132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[21:58]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var mjög fróðleg ræða að mörgu leyti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal segir að sitt frumvarp um Ríkisútvarpið gangi lengra en frumvarp ríkisstjórnarinnar. Hv. þm. vill selja það strax en ríkisstjórnin vilji að svo stöddu aðeins hlutafjárvæða, félagsvæða, stofnunina. Einu vil ég mótmæla sem hv. þingmaður hélt fram, þ.e. að opinber rekstur sé ávallt óhagkvæmari en einkarekstur. Ég held að sú alhæfing dugi ákaflega skammt enda hefur komið í ljós að einkavædd starfsemi, sem iðulega er í einokunarumhverfi, hafi reynst skattborgaranum eða greiðandanum dýrari en einkarekin þjónusta. En talandi um hvata þá er hvatinn einmitt sá hjá eigendum einkarekinna fyrirtækja að taka arð út úr fyrirtækjunum. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að almannaþjónusta sem hefur verið einkavædd er iðulega dýrari. Ég nefni t.d. Sóltún og aðrar öldrunarstofnanir til samanburðar.

Ég vil taka undir það með hv. þingmanni að eðlilegt hefði verið að ræða saman öll þau þingmál sem lúta að Ríkisútvarpinu. Ég vil taka undir það. Ég vil spyrja hv. þingmann, sem er formaður efnahags- og viðskiptanefndar þingsins, hvort hann hyggist temja sér slík vinnubrögð í efnahags- og viðskiptanefnd að taka jafnan skyld mál til umfjöllunar á sama tíma, senda þau út til umsagnar og óska eftir að umræða fari fram um þau í senn. Ætlar hann að hafa slík vinnubrögð þar sem hann verkstýrir málum, t.d. í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins?