132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[18:53]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki bregst bænhitinn frjálshyggjunni, það verður engu upp á þá logið með það. Hv. þm. Birgir Ármannsson, einn skyttnanna þriggja sem fluttu frumvarp hér í fyrra um að einkavæða og selja Ríkisútvarpið, sagði að hann mundi vissulega styðja þetta mál. Þá hlýt ég að spyrja hann á móti: Lítur hv. þingmaður ekki á þetta frumvarp sem skref í þá átt að selja Ríkisútvarpið? Hljótum við ekki að verða að túlka skilgreindan stuðning sjálfstæðismanna margra, flestra kannski, við þetta mál á þann hátt að þeir líti á það sem áfanga á þeirri leið að selja Ríkisútvarpið? Það er ekki hægt að lesa annað úr orðum hv. þingmanns. Hv. þm. Sigurður Kári, formaður menntamálanefndar, mun tala hér síðar og hefur farið mikinn í einkavæðingarhugmyndum sínum á liðnum árum og lágríkisdraumum hvers konar sem hljóta að brjótast út þegar svona mál eru til meðferðar. Þeir hljóta að gera grein fyrir framtíðarsýn sinni og skilningi á þessu máli, hvort það sé áfangi á þeirri leið að selja stofnunina, selja Ríkisútvarpið. Ég gat ekki heyrt annað á þeirri sjálfsskoðun og réttlætingu sem fólst í orðum hv. þm. Birgis Ármannssonar í andsvarinu hérna áðan. Ég spyr hann því: Er þetta mál ekki að hans mati áfangi á þeirri leið að selja Ríkisútvarpið?