132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[20:40]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég ætla að víkja nokkrum orðum að því frumvarpi sem hér er til umræðu og þeim atriðum sem fram hafa komið í umræðunni í dag. Ég ætla þó ekki að fara ofan í einstök ákvæði frumvarpsins eða gera grein fyrir því í heild sinni vegna þess að hæstv. menntamálaráðherra hefur gert það og útskýrt frumvarpið á skýran og greinargóðan hátt.

Fyrir það fyrsta vil ég segja að ég hygg að flestir þeir sem skoðun hafa á málinu séu sammála um að nauðsynlegt sé að breyta um rekstrarform á Ríkisútvarpinu. Það eru þó örfáir geirfuglar eftir sem halda vilja í núverandi ástand en mér sýnist þó, (Gripið fram í.) ég kem að því á eftir, að flestir séu nokkurn veginn sammála um að núverandi rekstrarfyrirkomulag gengur ekki. Ég leyfi mér í því sambandi að vísa til greinar sem birtist í Morgunblaðinu 19. janúar sl. sem skrifuð var af útvarpsstjóra, Páli Magnússyni.

Í greininni segir, með leyfi forseta:

„Nú er rétt í þann mund að hefjast á Alþingi umræða um breytt rekstrarform Ríkisútvarpsins á grundvelli frumvarps menntamálaráðherra þar að lútandi. Einhverjum kann í fljótu bragði að þykja sem þetta skipti ekki miklu máli, — formið sé aukaatriði en innihaldið aðalatriði. Ekkert er fjær lagi. Þvert á móti má færa fyrir því gild rök að óbreytt rekstrarfyrirkomulag beri í sér dauðann sjálfan fyrir þessa merku stofnun.“

Og síðar í greininni segir útvarpsstjórinn, með leyfi forseta:

„Núverandi rekstrarform kemur beinlínis í veg fyrir að Ríkisútvarpið verði rekið með skilvirkum og árangursríkum hætti.“ (Gripið fram í: Hvað kemur svo?)

Það er því ljóst að æðstu stjórnendur á Ríkisútvarpinu eru þeirrar skoðunar að verði haldið í núverandi rekstrarfyrirkomulag á Ríkisútvarpinu feli það í sér dauðann sjálfan fyrir Ríkisútvarpið. Ég hef tekið eftir því í umræðunni, m.a. frá hv. þm. Merði Árnasyni að Samfylkingin er hlynnt skipulagsbreytingum á Ríkisútvarpinu. Ég hef líka hoggið eftir því í umræðunni í dag að kallað hefur verið eftir samráði við hæstv. menntamálaráðherra og stjórnarflokkana í sambandi við þetta mál. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar sem hér hafa talað hafa kvartað mjög yfir því að þeir hafi ekki verið hafðir með í ráðum við samningu þessa frumvarps. Þá er nú einn vandi uppi og ég ætla að útlista hann núna. En það er nefnilega þannig að það er afskaplega erfitt að hafa samráð við stjórnarandstöðuna, stjórnarandstöðu sem samanstendur af þremur flokkum sem talar hver í sína áttina. Ég kom hér upp í umræðunni til að byrja með og fór í andsvör við leiðtoga og talsmenn stjórnarandstöðuflokkanna í þessu máli og spurði þá út í stefnu flokkanna varðandi Ríkisútvarpið. Hvað kom þar í ljós? Vinstri hreyfingin – grænt framboð styður óbreytt ástand sem er reyndar sérstakt í ljósi þess að útvarpsstjórinn sjálfur hefur talið að óbreytt rekstrarfyrirkomulag beri í sér dauðann sjálfan fyrir þessa merku stofnun. Það er því dálítið sérstakt í sjálfu sér að mæla samt sem áður fyrir því fyrirkomulagi. Engu að síður kom það fram í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar að þetta væri stefna Vinstri grænna og undir það sjónarmið tók hv. þm. Þuríður Backman áðan.

