132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[17:56]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Það má segja að loksins hafi komið á dagskrá mál sem lengi hefur verið í umfjöllun bæði í utandagskrárumræðum, í fjölmiðlum og í umræðunni almennt, þ.e. frumvarp til breytinga á lögum um Ríkisútvarpið. Þetta er stórt og mikið mál og það er viðkvæmt og hvers vegna skyldi það vera viðkvæmt? Vegna þess, eins og fram hefur komið í umræðunni, að þjóðin elskar Ríkisútvarpið og vill hag þess sem mestan og að það starfi áfram blómlega.

Að mínu mati snýst þetta mál einkum um þrjú meginatriði. Það er um eignarhaldið á Ríkisútvarpinu, hvort það er í ríkiseigu eða ekki, um rekstrarform og svo að sjálfsögðu um hlutverk Ríkisútvarpsins, sem líklega er meginatriðið.

Á vegum Framsóknarflokksins hefur farið fram gífurlega mikil vinna á liðnum árum. Vinnuhópar hafa lagst yfir Ríkisútvarpið, stöðu þess og framtíð og kallað til sín ýmsa utanaðkomandi gesti. Á síðasta flokksþingi var svokallaður menntamálahópur sem lagði megináherslu á að rekstrarformi Ríkisútvarpsins yrði breytt frá núverandi stöðu. Niðurstaðan á því flokksþingi varð því sú að breyta fyrri samþykktum og leggja til að rekstrarformi Ríkisútvarpsins yrði breytt án þess að skilgreint yrði nánar með hvaða hætti. Þetta var niðurstaðan á síðasta flokksþingi Framsóknarflokksins og þar með var um leið numin úr gildi ályktun frá því fyrir fjórum árum þar sem mælt var með sjálfseignarstofnun umfram hlutafélag. Þetta er sú breyting sem átti sér stað að lokinni mikilli vinnu sérstaks vinnuhóps sem lagði þetta til í menntamálahópi á síðasta flokksþingi og þannig var það samþykkt.

Hvað skyldi fyrst og fremst hafa ráðið afstöðubreytingu um rekstrarform? Það má alveg tala tæpitungulaust um að útgangspunkturinn í allri umræðunni er eignarhaldið, að Ríkisútvarpið verði áfram í ríkiseigu eins og verið hefur og ég hygg að enginn ágreiningur sé um það á hv. Alþingi, að það sé vilji löggjafarvaldsins að Ríkisútvarpið verði í ríkiseigu.

Hvað varðar Framsóknarflokkinn töldu menn að samstarfsflokkurinn hefði ef til vill ekki talað nógu skýrt í þessum efnum. Stöku raddir höfðu heyrst um að selja ætti hlut af Ríkisútvarpinu og jafnvel allt og það hugnaðist flokksmönnum mínum alls ekki. En nú liggur hins vegar alveg ljóst fyrir af hálfu Sjálfstæðisflokksins, eins og fram kemur í frumvarpinu og í framsöguræðu hæstv. ráðherra, að engin áform eru um að selja Ríkisútvarpið. Þetta er að sjálfsögðu lykilatriði því það er útgangspunktur að eignarhaldið sé og verði áfram ríkisins.

Ef eitthvað er má segja að með frumvarpinu sé jafnvel hert á eignarákvæði ríkisins á Ríkisútvarpinu því að staðreyndin er einfaldlega sú, eins og reyndar hefur komið lauslega fram í umræðu, að miðað við lögin eins og þau eru núna væri auðvelt að selja hluta af Ríkisútvarpinu með einni lítilli setningu, t.d. við fjárlagagerð, þar sem heimilt væri að selja svo og svo mikinn hluta af þeirri stofnun, eins og oft hefur tíðkast. Í frumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir að slík ákvörðun dugi ekki heldur þurfi að taka upp öll lög og það sé beinlínis óheimilt að selja Ríkisútvarpið. Með því er að sjálfsögðu verið að senda afar skýr pólitísk skilaboð um að Ríkisútvarpið sé og eigi að vera áfram í ríkiseigu.

