132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[21:39]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp hæstv. menntamálaráðherra til laga um Ríkisútvarpið hf. Ég ætlaði að beina nokkrum spurningum til hæstv. menntamálaráðherra í andsvörum í dag en því miður var eftirspurnin meiri en framboðið af andsvaratíma þannig að ég komst ekki að en ég vildi gjarnan að hæstv. menntamálaráðherra yrði viðstödd þannig að ég gæti beint til hennar nokkrum spurningum.

(Forseti (JóhS): Forseti skal gera ráðstafanir til að ná til hæstv. menntamálaráðherra.)

Ég veit ekki almennilega hvar ég á að byrja en það er kannski rétt að geta þess að ég hef flutt frumvarp ásamt hv. þm. Birgi Ármannssyni um sama efni og ég fór fram á það við forseta Alþingis að þessi mál yrðu rædd saman en það var ekki við það komandi þó að mitt frumvarp hafi verið lagt fram fyrr, hafi númer 54 og fjalli um nákvæmlega sama efni, þ.e. Ríkisútvarpið, nema það gengur eilítið lengra, það gengur út á að selja það og ég vildi gjarnan bera þetta saman.

Þá er hæstv. menntamálaráðherra komin í salinn og ég vil beina til hennar nokkrum spurningum. Ég geri ráð fyrir að hæstv. menntamálaráðherra taki til máls hér á eftir.

Í fyrsta lagi: Af hverju á ríkið að reka fjölmiðla? Þetta er einföld spurning, af hverju á ríkið að reka fjölmiðla, af hverju rekur það ekki dagblöð, bókaútgáfu eða netmiðla o.s.frv.?

Í öðru lagi: Af hverju er þessi oftrú á ríkið? Við erum búin að sjá að það gengur ljómandi vel með bankana. Einu sinni héldu menn að engir nema opinberir starfsmenn gætu afgreitt peninga yfir diskinn. Svo var það afsannað með því að selja báða ríkisbankana og eiginlega þrjá og þetta gengur bara ljómandi vel, hagnaður hefur aldrei verið meiri og laun starfsmanna aldrei hærri. Starfsmennirnir græða ekki hvað síst á því að fyrirtæki séu tekin úr ríkiskrumlunni.

Í frumvarpi hæstv. menntamálaráðherra segir í 1. gr. að Ríkisútvarpið sé sjálfstætt hlutafélag. Hvernig getur það verið sjálfstætt þegar það er í eigu ríkisins sem er eini eigandinn og það má ekki selja það og meira að segja stjórnin er kosin með furðulegum hætti? Til þess að uppfylla skyldu hlutafjárlaga skal kjósa stjórn á aðalfundi en sú stjórn skal vera kosin af Alþingi áður. Hvers lags kosning er það? Þetta er ekki sjálfstætt hlutafélag fyrir tíu aura þegar þessi eini hluthafi verður að kjósa ákveðna stjórn sem er ákveðin fyrir fram. Þá er það engin kosning. Ég geri athugasemd við að þetta sé sjálfstætt hlutafélag enda er stjórnin náttúrlega kosin af Alþingi og það er pólitísk stjórn og verður ætíð pólitísk stjórn, nákvæmlega eins og útvarpsráð er í dag þar sem einn eigandi á Ríkisútvarpið og stýrir því og setur bara sína skoðun, hina viðteknu pólitísku skoðun á oddinn, sem þingmenn á Alþingi koma sér saman um. Það er erfitt fyrir nýjar skoðanir að hasla sér völl í stjórnmálum á Íslandi.

Síðan stendur hér í 4. gr.:

„Ríkisútvarpinu hf. er heimilt að standa að annarri starfsemi en kveðið er á um í 3. gr. sem tengist starfsemi félagsins á sviði dagskrárgerðar eða til nýtingar á tæknibúnaði þess, sérþekkingu starfsmanna þess og aðstöðu þess að öðru leyti.“

Ef einn starfsmaður kann að kokka þá þarf endilega að nýta þá þekkingu, til að hafa matsölustað eða hvað? Þetta getur farið út um víðan völl, t.d. að gera við útvarpstæki og sjá um rafeindabúnað fyrir ratsjárstöðvar og ég veit ekki hvað. Þetta er því galopið ákvæði.

