132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[18:13]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek það svo að aðeins einni spurningu hafi verið beint til mín og hún hafi komið fram í lokaorðunum, þ.e. hvort til standi að selja. Ég eyddi einmitt megninu af tíma mínum til að fjalla um það. Það liggur alveg ljóst fyrir af hálfu ríkisstjórnarflokkanna og ég hygg allra flokka á þingi að það standi ekki til. Hafi hv. þingmaður lagt við hlustir þegar ég flutti mál mitt snerist það fyrst og fremst um að gera grein fyrir því hvað hafi breyst í umhverfinu og það verða pólitískir flokkar að gera. Þeir verða að taka mið af því sem gerist í umhverfinu.

Meginatriðið er það og útgangspunkturinn er sá að Ríkisútvarpið er ekki til sölu, það verður ekki selt en hins vegar er mikilvægt að skapa því það rekstrarform sem hentar best til að halda lifandi, sveigjanlegum fjölmiðli gangandi. Það er meginmarkmið frumvarpsins.