132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[22:48]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það hafi verið Donald Rumsfeld sem sagði að sumar ríkisstjórnir væru þannig að ýmist aðhefðust þær ekkert eða færu offari. Hið síðarnefnda á við í fjölmiðlamálinu hvað varðar nefndarskipan ráðherra. Ekki dugði ein nefnd, ekki dugðu tvær nefndir heldur átti að skipa þriðju nefndina til þess að setja saman tillögur í fjölmiðlamálum. Auðvitað bentum við hæstv. menntamálaráðherra á að það væri algjör óþarfi og ofílagt að skipa þriðju nefndina, nefnd á nefnd ofan — það væri hægt að fela þetta mál lögfræðingum og hafa samráð við stjórnarandstöðuna um frumvarpið. Og auðvitað valdi hún að fara þá leið eins og við bentum henni á að væri skynsamlegt.

Ég sagði að það fælist meira sjálfstæði í því að vera með sjálfseignarstofnunarformið en það form sem er á Ríkisútvarpinu núna, þ.e. að vera opinber stofnun. Það fylgir því meira sjálfstæði að vera sjálfseignarstofnun og starfa sem slík en að vera opinber stofnun með því hefðbundna fyrirkomulagi sem þar gildir. Það er ekkert meira sjálfstæði sem fylgir því en hlutafélaginu, það er ósköp sambærilegt, ósköp svipað. Það er bara spurningin um að velja hvora leiðina menn vilja fara. En það er tvímælalaust meira sjálfstæði fólgið í sjálfseignarstofnuninni en innan opinberrar stofnunar eins og hefðin er að reka þær í dag. Hafi þingmaðurinn misskilið mig vona ég að sá misskilningur sé nú leiðréttur.