132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[22:50]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef aðeins tíu mínútur til ráðstöfunar í þessari síðari ræðu minni en er minnugur þess að það kemur dagur eftir þennan dag og málið kemur væntanlega aftur til umræðu hér í þinginu.

Ég hefði skilið þá umræðu sem hér hefur farið fram ef hún hefði átt sér stað fyrir aldarfjórðungi, um 1980. Þá bjuggum við við mikla miðstýringu í opinberum rekstri. Opinberar stofnanir þurftu að sækja um leyfi í hið miðstýrða vald til að fjölga stöðugildum, svo dæmi sé tekið, og menn urðu að leita leyfa og heimilda um stórt og smátt. Þetta er liðin tíð, þetta er löngu liðin tíð.

Áður en ég vík að nokkrum efnisþáttum langar mig til að leggjast í örlitla sögulega upprifjun og vitna í grein sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson skrifaði í Morgunblaðið um miðjan nóvember, 11. nóvember sl.

Hann segir, með leyfi forseta:

„Menntamálaráðherra boðar frumvarp á Alþingi um Ríkisútvarpið fyrir næstu jól og gerir ráð fyrir því að rekstrarfyrirkomulagi RÚV verði breytt. Samkvæmt frétt Bylgjunnar segir ráðherrann, að verið sé að skoða hvort verði fyrir valinu, að gera Ríkisútvarpið að einkahlutafélagi eða sameignarfélagi.

Það þykir mér hraustlega mælt í ljósi þess að hlutafélagavæðingunni hefur verið hafnað. Flokksþing Framsóknarflokksins 2001 ályktaði orðrétt „Ríkisútvarpinu verði ekki breytt í hlutafélag“ og sú samþykkt stendur enn óhögguð. Á næsta flokksþingi, sem var 2003, var bætt við að „breyta skal rekstrarformi Ríkisútvarpsins í sjálfseignarstofnun“. Loks var ályktað á þessu ári á flokksþingi Framsóknarflokksins að „mikilvægt er að Ríkisútvarpið verði áfram í þjóðareigu“. Samþykktirnar eru í eðlilegu samhengi og mynda skýra stefnu flokksins. Síðari samþykktirnar styrkja þá fyrstu, sem hafnar hlutafélagavæðingu RÚV.“

Síðar segir þingmaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, að það sé eðlilegt núna að huga að úrbótum á núverandi fyrirkomulagi og orðrétt segir hann, með leyfi forseta:

„Því mega menn ekki gleyma að skoðun Sjálfstæðisflokksins á Ríkisútvarpinu er minnihlutaskoðun, bæði á Alþingi og í þjóðfélaginu. Flokkurinn er einangraður í þessu mikilsverða máli og ekkert réttlætir að gera honum kleift að koma því fram.“

Sjálfstæðisflokkurinn er ekki lengur einangraður. Hann hefur Framsóknarflokkinn nú sér við hlið. Þess vegna liggur fyrir þinginu frumvarp um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins.

Um skoðanir Sjálfstæðisflokksins er þetta að segja, og ég ætla að vitna hér í einar þrjár samþykktir. Fyrst í yfirlýsingu framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, Kjartans Gunnarssonar, sem sagði í janúar 1992, með leyfi forseta:

„Ég held einfaldlega að Ríkisútvarpinu sé eins og öðrum opinberum rekstri markaður ákveðinn tími og ég held að sá tími sé einfaldlega liðinn. Ég tel að það sé nauðsynlegt að leggja Ríkisútvarpið niður.“

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins ályktaði árið 1996, með leyfi forseta:

„Sjálfstæðisflokkurinn leggur til að markmið, rekstur og fjármögnun Ríkisútvarpsins, ekki síst sjónvarpsins, verði endurskoðuð með tilliti til hagkvæmni og aukinnar samkeppni og að samkeppnisstaða fjölmiðla verði jöfnuð með afnámi lögboðinna áskriftargjalda og jafnframt tryggt að stofnunin fari ekki með öðrum hætti í ríkissjóð.“

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2003 var á nýjan leik ályktað, með leyfi forseta:

„Skylduáskrift að fjölmiðlum verði afnumin nú þegar. Íslenskir neytendur eiga sjálfir að ráða hvort og hvaða fjölmiðla þeir kaupa. Endurskoða skal hlutverk ríkisins á þessum markaði.“

Samband ungra sjálfstæðismanna ályktar 5. ágúst 2005, með leyfi forseta:

„Að lokum ítreka ungir sjálfstæðismenn þá skoðun sína að ríkisvaldið hætti rekstri fjölmiðla og RÚV verði selt.“

Þetta eru nokkrar tilvitnanir í samþykktir Sjálfstæðisflokksins, bæði Sambands ungra sjálfstæðismanna og flokksþings Sjálfstæðisflokksins, og lýsir afstöðu sem er alla vega mjög sterk innan flokksins.

