132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[18:12]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við ræðum um málefni Ríkisútvarpsins. Hv. þm. Hjálmar Árnason kemur hér upp og eyðir drjúgum ræðutíma sínum í að réttlæta það fyrir sjálfum sér og öðrum og segir okkur frá því hversu mikil vinna hafi í það farið innan Framsóknarflokksins að lúffa algerlega, liggja hundflatur fyrir Sjálfstæðisflokknum í þessu máli. Er það ekki staðreyndin? Eins og svo oft áður kemur Framsóknarflokkurinn hér, stendur á bremsunni í einhvern tíma en síðan er bara lagst fyrir Sjálfstæðisflokknum og allt á yfir þá að ganga.

Hv. þm. Hjálmar Árnason talar um að ekki standi til að selja Ríkisútvarpið. En við vitum vel að það að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi er auðvitað fyrsta skrefið í að selja stofnunina, því miður.