132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[22:09]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Síðan spyr maður: Hvað nú? Þetta er auðvitað söguleg athugasemd. Ef þetta frumvarp verður að lögum, eða einhver útgáfa af því, þá verður það ekki lengur þannig að halli verði ákvarðaður af fjárlögum. En hvað nú?

Menn fara hér mikinn. Hæstv. menntamálaráðherra ræðir hér fram og aftur um það hvað þetta sé nú frábært hjá sér og yndislegt. Við höfum nú heyrt þær ræður nokkrum sinnum áður og erum hætt að kippa okkur upp við þær.

Það er þannig að Páll Magnússon, í grein sem hér hefur oftlega verið vitnað í, segir, og ekki í fyrsta sinn, að með rekstrarformsbreytingunni verði að leysa þennan fjárhagsvanda. Það sé ekki hægt að búa til hlutafélag, eða hvaða annað rekstrarform sem er, og láta það erfa skuldahalann frá því sem ríkisstjórnin skilur nú eftir sig. Hvað er að gerast hér? Hvar eru tillögur menntamálaráðherra um það? Hvar eru tillögur hv. þm. Péturs Blöndals um að bæta þessa stöðu? Hvaða arður er það sem Ríkisútvarpið hf., eða hvað það nú verður, á að fá? 2,6 milljarðar standa út af lífeyrissjóðsskuldbindingum, 220 millj. kr. á ári. Við höfum ekki heyrt orð um það frá hæstv. menntamálaráðherra og engum hans manna hvað á að verða um þær skuldir.

Þegar ég kom í útvarpsráð 1999 held ég að eigið fé hafi verið milli 15 og 20% og taldist lítið því að það hafði lækkað feikilega frá því fyrir áratug eða svo. Nú er það neikvætt og hv. þm. Pétur Blöndal veit hvað það þýðir. Það þýðir, þannig að ég segi það í fimmta sinn hér í dag, að þann dag sem Ríkisútvarpið verður að hlutafélagi geta lánardrottnar þess í teoríunni sameinast og gert það gjaldþrota.

Það er dæmigert að hér kom upp í kvöld Hjálmar Árnason, talsmaður Framsóknarflokksins, hv. þingmanns í þessum útvarpsmálum. Honum hafði missýnst það í frumvarpinu, eðlilega, að ríkisstjórnin ætlaði að leggja nokkuð duglega og hraustlega 5 milljarða til þessarar nýju stofnunar. Það var því miður misskilningur. (Forseti hringir.) Meira að segja hv. þm. Hjálmar Árnason hafði misskilið þessa upphæð, (Forseti hringir.) hún var 5 milljónir.