132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[22:00]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Fyrst um þetta síðasta, ég hef tamið mér að ræða þingmál eftir röð. Á morgun eða í fyrramálið munum við ræða nokkur þingmannamál og fara í gegnum umsagnir. Það er ekki þar með sagt að ég lofi því að taka þau út, til þess þarf samþykki þingflokkanna. En ég hef rætt þó nokkuð mikið um þingmannamál.

Hvað það varðar að opinber rekstur sé óhagkvæmari en einkarekstur þá er það náttúrlega bara okkar lífsviðhorf. Hv. þingmaður er á annarri skoðun og hefur aðra lífssýn og ég virði þá lífssýn. Ég fellst hins vegar ekki á hana, ég samþykki hana ekki. Ég þykist hafa séð mjög víða rök fyrir minni skoðun, ekki síst í bankarekstrinum þar sem þóknanir lækkuðu, vaxtamunur lækkaði og allt hefur lækkað en hagnaður hefur stóraukist og laun hafa líka stórhækkað — nú er þessi markaður að verða ein af þremur stærstu útflutningsgreinum landsins. Þær eru fjórar, það er ferðamannaiðnaðurinn, það er iðnaðurinn, sjávarútvegurinn og fjármálastarfsemi.

Það er ekki þannig að menn hugsi bara um að taka arðinn út, heldur er það markmið hluthafanna að framleiða góða vöru og þjónustu svo ódýrt að þeir geti hagnast á öllu saman, að þeir geti fengið gott starfsfólk með því að borga há laun og grætt á öllu saman. Sá er nú galdurinn og þetta tekst yfirleitt ef samkeppniseftirlit er í lagi. Og auðvitað þarf samkeppniseftirlitið að vera í lagi, ég gleymdi kannski að nefna það áðan. Það þarf að tryggja samkeppni á þessum markaði og það þarf að hindra einokun eða fákeppni. Að því gefnu held ég að einkarekstur sé alltaf betri en opinber rekstur, það er mín sannfæring.