Ég spyr: Af hverju þarf þetta að vera svona galopið? Á ríkið að fara að þenja sig yfir öll svið eins og hefur sýnt sig í mörgum ríkisfyrirtækjum eða opinberum fyrirtækjum eins og Orkuveitu Reykjavíkur sem fór í Línu.Net öllum til ófarnaðar?

Svo stendur hér í 7. gr.:

„Ríkisútvarpinu hf. er heimilt að leigja öðrum aðilum afnot af tækjabúnaði sínum til útsendingar.“

Það er að segja tækjabúnað sem er fjármagnaður með ríkisfé, það á að vera hægt að leigja hann hverjum sem er. Hvar er samkeppnin, hvar er samkeppnisandinn?

Svo stendur hér dálítið merkilegt í 8. gr. sem er í mótsögn við það sem er í öðrum ríkisfyrirtækjum sem er búið að hlutafélagavæða:

„Menntamálaráðherra fer með eignarhlut íslenska ríkisins í Ríkisútvarpinu hf.“

Hvernig stendur á þessu? Af hverju fer fjármálaráðherra ekki með þetta nákvæmlega eins og hann fór með það í Landssímanum og annars staðar með þeim rökum að Landssíminn væri í samkeppni við aðra á sínu sviði og sami ráðherra þyrfti að úrskurða? Hvernig getur menntamálaráðherra úrskurðað í deilumáli milli Ríkisútvarpsins og t.d. 365 ljósvakamiðla þegar hann á og fer með eignarhlutinn? Það held ég að gangi illa. Hann hlýtur að halda með sínu félagi.

Það er dæmalaust, þetta með stjórnina, en ég er búinn að nefna það. Varðandi réttindi starfsmanna er lítið sagt um lífeyrisskuldbindingar, þ.e. hvort þær fari yfir í nýja fyrirtækið. Ég ætla að spyrja að því. Þær geta vaxið óheyrilega eftir á. Ekki er tekið á því hvað gerist ef laun í landinu halda áfram að hækka, ef guð lofar, og lífeyrisskuldbindingarnar snarvaxa. Þær byggjast á launum eftirmanns. Hvað gerist þá með Ríkisútvarpið? Ætlar ríkið að standa við þær skuldbindingar eða á hlutafélagið að gera það? Þetta er óljóst.

Samkvæmt reglunum á stjórnin að taka ákvörðun um lánaskuldbindingar og annað slíkt. Hvað gerist ef hún gerir mistök, eins og gerist í öllum rekstri? Hvað ef hún gerir einhverja vitleysu? Hvað ef hún kaupir eitthvað á borð við Línu.Net og fyrirtækið færi á hausinn? Hvað þá? Hvað gerist með hlutafélag sem ríkið eitt á þar sem Alþingi tilnefnir alla stjórnarmennina óbeint? Hvað gerist ef það fer á hausinn eins og allur rekstur getur gert? Til þess höfum við hlutafélagaformið að þá er það undir eigandanum komið. En hvað skyldi gerast með þetta Ríkisútvarp hf. varðandi almannaheill o.s.frv. sem menn tala um?

Ég ætla rétt aðeins að ræða um tekjustofninn. Ég hef gert tillögu um aðra aðferð í frumvarpi mínu sem ég hefði gjarnan viljað ræða samhliða. Hér er gert ráð fyrir að binda skattinn við 13.500 kr. á ári og það sé tengt gjaldi til Framkvæmdasjóðs aldraðra. Við skulum hugsa okkur að einhver fari að stúdera skattalögin og kanna svona skatta. Hann skoðar skattalögin, eignarskatt o.s.frv. og sér að það er t.d. enginn eignarskattur. Hvernig skyldi honum detta í hug að leita í lögum um útvarpið til að finna skattstofn? Þar er vísað í lög um Framkvæmdasjóð aldraðra. Hvernig skyldi honum detta í hug að leita þar að uppruna gjaldsins? Þetta er ekki hrein lagasetning.