Hvað varðar þá afstöðu sem tekin var á síðasta flokksþingi Framsóknarflokksins fæ ég ekki betur séð en hún sé nokkuð samhljóma þeirri ályktun sem kom frá Starfsmannafélagi Ríkisútvarpsins þar sem hvatt er til þess að breyta rekstrarforminu án þess að taka afstöðu til þess hvaða form skuli tekið upp. Ég fæ heldur ekki betur séð ef maður tekur mark á þeim orðum sem höfð hafa verið eftir m.a. varaformanni Samfylkingarinnar. Fram kom á NFS fréttastöðinni þar sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson var í viðtali við hæstv. menntamálaráðherra að það væru tvö meginatriði sem Samfylkingin liti á. Annars vegar það að Ríkisútvarpið væri í eigu ríkisins og hins vegar að ákvæði um upplýsingaskyldu yrðu uppfyllt. Í sama streng finnst mér hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafa tekið, formaður Samfylkingarinnar, þar sem hún hefur talað um að vel komi til greina að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið að uppfylltum þessum tveimur sömu skilyrðum

Nú hefur verið mælt fyrir og dreift í þingsal frumvarpi sem svona óbeint tengist þessu, þ.e. frumvarpi frá hæstv. viðskiptaráðherra, um hlutafélög í eigu ríkisins. Af máli hv. þingmanna Samfylkingarinnar verður þó ekki heyrt annað en þeim finnist hvað upplýsingaþáttinn varðar að ekki sé nógu langt gengið í því frumvarpi. En ég fæ ekki betur séð að ef slíkt frumvarp taki breytingum í efnahags- og viðskiptanefnd þegar það fer þar í gegn sé ágreiningur á milli stjórnarflokkanna annars vegar og Samfylkingarinnar hins vegar upphafinn ef marka má orð formanns og varaformanns Samfylkingarinnar eins og þau hafa talað í fjölmiðlum a.m.k.

Hins vegar er alveg ljóst með afstöðu Vinstri grænna og kemur ekki á óvart og ef ég miða við ræðu hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar verður ekki annað séð en að Vinstri grænir séu sá flokkur sem einn á þingi leggst alfarið gegn því að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag og kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Þetta var um eignarhaldið og ég held að við þurfum ekki að eyða miklum tíma í það, um það er enginn pólitískur ágreiningur, það stendur ekki til að setja Ríkisútvarpið á sölu. En það má þó bæta því við að ef svo ólíklega vildi til að vindar breyttust þannig að hér myndaðist meiri hluti á Alþingi fyrir því að selja Ríkisútvarpið þá hygg ég að formið skipti ekki máli, hvort það er venjuleg ríkisstofnun, hlutafélag, sameignarfélag eða hvað annað. Ef svo ólíklega vildi til að slíkur meiri hluti myndaðist á hv. Alþingi, þá tæki slíkur meiri hluti þá ákvörðun en það stendur sem sagt ekki til í dag.

Ef við víkjum að rekstrarforminu þá finnst mér mjög mikilvægt að líta á það sem er að gerast á fjölmiðlamarkaði. Við höfum séð að samþjöppun á sér stað á fjölmiðlamarkaði. Upp er kominn líklega aðalkeppinautur Ríkisútvarpsins sem er hið kraftmikla fyrirtæki 365 fjölmiðlar sem hefur byggt sig upp og sækir fram mjög grimmt og myndarlega og er að sjálfsögðu í harðri samkeppni við Ríkisútvarpið. Munurinn er auðvitað sá að önnur stofnunin er bundin af þeim lögum sem hv. Alþingi hefur búið henni, er að mörgu leyti ósveigjanleg stjórnsýslulega séð, ábyrgð nokkuð óljós og þar fram eftir götunum, en hin hefur í rauninni alla þá dínamík, þann sveigjanleika og hreyfanleika sem lifandi fjölmiðli og lifandi fyrirtæki er nauðsynlegt og ef einhvern tíma hefur verið þörf á að standa sig í slíkri samkeppni þá er það núna. Og ef við skoðum þau tæki og tól og það umhverfi sem samkeppnisaðilar Ríkisútvarpsins hafa með sínum sveigjanleika, hreyfanleika, krafti og lagaumgjörð þá er ólíku saman að jafna miðað við það umhverfi sem Ríkisútvarpinu er búið og því er samt ætlað að standa sig í samkeppni við samkeppnisaðila sem býr við miklu sveigjanlegra lagaumhverfi en sú stofnun. Þess vegna er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að færa Ríkisútvarpinu og starfsfólki þess það rekstrarform sem skapar þennan sveigjanleika þannig að starfsfólk Ríkisútvarpsins geti sinnt vilja sínum, þ.e. að standa sig í samkeppni við aðra fjölmiðla og um leið að sinna því hlutverki sem Ríkisútvarpinu er ætlað. Því er mjög mikilvægt og aldrei jafnmikilvægt og núna að ábyrgðin sé afar skýr hjá stofnuninni. Hún er það ekki í dag. Það hefur komið fram m.a. hjá útvarpsstjóra að ábyrgðin er mjög óljós, hún dreifist víða með þeim afleiðingum að í rauninni liggur hún alls staðar og hvergi. Það er stjórnsýslulega þunglamaleg stofnun, það er erfitt að ná breytingum í gegn og koma að ákvörðunum og hrinda þeim í framkvæmd. Þetta er það sem fram hefur komið hjá útvarpsstjóra og líklega sú hugsun sem býr að baki þeirri ályktun sem hefur heyrst frá Starfsmannafélagi Ríkisútvarpsins um að breyta rekstrarforminu með einhverjum hætti og rífa stofnunina þar með út úr því staðalumhverfi sem löggjafarvaldið hefur búið henni.

