132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[20:09]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um Ríkisútvarpið hf. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum mjög skýra skoðun í þessu máli eins og flestöllum öðrum. (Gripið fram í: Öllum málum.) En við erum ekki bara á móti þessu frumvarpi heldur lögðum við einmitt fram á þessu þingi mun skynsamlegra frumvarp til laga um Ríkisútvarpið. Í þeim lögum er gert ráð fyrir að Ríkisútvarpið verði ríkisútvarp áfram en ekki með hf. í endann. Það er nefnilega vel hægt að laga starfsemi Ríkisútvarpsins og það má vel laga ýmislegt í starfsemi Ríkisútvarpsins þó þar sé mjög margt gott.

Í frumvarpi okkar er t.d. tekið á málefnum útvarpsráðs sem hefur oft verið deilt mikið um. Við viljum einfaldlega leggja niður útvarpsráðið og taka upp dagskrárráð í staðinn og að í þessu dagskrárráði eigi breiður hópur fólks sæti, fulltrúi frá Bandalagi íslenskra listamanna, frá Neytendasamtökunum, sem er mjög mikilvægt, fulltrúi starfsmanna útvarpsins og að sjálfsögðu útvarpsstjóri og framkvæmdastjóri hljóðvarps og sjónvarps. Frumvarp okkar er lagt fram í þeim tilgangi að renna styrkari stoðum undir rekstur Ríkisútvarpsins, efla lýðræðislega stjórn þess með beinni þátttöku starfsmanna og kjörinna fulltrúa þjóðarinnar á Alþingi.

Það er dálítið vandræðalegt að hlusta á málflutning framsóknarmanna í þessu máli. Þeir eru búnir er að kúvenda í afstöðu sinni og lúffa fyrir Sjálfstæðisflokknum.

(Forseti (JóhS): Forseti biður hv. þingmenn um að halda í lágmarki samræðum hér í salnum þannig að þeir trufli ekki ræðumann.)

Þetta truflaði mig ekki neitt, allt í fína. En hlustið þið samt. Eins og oft áður eru framsóknarmenn að guggna þarna. Auðvitað er þetta bara tímaspursmál, sérstaklega þegar við horfum upp á hverjir eru fremstir í flokki. Það er reyndar athugunarefni út af fyrir sig af hverju þingmenn eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar, skuli styðja þetta frumvarp ríkisstjórnarinnar því hann er yfirlýstur stuðningsmaður þess að Ríkisútvarpið verði einkavætt. Þess vegna lít ég bara á þetta sem eitt skrefið í átt að einkavæðingu útvarpsins, vegna þess að þær raddir munu ekkert hljóðna innan Sjálfstæðisflokksins.

Það vekur líka athygli mína í þessu frumvarpi til laga að þó að útvarpið hafi leyfi til að útvarpa tveimur rásum þá er bara ein útvarpsrás skilyrt. Því væri auðvitað skrefið hjá mönnum að leggja niður Rás 2 eða selja hana. Þeir ætluðu einhvern tímann að selja Rás 2 og sennilega starfsmennina með. Ég óttast líka að svæðisútvarpið verði undir í þessum áformum. Er ekki líklegt að einhverjir spekúlantar komi með hugmyndir um hagræðingu? Við þekkjum það nú hjá öðrum ríkisfyrirtækjum sem hafa síðan verið einkavædd. Það þarf að hagræða og þá er byrjað á að leggja niður starfsstöðvar úti á landi. Ég sé alveg fyrir mér að dregið verður úr starfseminni á Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum og Suðurlandi og svo mætti halda áfram.

Þegar fallið er frá því prinsippmáli að Ríkisútvarpið okkar sé ríkisútvarp þá er nefnilega einu sinni farið af stað í einkavæðingarferlinu. Þess vegna væri óskandi að ríkisstjórnin mundi bara sjá að sér og taka frekar upp okkar frumvarp sem er að öllu leyti mun skynsamlegra og skemmtilegra og líka styttra held ég.

Ríkisútvörp eru víða starfrækt í öðrum löndum. Ég nefni sem dæmi Þýskaland, þar eru m.a.s. tvö ríkisútvörp, ARD og ZDF. Í Bretlandi er hin virta stofnun BBC, í Danmörku Danmarks radio og í Austurríki er það ORF. Þetta eru allt ríkisútvörp og lifa ágætlega og skila hlutverki sínu með sóma.