Frjálslyndi flokkurinn hefur stefnu sem er í sjálfu sér held ég skynsamlegasta stefnan af hálfu stjórnarandstöðuflokkanna og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson opnaði alveg fyrir það hér í umræðunni að það væri kannski skynsamlegt að taka upp hlutafélagaformið. Hann vildi bara heyra nánari og sterkari rök fyrir því rekstrarfyrirkomulagi. Að öðru leyti fer stefna Frjálslynda flokksins algjörlega á skjön við stefnu VG í þessu máli.

Síðan er það Samfylkingin. Hv. þingmaður, leiðtogi og talsmaður Samfylkingarinnar í málefnum Ríkisútvarpsins, Mörður Árnason, upplýsti okkur um það í upphafi umræðunnar að Samfylkingin væri þeirrar skoðunar að breyta ætti Ríkisútvarpinu í sjálfseignarstofnun. Reyndar kom fram í umræðunni síðar að varaformaður og formaður Samfylkingarinnar höfðu lýst því yfir í fjölmiðlum um síðustu helgi að rekstrarfyrirkomulagið sé kannski ekkert sáluhjálparatriði, þau séu hugsanlega tilbúin til þess að opna augun fyrir hlutafélagaforminu að tilteknum ákveðnum skilyrðum. Maður veit því ekki alveg hvar Samfylkingin stendur í þessu.

Þegar maður ber saman stefnu stjórnarandstöðuflokkanna þá liggur það fyrir að stjórnarandstaðan er klofin í afstöðu sinni til þess með hvaða hætti á að reka Ríkisútvarpið. Það sem meira er, segja má að Samfylkingin ein og sér sé í rauninni líka klofin í afstöðu sinni til málsins, en hún verður að eiga það við sig. Hvað sem því líður er dálítið erfitt að eiga samráð við stjórnarandstöðu sem tekur afstöðu eins og þessa til svona mikilvægs máls, getur ekki komið fram undir einni stefnu og getur ekki komið sér saman um hver stefna flokkanna er til málsins. Ekki er líklegt að slíkt samráð skili miklum árangri þrátt fyrir að við í meiri hlutanum séum og höfum alltaf verið reiðubúin til þess að hafa samráð við stjórnarandstöðuna. Hins vegar hafa þau skilyrði sem stjórnarandstaðan hefur sett í málinu verið þannig að hún hefur krafist þess að á allar hennar kröfur verði fallist þegar kemur að Ríkisútvarpinu. Það hefur ekki verið gefið mikið svigrúm til málamiðlana í þessu sambandi. Þetta er nú svona. En ég ætla, til að flækja ekki umræðuna, að halda mig við það að Samfylkingin hafi þó þá stefnu að breyta beri Ríkisútvarpinu í sjálfseignarstofnun og ætla að koma að því á eftir.

Í umræðunni hefur verið vikið að sjónarmiðum mínum og stefnu minni gagnvart ríkisvaldinu og fjölmiðlum. Það hafa m.a. hv. þingmenn Björgvin G. Sigurðsson og Hlynur Hallsson gert. Og af því að ég veit að sumir þingmenn munu væntanlega spyrja mig út í mín fyrri orð varðandi ríkisvaldið og rekstur fjölmiðla ætla ég að stela af þeim glæpnum og fara aðeins yfir það.

Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar og er það enn að ríkið eigi ekki að reka fjölmiðil, það er skoðun mín á málinu og hún er ekki ný. Ég hef talað fyrir þeirri skoðun minni á Alþingi og reyndar í opinberri umræðu og verið flutningsmaður að frumvörpum sem mæla fyrir um einkavæðingu Ríkisútvarpsins. Þetta er ekkert leyndarmál og ég hef margoft verið spurður um þetta og stend við þá skoðun mína. Hins vegar hefur ekki verið pólitískur vilji innan Alþingis, hvorki meðal stjórnarflokkanna né annarra flokka á þingi eða í þjóðfélaginu fyrir því að einkavæða Ríkisútvarpið. Við skulum bara horfast í augu við það og gefa okkur þá staðreynd sem ég held að allir séu sammála um að meiri hluti þjóðarinnar vill halda í Ríkisútvarpið og að það verði áfram við lýði.

