132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[22:13]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Þegar ég kom til þings í dag hafði ég ekki hugsað mér að taka þátt í umræðum um Ríkisútvarpið heldur hlusta á það sem hér færi fram. Eftir að hafa gert það ákvað ég að ekki væri hægt að sitja hér án þess að leggja orð í belg.

Hv. þm. Mörður Árnason sagði hér í ræðustól í kvöld: Sjaldan bregður mær vana sínum, og vísaði þeim orðum til hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar. Það má eins vísa þeim orðum á menntamálaráðherra hæstv. að sjaldan bregði mær vana sínum. Þetta er sótt í ágæta þjóðsögu og ég ætla ekkert að botna það hver vani meyjarinnar var, menn geta bara skoðað það sjálfir. Ég segi þetta vegna þess að mér fannst pólitískur barnaskapur, eða ófyrirleitni ætti ég kannski að segja, einkenna andsvör þeirra beggja í umræðunni í dag.

Ég hef hlustað nokkuð grannt eftir því sem menn hafa sagt hér og stjórnarandstaðan hefur í þessu máli, eins og í fjölmiðlamálunum yfirleitt, mætt í umræðuna með málefnalegum hætti og lagt fram sín sjónarmið, eins og við gerðum í fjölmiðlamálunum 2004 þegar við bentum á að hægt væri að ná góðri og víðtækri sátt um málefni fjölmiðlanna ef til þess væri einhver vilji af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það ráð var ekki þegið á þeim tíma heldur lagt út í langan og hatramman leiðangur í fjölmiðlamálunum sem endaði eins og allir muna með sneypuför ríkisstjórnarinnar.

Það var ekki fyrr en í fulla hnefana sem hún var tilbúin til að skilja það og læra að í málefnum eins og þessum er hægt að ná nokkuð góðri sátt ef menn vilja leggja sig fram um það. Sett var á laggirnar fjölmiðlanefnd og hún komst að niðurstöðu og hæstv. menntamálaráðherra talaði um sögulegar sættir í því máli. Þessir þættir voru allan tímann inni í myndinni en menn vildu einfaldlega ekki fara út í þetta samráð á þeim tíma. Hæstv. menntamálaráðherra og ríkisstjórnin hefur heldur ekki viljað fara út í neitt samráð um málefni Ríkisútvarpsins. Mér hefur heyrst að þeim hafi fundist þetta svo lítilvægt mál, þetta sé bara spurning um rekstrarform á Ríkisútvarpinu og um það þurfi ekkert víðtækt samráð við stjórnarandstöðuna. Svo er líka kvartað undan því hér af hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni að stjórnarandstaðan tali ekki einum rómi í málinu og þar af leiðandi sé ekki hægt að hafa samráð við hana um það. Stjórnarandstaðan þarf ekki að tala einum rómi í sérhverju máli. Stjórnarandstaðan hefur ekki valið sig saman í stjórnarandstöðu. Það eru stjórnarliðanir sem hafa valið sig saman í ríkisstjórn, hafa ákveðið að vera saman í ríkisstjórn og fylgja þar málum fram og hafa nokkurn veginn samstillta skoðun á þeim. Ég hygg að í þessu máli séu a.m.k. þrjár skoðanir uppi í ríkisstjórninni ef ekki fleiri. Það er sú skoðun sem Framsóknarflokkurinn hefur lengst af haft að Ríkisútvarpið eigi að vera sjálfseignarstofnun og fyrir því hafa þeir eflaust frambærileg rök ef þeir töldu að sú leið væri farsælust. Það er sú skoðun sem hefur verið uppi hjá ýmsum í Sjálfstæðisflokknum að Ríkisútvarpið eigi að vera hlutafélag, það sé farsælasta leiðin. Og svo er sú skoðun sem hér hefur verið túlkuð af hv. þm. Pétri H. Blöndal og Birgi Ármannssyni líklega líka að eðlilegast væri að selja Ríkisútvarpið. Það eru fleiri þeirrar skoðunar. Ég hygg að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sé líka þeirrar skoðunar að farsælast væri að selja Ríkisútvarpið. Það eru því a.m.k. þrjár skoðanir uppi í stjórnarflokkunum. Sjálfsagt er það ástæðan fyrir því að menn vildu ekki setjast niður og hafa samráð um þetta mál að vandinn var svo mikill að koma sér saman í stjórnarflokkunum að þeir áttu í fullu fangi í þeim efnum.

