka tillit til þess að Ríkisútvarpið er almannafjölmiðill sem er mjög mikilvægur, til að mynda ef vá ber að höndum. Ríkisútvarpið býr yfir mjög víðtæku dreifingarkerfi og það útvarpar um allt landið og miðin, bæði á FM-tíðnum en líka á langbylgjunni og langbylgjan er mjög mikilvæg fyrir þetta. Ekki síst fyrir það fólk sem er að ferðast um landið. Ég veit það sjálfur af eigin reynslu að þegar ég er á ferðalagi um landið þá nota ég langbylgjuna mjög mikið því hún er mjög stöðug og örugg rás að hlusta á.

Við höfum viljað að Ríkisútvarpið yrði virkur fræðslumiðill. Þetta fjölmiðlafyrirtæki sem miðlar í gegnum sjónvarp en líka gegnum útvarp og á internetinu gæti verið fræðslumiðill fyrir alla þjóðina sem sinnti þá símenntun og almenningsfræðslu og yrði uppspretta og farvegur fyrir vaggandi og frjóa samfélagsumræðu. Þarna tel ég að Ríkisútvarpið búi yfir mjög miklum möguleikum sem alls ekki hafa verið nýttir til fullnustu. Við hefðum viljað að dagskrárstefnan yrði laus undan öllum markaðsáhrifum og að sjálfsögðu yrði fjölbreytni í dagskrárgerð gætt þannig að það mætti mæta þörfum sem flestra landsmanna, til dæmis með mismunandi rásum sem þjónuðu mismunandi hópum, nú eða kannski mismunandi þáttum sem þjónuðu áhugasviði einstakra hópa í þjóðfélaginu. Það hefur sýnt sig í Ríkisútvarpinu að slíkir þættir geta notið mjög mikilla vinsælda og má þar nefna fréttaþáttinn Auðlind, fréttaþátt um sjávarútvegsmál, sem var alla tíð gríðarlega vinsæll þáttur hjá fólki bæði til sjávar og sveita og úti á miðunum en hefur af einhverjum óskiljanlegum ástæðum verið sleginn af.

Fleira mætti telja hér, virðulegi forseti, til að mynda hvernig við mundum vilja hátta skipun og hlutverki útvarpsráðs og ráðningu útvarpsstjóra, ábyrgð hans og öðru þess háttar. Þetta er allt saman tíundað í þingsályktunartillögu sem við í Frjálslynda flokknum lögðum fram hér á Alþingi og mæltum fyrir síðast á 131. löggjafarþingi en hún fékk eins og alltaf þau meinlegu örlög að hverfa í menntamálanefnd og eiga ekki afturkvæmt. Við höfum ekki lagt þessa þingsályktunartillögu fram á þessu þingi núna vegna þess að við vissum að þess væri vænta að nýtt frumvarp kæmi fram frá hæstv. menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið. Við vildum bíða og sjá til hvernig frumvarp menntamálaráðherra hæstv. mundi líta út því við höfum alla tíð verið viljug til að hlusta á sjónarmið annarra í þessu máli og skoða tillögur annarra um hvernig framtíðartilhögun Ríkisútvarpsins skuli háttað. Það var meginástæðan fyrir því að við ákváðum að bíða með að leggja fram okkar þingsályktunartillögu en hún er að sjálfsögðu til, hún er færð til bókar í Alþingistíðindum. Það er hægt að nálgast hana á netinu. Þar má segja að okkar vilji sé meitlaður og okkar skoðanir á því hvernig Ríkisútvarpið eigi að verða í framtíðinni. Almannaútvarp, almannafjölmiðill í þjóðareigu. Áfram í eigu ríkisins. Við gjöldum mjög varhuga við hlutafélagavæðingunni, meðal annars vegna þess að okkur grunar að þarna sé kannski maðkur í mysunni, að það standi til að einkavæða fyrirtækið í framtíðinni, að selja það einkaaðilum. Eins og talsmenn annarra stjórnarandstöðuflokka sem hafa rætt hér um þetta mál á undan mér hafa einmitt bent á að þá hefur það yfirleitt orðið niðurstaðan þegar ríkisfyrirtæki hafa verið hlutafélagavædd eða gerð að hlutafélögum, að þau hafa á endanum verið seld einkaaðilum. Ég tel að það yrði ekki gæfuspor fyrir okkur Íslendinga. Að sjálfsögðu má fallast á að það megi laga til ýmislegt hjá Ríkisútvarpinu, en ég tel að það eigi að leggja mikla áherslu á að það verði áfram í eigu íslensku þjóðarinnar. Enda er það svo í nágrannalöndum okkar alls staðar, þar sem ég veit að minnsta kosti, að þjóðirnar hafa einmitt haft ráð og rænu á að varðveita sína ríkisfjölmiðla vegna þess að þeir gegna svo mikilvægu hlutverki.