Lögin um Ríkisútvarpið hf. eru ekki skattalög. Það er alveg á hreinu. Gjaldið sem hér er lagt til er sérstakur skattur með sérinnheimtu. Hann er ekki eins og gjaldið til Framkvæmdasjóðs aldraðra vegna þess að fyrirtæki eiga að greiða þennan skatt. Þau greiða ekki í Framkvæmdasjóð aldraðra. Að öðru leyti er gjaldið eins. En þessi breyting kallar á að búa þarf til sérstakt innheimtukerfi fyrir þau 20 þús. fyrirtæki sem eiga að fara að borga útvarpsgjald. Þá fer að gerast dálítið skrýtið. Þessi 20 þús. fyrirtæki, sem mörg hafa nánast engan rekstur, engan starfsmann og engan til að hlusta á þessa músík eða hlusta á Ríkisútvarpið, hvernig halda menn að þeim lítist á að borga gjald til Ríkisútvarpsins, fyrirtækjum sem hafa ekkert útvarp og enga starfsmenn? Ekki hlustar fyrirtækið sjálft á útvarpið eða horfir á sjónvarpið? Það þarf starfsmenn til þess eða einhverja persónur. Ég er hræddur um að það hvíni í einhverjum og að þetta verði hugsanlega skoðað af einhverjum, af hverju fyrirtæki eiga að borga skatt til Ríkisútvarpsins þar sem enginn starfsmaður er. Þar fyrir utan er þetta náttúrlega skattur á nýsköpun eins og margt annað. Ef menn ætla að stofna nýtt fyrirtæki þá þurfa þeir að byrja á að borga gjald til Ríkisútvarpsins, 13.500 kr.

Skattheimtan er ósanngjörn. Ef menn hafa eina krónu umfram þessar 855.231 kr. í tekjur þá borga þeir 20.000 kr. gjald. Þá borga þeir bæði í Framkvæmdasjóð aldraðra, þ.e. 6.000 kr., og síðan 13.000 kr. til Ríkisútvarpsins fyrir að þéna einni krónu of mikið. Það er nú ekki beint réttlátt.

Það er líka skiljanlegt að fólk yfir sjötugt borgi ekki í Framkvæmdasjóð aldraðra, enda rennur það fé til þeirra sjálfra en að þeir borgi ekki til útvarpsins sem hlusta sennilega manna mest á útvarp. Þeir eru ekki allir fátækir. Það er líka til hátekjulífeyrisþegar. Það er til gamalt fólk með háar tekjur. Hvers lags réttlæti er að þeir sem eru sjötugir eða eldri, moldríkir og með mjög háar tekjur, bæði lífeyristekjur og fjármagnstekjur, sleppi við að borga gjald í Ríkisútvarpið en lágtekjufólk, einstæðar mæður o.s.frv., skuli greiða það? Hvar er réttlætið í þessu?

Bæði þessi gjöld, útvarpsgjaldið og gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra, eru nefskattar. Þar er sama gjaldið fyrir hátekjufólkið, sem munar ekkert um að borga 20.000 kall á ári, og fyrir lágtekjufólkið sem munar sko aldeilis um það. Þessir skattar eru alltaf óréttlátir, félagslega óréttlátir. Ég skil ekkert í að hafa ekki heyrt neitt um það frá þeim vinstri sinnum sem tekið hafa þátt í umræðunni í dag. Þeir minnast ekki á óréttlætið af því að þetta er skattur. Þetta er ekki gjald fyrir að horfa á Ríkisútvarpið, ekki frekar en í dag. Ætli ég mér t.d. að horfa á Skjá 1, án þess að mig langi að horfa á Ríkisútvarpið, ekki fyrir 10 aura, segjum að ég væri í þeirri stöðu, þá yrði ég að borga til þess þar sem ég ætti sjónvarpstæki. Ég verð að borga til Ríkisútvarpsins ef ég ætla að horfa á samkeppnisaðila sem kostar ekki neitt.

