132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[18:22]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Frú forseti. Umræðan um fjármögnun Ríkisútvarpsins á sér auðvitað langa sögu og hér hafa verið haldnar margar ræður einmitt um það innheimtukerfi sem er núna. Það er bæði talið mjög dýrt og „óvinsælt“. Niðurstaðan varð sú að taka upp nefskattinn og það er m.a. annars sú niðurstaða sem komist var að á flokksþingi Framsóknarflokksins. Ég tek undir þau sjónarmið sem hv. þingmaður reifar hér að þetta kunni að bitna illa á sumum heimilum. Ég tel það hins vegar vera alveg sjálfstæða ákvörðun um félagsleg úrræði, ef við getum sagt svo, sem hefur í rauninni ekki beint með lög um Ríkisútvarpið að gera. Það er pólitísk ákvörðun hverju sinni hvort ríkisvaldið vill koma til móts við þá sem verr eru settir eins og gert er á mörgum öðrum sviðum.