132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[18:58]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Við erum hér að ræða um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið. Ég verð nú að lýsa þeirri skoðun minni að mér finnst umræðan afskaplega efnislítil. Það er lítið sem kemur fram hjá stjórnarandstöðunni, sama hvaða flokkur það er. Menn tala tvist og bast rétt eins og verið sé að hleypa út hænsnahópi að vori, þá hleypur hver í sína áttina. (Gripið fram í.) Ræðan sem hér var haldin var sýnu efnisminnst kannski og miðaðist líklega fyrst og fremst við það að tala í kvótann, 20 mínútur, til að fá tímamælinguna. Það kom afskaplega lítið fram í sjálfu sér.

Hv. þingmaður vill að RÚV, sjónvarpið, fari til hliðar á auglýsingamarkaði en að sama skapi telur hann að sjónvarpið eigi ekki að vera með ódýrt erlent efni heldur með íslenskt efni — því get ég verið sammála en það kostar fjármuni. Mig langar í framhaldi af þessu að spyrja hv. þingmann hvernig hann vill hugsa sér rekstrarstrúktúr þessa fyrirtækis sem hefði kannski átt að vera búið að háeffa fyrir nokkru síðan. Hvaðan eiga tekjurnar að koma og hvernig á rekstrarstrúktúrinn að vera? Það er ekki nóg að kasta því fram í ræðu að það eigi að minnka tekjurnar af auglýsingum, auka útgjöld o.s.frv. Menn verða að hafa einhverja samsvörun í hlutunum.

Ég vildi gjarnan heyra hjá hv. þingmanni hvernig hann hyggst koma þessu heim og saman þannig að við fáum einhverja heildstæða hugmynd um skoðun hans á þessu máli. Hann talaði að vísu í 20 mínútur en það situr eiginlega ekkert eftir. Þess vegna langar mig til að byrja með að spyrja hann um þetta atriði.