132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[18:54]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að svara síðari spurningu hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar neitandi. Það er ekki sjálfgefið að sú breyting sem felst í þessu frumvarpi feli í sér einhver áform um eða undirbúning að sölu Ríkisútvarpsins. Það er algjörlega sjálfstætt mál og utan við efni þessa frumvarps. (Gripið fram í.) Það er alveg augljóst að til þess þyrfti að koma sérstök lagabreyting sem þyrfti að ganga í gegnum málsmeðferð hér í þinginu. Ég lít ekki svo á að þetta frumvarp sé áfangi á þeirri leið að koma Ríkisútvarpinu í hendur einkaaðila, ekki í sjálfu sér. Það liggur alveg fyrir að ekki er vilji af hálfu stjórnarflokkanna sem slíkra að ganga svo langt þó að við einstakir þingmenn höfum orðað sjónarmið í þá veru.

Ég fagna þessu frumvarpi vegna þess að ég tel að ef ríkið á og rekur fyrirtæki eða stofnanir sé best að fyrirkomulagið sé sem skilvirkast, hagkvæmast og skynsamlegast. Með þessu frumvarpi er verið að stíga skref í þá átt.