132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[21:13]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég ætla ekki að fara í þessa „jú víst, jú víst“-umræðu um hlutafélög og önnur rekstrarform að sinni. Á hér eftir eina ræðu með skertum tíma og kann að nota hana að einhverju leyti til þess. Verð þó að segja í tilefni af fyrsta andsvarinu hér áðan að það er auðvitað út í hött að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson tali um hallann eins og hann sé tilkominn af vondum rekstri á Ríkisútvarpinu. Það getur vel verið að það sé ekki góður rekstur á Ríkisútvarpinu. En hallann, hann ákveður hv. þm. Sigurður Kári Kristánsson hér sjálfur með því að samþykkja fjárlögin því hann er tiltekinn í fjárlögunum hverju sinni. Hv. þingmaður getur skoðað það aftur í tímann. Það stendur: Hallinn skal vera þessi og hallinn skal vera þessi og rekstrarniðurstaðan skal vera þessi. Því er stjórnað að forminu til hér á Alþingi. Því er stjórnað með atkvæði Sigurðar Kára Kristjánssonar hver hallinn er á Ríkisútvarpinu. Þannig er nú það, eins heimskulegt og það er. Mig langaði að spyrja hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson úr því að hann er tekinn hér upp á gömlum sið — sjaldan bregður mær vana sínum, eins og sagt var í ævintýrinu — að lesa upp úr greinum. Hann hefur mikið lesið upp úr grein eftir Pál Magnússon. En aldrei endinn á þeirri grein sem er svona, með leyfi forseta:

„Utan við efni frumvarpsins — en engu að síður óaðskiljanlegur hluti af formbreytingu Ríkisútvarpsins — er lausn á fjárhagsvanda þess. Stofnunin hefur verið rekin með miklu tapi mörg undanfarin ár og er nú svo komið að allt eigið fé hennar er uppurið og eiginfjárstaðan orðin neikvæð. Við eðlilegar aðstæður ætti eiginfjárhlutfallið að vera 20–40%. Til samanburðar má geta þess að eiginfjárhlutfall NRK“ — norska ríkisútvarpsins — „er um 50%. Það verður að treysta því að ríkisstjórn og Alþingi búi þannig um hnútana við formbreytinguna að hinu nýja félagi verði kleift að sinna þeim skyldum og gegna því mikilvæga hlutverki sem því er ætlað.“ Og spurningin er: Hvað hefur menntamálaráðherra hæstv., ríkisstjórnin hæstv. og Sigurður Kári Kristjánsson hv. þm. gert til þess að þetta gangi upp?