Niðurstaðan samkvæmt frumvarpinu er sú að nýta sér þann ferskleika sem atvinnulífið telur að fylgi hlutafélögum og mælt er með. Og þá er ágætt einmitt að líta til annarrar ríkisstofnunar sem hefur verið breytt úr hefðbundinni tiltölulega þunglamalegri ríkisstofnun yfir í hlutafélag og á ég þar við Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Ég minnist vel þeirrar umræðu og þess ótta sem greip um sig þegar sú breyting átti sér stað. Menn spáðu miklum vandræðagangi, menn spáðu því jafnvel að það fyrirtæki, Flugstöð Leifs Eiríkssonar, mundi lognast út af og hverfa á braut. En hver hefur orðið raunin? Ég fullyrði það, frú forseti, að aldrei hefur verið sótt fram af jafnmiklum krafti og jafnmiklum þrótti hjá Flugstöð Leifs Eiríkssonar og núna eftir þá breytingu. Um það er starfsfólkið sammála, um það eru stjórnendur sammála og um það eru í rauninni allir sammála. Hvað er það sem veldur þeirri miklu breytingu? Fyrst og fremst það að geta notað þennan hreyfanleika, þennan sveigjanleika og hina skilvirku stjórnun sem fylgir hlutafélagaforminu þar sem ábyrgðin er skýr. Með öðrum orðum, einföld stjórnsýsla, hætta hinum beinu pólitísku afskiptum eins og of oft hefur verið kvartað undan með núverandi fyrirkomulagi og ekki síst að ábyrgðin sé skýr. Samkvæmt frumvarpinu er útvarpsráði hinu nýja ætlað að leggja meginlínur sem síðan stofnunin fylgir eftir án þess að útvarpsráðsmenn hinir nýju séu með bein afskipti af eins og oft hefur verið kvartað undan núna. Með öðrum orðum, verið er að klippa á milli þeirra tengsla og skapa skilvirkan og skýran stjórnunarstrúktúr fyrir þessa ágætu stofnun. Þess vegna standa ríkisstjórnarflokkarnir og líklega einhverjir aðrir úr stjórnarandstöðu að því að styðja þá leið sem hér hefur verið lýst og er farin samkvæmt frumvarpinu.

Að lokum, frú forseti, er rétt að vísa til þess að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að vel sé hugað að réttindum starfsfólks og í því felst auðvitað viljayfirlýsing og það er það markmið sem flytjendur frumvarpsins hafa sett sér. Einnig þarf að hafa það í huga að samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að Ríkisútvarpið fái 5 milljarða í meðgjöf sem hlutafélag og það þarf að huga vel að því hvort sú upphæð dugar vegna þeirra skuldbindinga sem stofnunin kann þegar að sitja uppi með. Það er ekki nóg einungis að skapa það lagaumhverfi og þann stjórnunarstrúktúr sem stofnuninni er nauðsynlegur til að spjara sig í hinum harða heimi fjölmiðlanna heldur þarf að skapa henni réttan grundvöll fjárhagslega þegar hún leggur út í hið nýja umhverfi.

Hvað varðar hlutverkið að lokum, frú forseti, þarf í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð um það. Ég hygg að um það sé enginn pólitískur ágreiningur og nægir að vitna til 3. gr. frumvarpsins þar sem fram kemur skilgreining á hlutverkinu. Það er metnaðarfull skilgreining, þ.e. á almannaútvarpi, að sinna eigi menningu, lýðræðislegri umræðu og þar fram eftir götunum, ekki þarf að endurtaka það. Ég hygg að enginn ágreiningur sé um það en til að ná fram þeim metnaðarfullu markmiðum er aðalatriðið að Ríkisútvarpið verði áfram í eigu ríkisins sem hinn lifandi miðill og hafi sveigjanleika til að geta staðið sig bæði í samkeppni og að starfsmenn geti sinnt þeim skyldum sem á þá eru lagðar með Ríkisútvarpinu. Það verður mjög spennandi að vinna að þessu máli í hv. menntamálanefnd.