132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[18:21]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil spyrja hv. þingmann að því hvort hann og flokkur hans séu þeirrar skoðunar að valin hafi verið skynsamlegasta leiðin varðandi fjármögnun með því að taka upp nefskatt. Þessi skattur getur komið mjög misjafnlega niður á heimilum og fjölskyldum, t.d. þar sem um er að ræða marga unglinga sextán ára og eldri. Við getum bara nefnt sem dæmi að ef tveir unglingar á þessum aldri eru á heimili getur þessi nefskattur verið um 54–55 þús. kr. Ekki er gert ráð fyrir neinum sérstökum jöfnunaraðgerðum. Það er einungis gert ráð fyrir því að þeir sem eru með tekjur undir 850 þús. kr. á ári, að mig minnir, eða rétt rúmar 70 þús. á mánuði sem er undir skattleysismörkunum, greiði ekki þennan nefskatt. Ég held að ekki hafi verið valin skynsamlegasta leiðin í þessu. Er hv. þingmaður tilbúinn að beita sér fyrir að skoðaðar verði einhverjar sérstakar jöfnunaraðgerðir varðandi heimili sem munu koma illa út úr þessu ef nefskatturinn verður tekinn upp? Hafa aðrar leiðir (Forseti hringir.) verið skoðaðar í þessu efni?