Að því gefnu að svo sé, að því gefnu að ríkið reki ríkisfjölmiðil hlýt ég að gera þá kröfu að rekstur hans sé í skynsamlegu formi og sé af einhverju viti, að Ríkisútvarpið sé rekið á skilvirkan og árangursríkan hátt. Ég verð að segja að þannig hefur það nú ekki verið upp á síðkastið. Við höfum horft á Ríkisútvarpið rekið með tapi ár eftir ár og ég bendi á grein Páls Magnússonar útvarpsstjóra um það að nauðsynlegt er að gera breytingar. Þá er spurningin: Hvaða breytingar eigum við að gera?

Farið hefur verið yfir meðferð þessa máls nokkuð ítarlega og rifjað upp að hæstv. menntamálaráðherra og ríkisstjórnin lagði fram frumvarp í fyrra um að breyta Ríkisútvarpinu í sameignarfélag. Við höfum fengið ábendingar eftir að það frumvarp kom fram frá Eftirlitsstofnun EFTA þar sem gerðar eru athugasemdir um að slíkt rekstrarfyrirkomulag brjóti gegn ákvæðum EES-samningsins um ríkisstyrki. Vegna þess að í sameignarfélagsforminu felst að hin ótakmarkaða ríkisábyrgð brjóti þessi ákvæði EES-samningsins. Það þurfti náttúrlega að taka afstöðu til þeirra athugasemda og ég hygg að það hafi hæstv. menntamálaráðherra og ríkisstjórnin gert með skynsamlegum hætti og völdu þann möguleika sem í stöðunni var sem skynsamlegastur er, þ.e. að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag. Með þeirri breytingu er fallið frá hinni ótakmörkuðu ábyrgð á skuldbindingum Ríkisútvarpsins sem hefðu að öðru leyti gert það að verkum t.d. að Ríkisútvarpið gæti aldrei orðið gjaldþrota eins og getið er um í bráðabirgðaniðurstöðu ESA. En í sjálfu sér hefðu líka verið aðrar leiðir í stöðunni, það má alveg halda því fram. Hv. þm. Mörður Árnason hefur bent á að sjálfseignarstofnunarformið hefði getað komið til greina.

Að mínu mati er það sjónarmið, og ég hef sagt það, að breyta Ríkisútvarpinu í sjálfseignarstofnun, en ég er bara ósammála þeirri skoðun, ég er ósammála þeim hugmyndum, ég held að þær séu óskynsamlegar. Af hverju segi ég það? Ég hef varpað hér fram spurningum um hvers vegna menn telja sjálfseignarstofnunarformið skynsamlegra en hlutafélagaformið en ég hef ekki fengið nein svör við því. Samfylkingunni hefur gjörsamlega mistekist að benda á hvers vegna sjálfseignarstofnunarformið er skynsamlegra en hlutafélagaformið. Ég hef líka bent á að það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því þegar menn fara út í atvinnurekstur eða hafa breytt ríkisfyrirtækjum, hvort sem það er á Íslandi eða svo ég taki sem dæmi sænska ríkisútvarpið, finnska ríkisútvarpið eða það norska, að menn hafa valið hlutafélagaleiðina. Af hverju skyldi það vera að menn stofna hlutafélög eða einkahlutafélög utan um allan rekstur en sjálfseignarstofnanir spretta ekki upp á hverju horni? Af hverju skyldi það vera? Það er náttúrlega vegna þess að hlutafélagaformið er miklu heppilegra rekstrarform og það hefur gefist miklu betur í fyrirtækjarekstri en sjálfseignarstofnunarformið, það er alveg ljóst. Meira að segja Háskólinn í Reykjavík — sem hv. þm. Mörður Árnason benti á í útvarpsfréttum RÚV máli sínu til stuðnings um helgina sem dæmi um sjálfseignarstofnun — var sjálfseignarstofnun en hefur nú verið breytt í hlutafélag. Það er vegna þess að stjórnendur Háskólans í Reykjavík mátu það þannig og upplýstu menntamálanefnd um það þegar við vorum að ræða hér um sameiningu Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands fyrir nokkrum mánuðum, að hlutafélagaformið væri einfaldlega hentugasta rekstrarformið fyrir fyrirtæki sem þessi. Það sama á náttúrlega við um Ríkisútvarpið.

