132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[22:40]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir vék að því í ræðu sinni að stjórnarandstaðan hefði verið býsna málefnaleg í umræðu um þetta frumvarp og það má að mörgu leyti taka undir það og hrósa mörgum hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar fyrir málefnalega umræðu hér. En það sama verður nú ekki sagt um formann Samfylkingarinnar að öllu leyti, hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og sérstaklega ekki fyrsta hluta ræðu hennar en þá notaði hún tækifærið til þess að vera hér með hrokafullar umvandanir í garð þeirra stjórnarliða sem hafa verið að fjalla um þetta mál, að mínu mati á málefnalegan hátt, og kallaði málflutning okkar barnalegan og ófyrirleitinn.

Er það ófyrirleitni að spyrjast fyrir um hver stefna stjórnarandstöðuflokkanna varðandi rekstrarumhverfi Ríkisútvarpsins sé? Hvert rekstrarformið eigi að vera? Það finnst mér ekki. Við höfum óskað eftir stefnu flokkanna um það og fengið þær upplýsingar, og veitti ekki af vegna þess að stefna Samfylkingarinnar í þessu máli hefur verið töluvert á reiki. Ýmist tala menn um sjálfseignarstofnunarformið eða hlutafélagaformið. Auðvitað er það þannig þegar í ljós kemur að stjórnarandstaðan talar ekki einum rómi, menn tala hver í sína áttina, vinstri grænir eru með eina útfærslu, samfylkingarmenn með aðra og frjálslyndir þá þriðju. Það er erfitt að hafa samráð við slíka hjörð.

Nú langar mig til þess að spyrja hv. þingmann um efnisatriði þessa máls. Af hverju telur hún að sjálfseignarstofnunarformið sé hentugra en hlutafélagaformið? Af hverju heldur hv. þingmaður að allir þeir sem eru í rekstri eða langflestir velji hlutafélagaformið umfram sjálfseignarstofnunarformið, (Forseti hringir.) og hvernig ætlar hv. þingmaður að skapa Ríkisútvarpinu það sjálfstæði sem hún talar um sjálfseignarstofnunarforminu umfram hlutafélagaformið? (Forseti hringir.) Ætlar hún að gera það á grundvelli laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur eða með einhverjum öðrum hætti?

(Forseti (BÁ): Forseti áminnir þingmenn um að virða tímamörk sem eru takmörkuð í þessum andsvörum og svörum.)