132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[20:59]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það skorti ekkert á dramatíkina í ræðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar. Ég man ekki hvað hann sagði oft að sjálfur dauðinn væri vís ef Ríkisútvarpið mundi ekki skipta um rekstrarform. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Trúir hann því virkilega sjálfur að Ríkisútvarpið mundi deyja á morgun ef það verður ekki háeffað í hvelli?

Þingmaðurinn upplýsti okkur líka um prívatskoðanir sínar á Ríkisútvarpinu, það var mikið leyndarmál. Hann er sem sagt á þeirri skoðun enn og aftur að að selja eigi Ríkisútvarpið. En hann er búinn að átta sig á því að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar og sem betur fer meiri hluti þingmanna vill ekki selja Ríkisútvarpið en þá tekur hann næstskásta kostinn og vill að það verði hlutafélagavætt. Rökin eru þau að það sé svo miklu hagkvæmara rekstrarform og nefnir sem dæmi að Ríkisútvarpið hafi verið rekið margsinnis með halla.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann: Gerir hann sér ekki grein fyrir því að Ríkisútvarpið hefur verið í fjársvelti og hefur ekki hlotið fjárframlög í samræmi við verðlagsþróun? Þetta er auðvitað grundvallarmálið. Við þurfum að auka fjármagnið til Ríkisútvarpsins. Ríkisútvarpið er ágætlega rekið.

Ég efast um að dauðinn sjálfur sé vís jafnvel þó að við höldum Ríkisútvarpinu ríkisútvarpi. Ég vil einnig benda þingmanninum á að þó að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði viljum halda þessu rekstrarformi erum við einmitt með tillögur, frumvarp til laga um breytingar á starfsemi Ríkisútvarpsins. Gott að lesa það.