Ég hlýt að kalla eftir því frá þeim sem telja að sjálfseignarstofnunarformið sé skynsamlegra en hlutafélagaformið, ég hlýt að kalla eftir röksemdum fyrir þeim sjónarmiðum sínum. Getur það verið að þeir sem tala fyrir sjálfseignarstofnunarforminu telji að lagaumgjörð eða löggjöf um sjálfseignarstofnanir séu t.d. fullkomnari en löggjöf um hlutafélög? Ég veit það ekki, en ég held að flestir lögfræðingar og þeir sem koma að rekstri fyrirtækja séu sammála um að hlutafélagalöggjöfin er miklu vandaðri, ítarlegri og skynsamlegri en sjálfseignarstofnunarlöggjöfin. Við vitum líka að dómstólar hafa held ég túlkað hvert einasta ákvæði, nánast hvern einasta stafkrók í hlutafélagalögunum, en það sama má ekki segja um sjálfseignarstofnanir, síður en svo. Ákvæði hlutafélagalaga eru líka miklu einfaldari og skýrari en ákvæði laga um sjálfseignarstofnanir. Þar er kveðið skýrt á um réttindi og skyldur þeirra sem reka slíkar stofnanir, þar er kveðið mjög afgerandi á um stjórnir slíkra félaga, framkvæmdastjórn, hluthafafundi, réttindi hluthafa, skaðabótarétt og refsiábyrgð þeirra sem starfa innan hlutafélagsins.

Ég bendi enn og aftur á að það hlýtur að vera ástæða fyrir því, hv. þm. Ögmundur Jónasson, að menn hafa í stórum stíl og stórkostlegum stíl valið hlutafélagaformið umfram sjálfseignarstofnunarformið og ekki bara á Íslandi heldur líka í löndunum í kringum okkur. (Gripið fram í.) Þess vegna kalla ég eftir því að þeir sem mæla fyrir því að Ríkisútvarpið verði gert að sjálfseignarstofnun rökstyðji almennilega hvers vegna þeir telja það félagaform heppilegra í rekstri sem þessum en hlutafélagaformið.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu miklu lengri. Ég tel og er ekki í nokkrum vafa um að vilji menn á annað borð breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins, sem ég veit að Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill ekki gera en flestir aðrir hygg ég sem skoðun hafa á málinu vilja gera og þar á meðal yfirstjórn Ríkisútvarpsins, þá sé það langheillavænlegast fyrir alla sem að þessu máli koma að Ríkisútvarpinu verði breytt í hlutafélag. Á því félagaformi hefur reynslan verið best. Það mun gera það að verkum að rekstri þess fyrirtækis verður væntanlega komið á einhverjar skynsamlegar nótur, hægt verði að hagræða í rekstri innan fyrirtækisins. Ég held einnig að með frumvarpinu sé verið, og það hefur verið svona eitur í mínum beinum, að slíta hin pólitísku áhrif stjórnmálaflokkanna í umræddri stofnun eða í þessu fyrirtæki frá því sem nú er.

Frú forseti. Ég held að ég láti þetta duga um málið.