Hv. þingmaður kvartaði líka undan því að stjórnarandstaðan ætlaðist til þess að fallist yrði á allar kröfur hennar. Stjórnarandstaðan hefur í sjálfu sér ekki verið að setja fram neinar kröfur í þessum málum eins og er. Hér hafa verið reifuð ýmis sjónarmið. Það er alveg ljóst að menn hafa nokkuð skiptar skoðanir á því hvaða form er heppilegast á Ríkisútvarpinu og ég held að það sé bara fullkomlega eðlilegt. Það er ekkert víst að menn næðu sameiginlega landi í því efni en það er hægt í mörgu öðru sem varðar Ríkisútvarpið ef menn vilja því raunverulega vel. Ég held að flestir þingmenn eigi það sammerkt að þeir bera hagsmuni þessa almannaútvarps fyrir brjósti. Þeir telja að Ríkisútvarpið sé mikilvæg starfsemi. Þeir telja að Ríkisútvarpið sé mikilvægt viðmið á fjölmiðlamarkaðnum, ekki síst faglega. Ríkisútvarpið er ákveðin miðja sem aðrir fjölmiðlar miða sig að mörgu leyti við. Það er eins konar miðja eins og Þjóðleikhúsið, eins og sinfónían og óperan. Í kringum þetta, þessa miðju, þessar miðlægu stofnanir verður til ákveðin gróska. Þær gefa nefnilega frá sér og skapa í kringum sig ákveðna grósku. Það er vegna þess að þær eru til sem orðið hefur til markaður fyrir utan. Sjálfstætt starfandi leikhús, tónlistarstarfsemi af ýmsum toga og alls konar fjölmiðlastarfsemi hefur náð að blómstra. Þetta er gott og á að vera til samhliða. Miðlæg, öflug, fagleg stofnun á þessu sviði og síðan gróska úti á markaðnum.

Það má velja Ríkisútvarpinu mismunandi rekstrarform. Samfylkingin hefur talað fyrir því að þetta væri sjálfseignarstofnun. Af hverju höfum við talað fyrir því? Jú, vegna þess að sjálfseignarstofnunarformið gefur kost á að skapa ákveðið sjálfstæði, það skapar Ríkisútvarpinu ákveðið sjálfstæði. Sjálfseignarstofnun er stofnun sem er einkaréttarlegs eðlis rétt eins og hlutafélag. Það skapar ákveðið svigrúm og ákveðið sjálfstæði fyrir Ríkisútvarpið sem við í Samfylkingunni höfum talið mikilvægt að Ríkisútvarpið hefði. Og hins vegar er sjálfseignarstofnunarformið að því leytinu til ágætt að það er þekkt rekstrarform í almannaþjónustu. Það er þekkt rekstrarform í almannaþjónustu sem situr að ákveðnum tekjustofnum eða opinberu fé. Við getum tekið hjúkrunarheimilin, það er þekkt þar. Við getum tekið Listaháskólann og Bifröst, og til skamms tíma Háskólann í Reykjavík. Þetta eru menningarstofnanir sem ekki er gert ráð fyrir að greiði út arð til eigenda sinna. Þar fer allt fé inn í stofnunina aftur. Þær njóta þess að vera fyrirtæki einkaréttarlegs eðlis en þær hafa aðgang að opinberu fé og þar af leiðandi lúta þær að mörgu leyti öðrum lögmálum en hver annar fyrirtækjarekstur. Þess vegna taldi Samfylkingin að þetta væri hentugt form fyrir Ríkisútvarpið og líka og ekki síður vegna þess að það gætir ákveðinnar tortryggni gagnvart hlutafélagaforminu af því að hlutafélagavæðingin hefur hingað til verið undanfari sölu. Við vitum að í Sjálfstæðisflokknum eru uppi sterkar raddir í þá veru að selja beri Ríkisútvarpið. Þess vegna og til að menn gætu náð nokkuð góðri sátt um Ríkisútvarpið við að koma því inn í fyrirkomulag einkaréttarlegs eðlis, skapa því sjálfstæði án þess að vekja tortryggni um sölu, var það hugmynd Samfylkingarinnar að gott væri að velja þetta form. Þetta er ekkert heilagt form. Það var opnað á það í umræðunni af hálfu Marðar Árnasonar, sem var talsmaður okkar í upphafi þessarar umræðu, að Samfylkingin væri tilbúin til að skoða aðrar hliðar á því máli, hún væri tilbúin til þess að uppfylltum ákveðnum kröfum. Það er auðvitað bara mál sem verður að fara í gegnum og mun væntanlega verða skoðað í nefndinni. Það er verkefni nefndarinnar að reyna að koma því viti, vil ég leyfa mér að segja, inn í þetta frumvarp sem enn þá vantar þar upp á.