Þetta er skattur, svona nefskattur sem allir borga. En við erum með nefskatt, frú forseti, í kerfinu. Við erum með persónuafslátt sem líta má á sem neikvæðan nefskatt. Af hverju tengjum við það ekki saman? Af hverju tengjum við ekki þennan jákvæða nefskatt upp á 20.000 kall við neikvæða nefskattinn, sem er persónuafslátturinn? Það er hugmyndin sem ég gekk út frá, að persónuafslátturinn yrði lækkaður sem næmi þessari upphæð. Persónuafslátturinn yrði einnig lækkaður, sem er tillaga til viðbótar, um gjaldið í Framkvæmdasjóð aldraðra. Það yrði afskaplega einföld innheimta og innheimtan mundi ekki kosta krónu. Persónuafslátturinn yrði lækkaður og síðan mundi Ríkisendurskoðandi, eða einhver góður í fjármálaráðuneytinu, reikna út hve stór hluti af persónuafslættinum rynni til Ríkisútvarpsins og hve mikið færi í Framkvæmdasjóð aldraðra o.s.frv. Þetta væri mjög einföld framkvæmd og mjög einföld greiðsla. Þá segja menn: Þá vita menn ekki hvað þeir greiða til Ríkisútvarpsins. Það má bara tiltaka það á launaseðli. Það mætti tiltaka persónuafsláttinn, þetta gjald í Ríkisútvarpið og þetta í Framkvæmdasjóð aldraðra. Ef menn vilja endilega að skattgreiðandinn viti hvað hann greiðir fyrir.

Ég legg til að í stað þess sem hér er gert ráð fyrir verði persónuafsláttur lækkaður. Ég spyr hæstv. menntamálaráðherra: Af hverju var þessi leið ekki farin í stað þess að flækja kerfið, auka vinnu lögfræðinga í landinu sem hafa nú alveg nóg að gera, og endurskoðenda? Svo verða allir skattgreiðendur jafnhissa þegar þeir sjá álagningarseðilinn. Þar er gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra, hvað skyldi það nú vera? Gjald til Ríkisútvarpsins, hvað skyldi það nú vera?

Ég ætla að leyfa mér að bera saman þessi tvö frumvörp. Þau eru mjög ámóta en í grundvallaratriðum mismunandi. Í mínu frumvarpi er lagt til að útvarpsráð starfi áfram, útvarpsráð fái allar tekjurnar, eins og í dag, en það bjóði út allan reksturinn. Það framkvæmir ekki neitt sjálft en býður út reksturinn. Þeir sem geta boðið í eru t.d. Ríkisútvarpið hf., sem þá gæti heitið eitthvað annað, 365-miðlar hf. o.s.frv. Allir fjölmiðlar gætu boðið. Alls konar áhugaleikhús gætu boðið, hestamannafélög gætu boðist til að gera þætti um hestamennsku. Skákfélög gætu gert hið sama o.s.frv. Allir gætu boðið í dagskrárgerðina. Ég ætla ekki að reyna að lýsa gróskunni sem yrði hjá ýmsum félögum landsins, m.a. áhugamannaleikhúsum sem gætu gert tilboð til útvarpsráðs, í að gera þennan eða hinn þáttinn. Um leið yrði komið á gæðaeftirliti vegna þess að þegar útvarpsráð býður út dagskrárgerð þarf að skilgreina hvað það ætlar að kaupa og þarf að fylgja því eftir, að það sem það kaupir sé raunverulega til staðar. Til þess yrði komið á gæðaeftirliti, sem vantar í dag. Hvernig getur útvarpsráð haft eftirlit með gæðum sinnar eigin framleiðslu? Það getur það ekki. Það getur ekki gagnrýnt eigin verk út á við.