Það er alltaf verið að tala um það í þessum umræðum í kvöld að verið sé að snúa hlutunum til nútímahorfs, að það sé einhvers konar tíðarandi að það eigi að háeffa alla hluti. Þetta er fullkominn misskilningur. Það er alveg hægt að breyta hlutum innan Ríkisútvarpsins án þess að gera það að hlutafélagi.

Meginvandi Ríkisútvarpsins liggur auðvitað í því að það vantar fé til rekstrar svo að það geti sinnt skyldum sínum. Hvernig væri að Alþingi tæki sig saman í andlitinu og veitti fé til innlendrar dagskrárgerðar hjá Ríkisútvarpinu í staðinn fyrir að leggja ofuráherslu á að háeffa það? Það þarf líka að auka lýðræðið innan Ríkisútvarpsins og það getum við gert. Á það bendum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði í okkar tillögum.

En það er hluti af stefnu ríkisstjórnarinnar að svelta til hlýðni stofnanir, háskóla, heilbrigðisþjónustu og Ríkisútvarpið þar til fólk er farið að kalla á skólagjöld eða halda að hlutafélagaformið sé miklu betra til að afla peninga. Svo á að einkavæða einhvern hluta af starfseminni, við þekkjum það úr heilbrigðisþjónustunni. Í langflestum tilfellum verður þetta til hins verra, verður til þess að notandinn þarf að borga meira vegna þess að inn koma milliliðir sem vilja auðvitað græða.

Í tillögum ríkisstjórnarinnar í þessu frumvarpi er lagt til að nefskattur verði tekinn upp. Ég vara mjög við því. Nefskattur er í eðli sínu mjög ósanngjarn. Skattkerfið okkar er byggt upp þannig að það er til þess að jafna kjörin en nefskattur leggst jafnt á þá sem mikið hafa og þá sem lítið hafa. Það hefur einmitt verið bent á það í umræðunum hér í kvöld að á heimili þar sem margir unglingar eru, eldri en 16 ára sem sagt, kemur til með að leggjast hátt gjald. Nú er um að ræða áskrift, sem sagt eitt gjald fyrir hvert heimili. Í einhverjum tilfellum á samt að vera hægt að fella þennan nefskatt alveg niður en mér skilst að það sé hjá einstaklingum sem hafa lægri tekjur en 850 þúsund á ári. Það eru ekki margar fjölskyldur sem falla undir það sem betur fer, en þetta leggst auðvitað þungt á þær fjölskyldur sem eru kannski með heimilistekjur upp á milljón.

Vandinn liggur í því að það þarf að auka fjármagn til Ríkisútvarpsins svo að það geti sinnt skyldum sínum með sóma. Við höfum séð að starfsfólk stofnunarinnar getur lyft grettistaki og nánast gert kraftaverk með það litla fjármagn sem það hefur milli handanna. Á því á auðvitað að byggja.

Hér hefur mikið verið rætt um það hvað þetta sé ómögulegt rekstrarform og erfitt ástand innan Ríkisútvarpsins. Ég held að ástandið innan Ríkisútvarpsins sé ágætt, þar er verið að gera marga góða hluti. Það sýnir okkur að það þarf ekkert að hlutafélagavæða stofnunina til þess að rífa hana upp.

Því hefur margoft verið lofað hér í kvöld að það standi alls ekki til að selja Ríkisútvarpið. Það er undirstrikað með því að í 1. gr. er talað um eignaraðild. En höfum við ekki mörg dæmi um að því hafi einmitt verið lofað að selja ekki ríkisstofnanir þegar þær eru hlutafélagavæddar? Hvað hefur síðan komið á daginn? Það er kannski ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar en við vitum að innan Sjálfstæðisflokksins heyrast margar raddir sem eiga þá ósk heitasta að útvarpið verði selt. Sú ríkisstjórn sem nú situr getur ekki gefið loforð fyrir hönd þeirrar næstu eða þarnæstu. Ég ætla ekkert að efast um góðan ásetning hæstv. menntamálaráðherra hvað þetta varðar en maður veit aldrei. Það getur verið að eitthvað hafi breyst á morgun eða í næsta mánuði eða eftir kosningar.

Ég held að þetta hafi mikið að segja hvað varðar tilfinningar fólks. Þegar Ríkisútvarpið er orðið að hlutafélagi verður miklu minna skref að skipta því upp eða selja einhvern hluta af því. Áður en við vitum vöknum við upp við vondan draum, búið er að selja Ríkisútvarpið alveg eins og frjálshyggjudrengirnir í Sjálfstæðisflokknum vilja.