Það sem Mörður Árnason uppskar við þetta, að opna aðeins gátt til stjórnarflokkanna um Ríkisútvarpið og skoða hvort hægt væri að ná einhverri niðurstöðu í hlutafélagaformið, voru eiginlega bara tæklingar af hálfu hv. menntamálaráðherra. Þess vegna kalla ég það barnaskap, pólitískan barnaskap, að tala með þeim hætti sem ráðherrann gerði hér sem hefði að sjálfsögðu átt að taka því fagnandi að hér væri opnað á ákveðna möguleika í þessum efnum, að opnað væri á ákveðna samræðu um rekstrarform Ríkisútvarpsins. En því var ekki tekið og þá skal það bara þannig vera.

Varðandi inntakið í sjálfu frumvarpinu má hafa ýmsar skoðanir á því hvað í þessu frumvarpi stendur. Ég tel að þó að verið sé að opna þarna á hlutafélagaformið sé um leið líka verið að setja Ríkisútvarpinu ýmsar takmarkanir sem geta reynst því erfiðar. Ég hygg að þessar takmarkanir hafi verið settar vegna þess að stjórnarflokkarnir hafa verið að semja sín á milli og reyna að geirnegla alla hluti í frumvarpinu vegna þessi að Framsóknarflokkurinn hafi tortryggt Sjálfstæðisflokkinn í þessu efni. Bara eins og segir 1. gr. þar sem stendur:

„Sala félagsins eða hluta þess, sameining þess við önnur félög eða slit þess er óheimil.“

Síðan vísar ráðherra til þess að þetta sé mikil tímamótagrein vegna þess að áður hafi alltaf staðið í slíkum lögum „nema með samþykki Alþingis“ en viðurkennir þó hér í ræðustól að þetta vald verði ekki af Alþingi tekið. Það breytir því engu hvort þarna stendur „nema með samþykki Alþingis“ eða ekki. Það breytir akkúrat engu.

Takmarkanirnar sem ég var að tala um felast kannski í þessari grein vegna þess að það kann vel að vera að upp komi sú staða hjá Ríkisútvarpinu að það vilji t.d. taka einhvern þátt af starfsemi sinni, einhvern þátt úr rekstri sínum og leggja inn í félag með öðrum aðilum vegna þess að það sé hagkvæmt fyrirkomulag að standa þannig að rekstrinum. Það geta þess vegna verið einhver stúdíó. Það geta verið einhverjir þættir í rekstri félagsins sem það telur að geti verið hagkvæmt að reka í félagi við aðra. Ég fæ ekki séð að þessi grein heimili það. Ég tel að það séu meiri takmarkanir á rekstri Ríkisútvarpsins en t.d. eru í dönsku lögunum, bæði í lögunum um Danmarks radio, sem er þó bara rekið sem hver önnur ríkisstofnun, og í lögunum eins og þau voru um TV 2 í Danmörku sem var að vissu leyti stofnun sem var sambærileg við Ríkisútvarpið vegna þess að TV 2 í Danmörku hafði bæði aðgang að sérstökum tekjustofni og var á auglýsingamarkaði eins og Ríkisútvarpið er. Hér er verið að setja þrengri skorður fyrir Ríkisútvarpið en fyrirtæki í sambærilegum rekstri í öðrum löndum búa við. Mér sýnist því að þetta sé niðurstaða úr einhverri málamiðlun sem gerð hafi verið innan ríkisstjórnarinnar.

Varðandi aðra þætti í frumvarpinu vil ég nefna 3. gr. sem er um útvarpsþjónustu í almannaþágu. Þar er verið að reyna að skilgreina hver sé þessi útvarpsþjónusta í almannaþágu sem Ríkisútvarpið á að halda úti og fær sérstaka tekjustofna til að standa undir. Vegna þess að rökin fyrir því að Ríkisútvarpið hafi sérstakan nefskatt eða afnotagjald, eða hvaða leið sem menn vilja fara í því að tryggja því tekjustofna sem aðrir hafa ekki, eru þau að Ríkisútvarpið standi undir ákveðinni almannaþjónustu, ákveðnum kröfum sem ekki er hægt að gera til annarra útvarps- og sjónvarpsstöðva með sama hætti.