Ég geri jafnframt ráð fyrir því að Ríkisútvarpið verði selt og starfsmennirnir fái að kaupa helminginn á 70% af verðmæti hlutanna. Þeir eru jú uppistaðan í fyrirtækinu eins og í öllum öðrum fyrirtækjum. Ríkisútvarpið er ekki annað en hinir góðu starfsmenn sem þar starfa. Það er Ríkisútvarpið. Af hverju skyldu þeir ekki njóta þess að mega kaupa hlutabréfin á lægra verði? Þeir mættu síðan búast við því að launin hækki, sem gerist ekki meðan Ríkisútvarpið hangir alltaf á horriminni. Það var ekki rétt sem hv. þm. Mörður Árnason sagði áðan í andsvari við hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson, að við mynduðum hallann. Nei, það er reksturinn sem myndar hallann. Það er almennt séð enginn hvati hjá ríkisfyrirtækjum til að spara í rekstri. Það er meinið. Þess vegna hefur komið í ljós að ríkisrekstur er yfirleitt óhagkvæmur þótt þar vinni ágætisfólk og ágætisstjórnendur. Þeir hafa bara ekki sama hvata til að reka fyrirtæki vel og ódýrt. Ef Ríkisútvarpið hf. yrði selt, sérstaklega ef starfsmenn eignuðust það, yrði virkilegur hvati til að reka fyrirtækið og skipuleggja störfin betur. Það má gera kraftaverk í þeim efnum. Það vita starfsmennirnir sjálfir. Fyrirtækið mundi skila hagnaði. Það gæti borgað hærri laun og stæði sig örugglega vel í samkeppni við önnur fyrirtæki um að bjóða í verkefni sem útvarpsráð býður út.

Hugmyndin sem ég hef lagt til, ásamt hv. þm. Birgi Ármannssyni, held ég að sé miklu betri. Slíkt fyrirkomulag yrði lyftistöng fyrir menninguna í landinu, að bjóða út verkefni fyrir 2.500 eða 3.000 millj. kr. á ári yrði aldeilis lyftistöng fyrir þá sem vilja framleiða íslenskt menningarefni. Einnig mætti nefna að þeim peningum yrði ekki varið til að kaupa fótboltaleiki frá útlöndum, líklega ekki. Meginmarkmiðið á jú að vera að hvetja til innlendrar framleiðslu. Hitt eru stöðvarnar sjálfar tilbúnar að borga, fótboltaleiki, amerískar kvikmyndir og annað slíkt. Það selst. Það er sjálfvirkt inni í kerfinu. En ég held að innlend menningarframleiðsla mundi njóta þess best ef sú leið yrði farin sem ég og hv. þm. Birgir Ármannsson höfum lagt til.

Mér þykir miður að frumvarp mitt hafi ekki verið rætt samhliða þessu frumvarpi. Ég hefði talið það eðlilegt. Ég vil gera athugasemdir við þá stjórn fundarins. En ég hef borið saman þessi tvö frumvörp. Ég tel að frumvarp hæstv. menntamálaráðherra yrði þó til að bæta stöðuna frá því sem nú er. Ég mun því eiga í vandræðum með að greiða atkvæði þegar þar að kemur.

Væntanlega mun ég greiða atkvæði gegn fyrstu greininni til að byrja með eða sitja hjá. Ég hef enn ekki alveg átta mig á því en kannski verða gerðar viðunandi breytingar í menntamálanefnd. Ég mun a.m.k. sitja hjá við þá grein en að öðru leyti mun ég styðja frumvarp menntamálaráðherra þótt það gangi ekki eins langt og ég gjarnan vildi. Það býður þó upp á leið til að hægt sé að selja það eftir einhvern tíma.