132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[19:03]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er samhljómur um þetta, auðvitað skiptir máli hvernig við öflum almannamiðli fjár. Það skiptir máli upp á rekstrarumhverfi hans og allt það. Hvort við förum leið nefskatts eða fjárlaga held ég að skipti svo sem ekki meginmáli ef menn gæta að tekjujafnandi áhrifum í gegnum skattheimtuna. Ég held að það sé ágæt leið sem komi vel til greina en það skiptir í sjálfu sér ekki öllu máli. En hvað varðar tekjusamdrátt RÚV ef umfang þess á auglýsingamarkaði væri skert að einhverju leyti, þá rímar það nákvæmlega við þá afstöðu mína að um leið og við endurskilgreinum og uppfærum til nútímans hlutverk og markmið Ríkissjónvarpsins og þess miðils sem það er, þá á að sjálfsögðu ef eitthvað er að trimma það niður, þannig að útgjöld stofnunarinnar aukist ekki, heldur minnki. Og að kröftunum verði þá varið í að sýna og stuðla að framleiðslu á skilgreindu magni af innlendu efni. En útgjöld sem nú er varið til ýmissa þátta eins og erlends sjónvarpsefnis og íþrótta verði minnkuð töluvert. Það er mín afstaða. Þess vegna tel ég að verði umfangið á auglýsingamarkaði takmarkað þá verði umfang stofnunarinnar einfaldlega takmarkað á móti. Það er mín afstaða til þess máls. Þess vegna kalla ég eftir endurskilgreiningu á markmiðum og rekstri RÚV, ekki svona markmiðslausu fimbulfambi eins og er að finna í hlutverkaskilgreiningunni í frumvarpinu, þar er ekki tekið á þessum málum. Þetta eru mér sérstök vonbrigði því ég hafði fregnað að það væri til skoðunar að setja inn í frumvarpið ákvæði um lágmarkshlutdeild af innlendu efni í dagskrá stöðvarinnar, en það var ekki gert.