Mér finnst líka dálítið þunnur þrettándinn í þessari grein um útvarpsþjónustu í almannaþágu og í því sambandi vil ég nefna að ég fæ ekki séð að þar séu gerðar einhverjar sérstakar kröfur til útvarpsins um t.d. framleiðslu á leiknu efni. Ég sé ekki að gerðar séu kröfur til þess, eins og t.d. útvarpsstöðvanna í löndunum í kringum okkur, norrænu stöðvanna, um flutning á evrópsku efni. Ég sé t.d. ekki að hér séu gerðar kröfur eins og voru a.m.k. til skamms tíma áður en TV 2 var gert að hlutafélagi þar sem gerðar voru kröfur um norrænt efni og hvert hlutfallið ætti að vera af slíku efni í dagskrá útvarpsins. Það sem sett er inn í þessa grein um útvarpsþjónustu í almannaþágu er mjög almenns eðlis og ég hefði haldið að þetta þyrfti að vera miklu skýrar framsett ef Ríkisútvarpið á eftir þetta að standast þær kröfur sem EES-samningurinn og Eftirlitsstofnun EFTA gerir til reksturs á þessu sviði. Þetta segi ég vegna þess að það er margt í dönsku lögunum um TV 2 sem hafði, eins og Ríkisútvarpið, annars vegar aðgang að tekjustofni til að standa undir almannaþjónustuþættinum og var hins vegar á samkeppnismarkaði og sótti sér auglýsingatekjur. TV 2 var engu að síður talið hafa gengið á svig við samkeppnislög, að ríkisábyrgðin sem á því var hefði verið misnotuð og danska ríkinu var gert að greiða miklar sektir vegna þess hvernig hlutunum var þar fyrir komið. Það sem var sérstaklega tiltekið í ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar um TV 2 á sínum tíma var einmitt að þær kröfur sem gerðar voru til TV 2 í Danmörku hafi ekki verið nægilega vel skilgreindar og hvernig tekjurnar sem það fékk síðan aðgang ættu að standa undir þeim kröfum. Með öðrum orðum: Ég hygg að skýra þurfi miklu betur þær kröfur sem gerðar eru til Ríkisútvarpsins og almannaþjónustuþáttar þess en gert er í frumvarpinu.

Það kann vel að vera að menn hafi hugsað sér að skýra þetta betur í samþykkt um Ríkisútvarpið og þá kem ég kannski að þeim þætti sem vantar algerlega og þyrfti að fylgja þessu frumvarpi en það eru hugmyndir ráðherra um samþykkt fyrir Ríkisútvarpið. Hvernig eiga samþykktir um Ríkisútvarpið að líta út? Ég geri ráð fyrir að að þær eigi að samþykkjast á hluthafafundi. Og hver fer með atkvæðisrétt á hluthafafundi? Það er jú menntamálaráðherra og enginn annar. Mér finnst það alger forsenda fyrir því að hægt sé að ræða þetta frumvarp og vinna áfram með það að þessar samþykktir séu lagðar fram hér og menn hafi það fyrir framan sig hvernig fyrstu samþykktir Ríkisútvarpsins sem hlutafélags eigi að líta út. Ég tel líka að hér þurfi að liggja fyrir drög að þeim þjónustusamningi sem talað er um í frumvarpinu, vegna þess að í þjónustusamningnum er gert ráð fyrir að útvarpsþjónustan í almannaþágu verði nánar skilgreind og krafan sem er gerð til Ríkisútvarpsins vegna almannaþjónustuþáttarins. Þetta tvennt, þ.e. annars vegar samþykktir um Ríkisútvarpið sem útfæra nánar almenna starfsemi Ríkisútvarpsins og hins vegar hugmyndir um þjónustusamninginn þar sem kröfurnar um almannaþjónustuútvarpið eru nánar skilgreindar, tel ég að liggja þurfi fyrir áður en málið verður afgreitt úr nefnd þannig að hægt sé að taka afstöðu til þeirra heildarmyndar sem þá blasir við.