132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[18:20]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður ætti að ræða m.a. við fulltrúa starfsmanna. (ÖJ: Ég hef gert það.) Þeir hafa einmitt ályktað og hvatt til þess að rekstrarforminu verði breytt, m.a. til að skýra skort á uppbyggingu í stjórnunarstrúktúr og líka til að skýra ábyrgð. Það er það sem upp úr stendur. Ég hvet hv. þingmann til að ræða við fulltrúa starfsmannafélags og nýráðinn útvarpsstjóra. Hv. þingmaður gengur út frá því að hér ætli ríkisstjórnarflokkarnir, sem ekki er víst að verði alltaf þeir sömu, að ganga milli bols og höfuðs á stjórnendum stofnunarinnar ef þeir verði ekki þægir. Mér finnst það kannski lýsa meira hugsunarhætti hv. þingmanns en því markmiði sem hér er sett. Ég vil enn og aftur vísa til þeirrar reynslu sem hefur m.a. fengist af Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Ég trúi því tæpast að hv. þingmaður telji þá reynslu vera slæma. Því það er ekkert sem hefur gert (Forseti hringir.) fyrirtækinu jafngott og sú breyting sem þar var gerð.