Tíminn líður hratt. Mig langaði aðeins að koma að nokkrum athugasemdum varðandi þetta nýja frumvarp. Ég tók mig til og las bæði frumvörpin saman, þ.e. bæði frumvarpið um sameignarfélag frá því í fyrravor og síðan þetta frumvarp um Ríkisútvarpið hf. sem nú liggur fyrir. Það eru nokkur atriði þarna sem vekja spurningar, t.d. hvað varðar réttindi starfsmanna. Í gamla frumvarpinu var, með leyfi forseta, orðrétt sagt sem svo:

„Þegar stofnunin Ríkisútvarpið verður lögð niður fer um réttindi og skyldur starfsmanna hennar eftir lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum, og lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti á fyrirtækjum, eftir því sem við á.“

Síðan segir hér:

„Fastráðnir starfsmenn Ríkisútvarpsins skulu eiga rétt á störfum hjá hinu nýja félagi og skulu þeim boðin störf hjá því sambærileg þeim er þeir áður gegndu hjá stofnuninni.“

Þetta var í gamla frumvarpinu. Síðan var talað um biðlaunarétt og annað, lífeyrissjóði og slíka hluti. En í nýja frumvarpinu stendur þetta, með leyfi forseta:

„Þegar stofnunin Ríkisútvarpið verður lögð niður fer um réttindi og skyldur starfsmanna hennar eftir lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum, og lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, eftir því sem við á.“

Og svo segir hér:

„Ríkisútvarpið hf. skal bjóða störf öllum starfsmönnum Ríkisútvarpsins.“

Hér er ekkert um það að fastráðnir starfsmenn Ríkisútvarpsins í dag skuli eiga rétt á störfum hjá hinu nýja félagi sem skuli vera sambærileg við þau störf sem þeir gegna hjá stofnuninni núna. Einungis er sagt að Ríkisútvarpið hf. skuli bjóða starfsmönnunum ný störf hjá Ríkisútvarpinu. Þannig að það er hægt að gera magnaravörðinn að skúringakonu, eða hvað? Er hægt að setja fréttamanninn í símavörslu? Tæknimaðurinn getur séð um þrif á fréttastofu sjónvarps. Svona mætti lengi telja. Er verið að tala um þetta? Er hægt að stilla fólki upp við vegg og segja: Þú getur fengið þetta starf hér, eftir að Ríkisútvarpið er orðið að hlutafélagi, ef þú vilt það ekki þá er það þitt vandamál. Þá getur þú bara hætt. Er það þetta sem liggur á borðinu? Ég held að það sé mikilvægt fyrir starfsfólk Ríkisútvarpsins að það fái að heyra það mjög skýrt hvað hér er á ferðinni. Hjá Ríkisútvarpinu vinnur margt gott og hæft starfsfólk og hefur unnið þar lengi, það fólk á skilið að fá skýr svör hvað þetta varðar áður en þetta frumvarp verður að lögum.

Ég ætla svo sem ekki að hafa mál mitt miklu lengra að sinni. Þetta er aðeins upphafið að miklum ræðuhöldum hér í þinginu um þetta mál. Síðan bíðum við að sjálfsögðu spennt eftir að sjá heildarfrumvarpið um fjölmiðlana sem er byggt á þessari ágætu skýrslu hér. Ég vann við gerð þessarar skýrslu og er stoltur af því að eiga hlutdeild í henni. Ég vil enn og aftur, og geri það að mínum lokaorðum, ítreka óskir mínar um að menntamálaráðherra hæstv. sjái til þess að vinnu við frumvarpið, heildstæða löggjöf um fjölmiðla hér á Íslandi, verði hraðað. Því eins og ég sagði í upphafi máls míns: Þegar öllu írafárinu linnti og storminn lægði í því máli komi í ljós að hér gat fólk virkilega náð sáttum og lendingu í erfiðu máli og ég hygg líka að svo verði líka varðandi þetta frumvarp um Ríkisútvarpið. Það verður hægt að ná lendingu í því máli. Ég vil líka hvetja hæstv. menntamálaráðherra til að sýna stjórnarandstöðunni skilning og hlusta á mál okkar. Við erum ekki í einhverju málþófi eða einhverjum illindum til að reyna að ná okkur niðri á ríkisstjórninni. Við erum fyrst og fremst að hugsa um hag þjóðarinnar. Ég held að við séum öll að hugsa um hag þjóðarinnar og hag Ríkisútvarpsins.