132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[18:17]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hirði lítið um að svara þeirri einkunn og þeim orðum sem hv. þingmaður notaði hér í upphafi en vísa enn og aftur til ágætrar vinnu sem fram fór á flokksþingi. Það er einmitt vettvangur til að fara opinn inn á og skoða mál en ekki að festast stundum í fortíð eins og flokkur hv. þingmanns á til að gera. Ég trúi ekki öðru en að hv. þingmaður geri sér grein fyrir því sem svo oft hefur fjallað um að ábyrgð á einstökum þáttum innan Ríkisútvarpsins sé mjög óljós. Ég hygg að allir starfsmenn hafi kvartað undan því hvar ábyrgðin liggi á milli einstakra sviða, hver beri ábyrgð á ýmsum ákvörðunum, það hefur verið flakkað á milli útvarpsráðs, útvarpsstjóra, skrifstofu útvarpsstjóra, fréttastjóra, einstakra yfirmanna, o.s.frv. Það er vegna þess að stjórnunarstrúktúrinn hefur verið mjög óljós. Það er það umhverfi sem við höfum búið þessari mikilvægu stofnun og því þarf að breyta eins og starfsmannafélagið hefur ályktað um (Forseti hringir.) af sömu ástæðu.