Hæstv. forseti. Við erum að ræða um mismunandi rekstrarform á Ríkisútvarpinu. Það er gert með skírskotun til stjórnsýslu stofnunarinnar, menn ræða með hvaða hætti sé hægt að gera hana markvissari og hagkvæmari. Í öðru lagi er rætt um fjárhagsgrundvöll Ríkisútvarpsins og í þriðja lagi er rætt um sjálfstæði stofnunarinnar.

Fyrst að fyrsta atriðinu. Í frumvarpi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er tekið á markvissan hátt á stjórnsýslu Ríkisútvarpsins. Skorið er á flokkspólitísk yfirráð yfir stofnuninni, við tengjum hana við eigendur sína í gegnum þingið að sönnu, fulltrúar hvers stjórnamálaflokks á Alþingi fá fulltrúa í það sem við köllum dagskrárráð og er sett á laggirnar til að fylgjast með því að farið sé að lögum um Ríkisútvarpið á sama hátt og stjórn stofnunarinnar á að gera samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar.

Þessi stjórn hefur hins vegar ekki þau sömu tök á stofnuninni og stjórnin sem kosin yrði yfir Ríkisútvarpið samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Sú stjórn, sem endurspeglar meirihlutavald á Alþingi, fær vald til þess að ráða og reka útvarpsstjórann, sem síðan er fengið í hendur nánast einvaldsvald innan stofnunarinnar. Á þessu byggist frumvarp ríkisstjórnarinnar. Við erum hins vegar með hugmyndir um að kalla fleiri að þessu dagskrárráði. Við nefnum Neytendasamtök, Samband listamanna, sveitarfélögin í landinu, við viljum breiðan grunn hvað þetta snertir.

Hvað varðar stjórnsýsluna sjálfa innan veggja stofnunarinnar viljum við setja á stofn framkvæmdastjórn líkt og nú er við lýði en við viljum hafa hana breiðari og tryggja aðkomu starfsmanna að stjórn stofnunarinnar hvað þetta snertir. Starfsmenn eiga núna sæti í framkvæmdastjórn Ríkisútvarpsins. Samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar verður þeim úthýst. Við teljum því að við séum að taka á markvissan hátt á stjórnsýslunni í Ríkisútvarpinu. Við erum að færa ákvarðanir um mannaráðningar inn fyrir veggi stofnunarinnar en jafnframt tryggja lýðræðislega aðkomu.

Okkur er umhugað um að styrkja fjárhagsgrundvöllinn. Við höfum hins vegar heyrt tóninn hjá sjálfstæðismönnum í þessari umræðu. Þeir segja að það þurfi að reka stofnunina á fyrirtækjavísu og það þurfi að skera kröftugar niður en gert hefur verið. Það hefur reyndar verið gert vegna þess að rauntekjur Ríkisútvarpsins hafa rýrnað um 15% á áratug. (PHB: Ekki skera niður.) Á sama tíma hefur starfsmönnum verið fækkað um 15%, frá 1996. (PHB: Ekki skera niður, reka betur.) Ekki skera niður, reka betur, segir hv. þm. Pétur Blöndal. Reka stofnunina betur, já. Þá skulum við fá einhverjar hugmyndir frá honum um hvernig það verði gert. Ég frábið mér þetta fyrirlitningartal í garð þeirra sem hafa stýrt Ríkisútvarpinu. Við erum að tala um miklu stærra og alvarlegra mál en þessu nemur. Við vitum að þrengt hefur verið að ýmissi menningarstarfsemi innan Ríkisútvarpsins og ég óttast að lengra verði gengið í þeim efnum ef frumvarp ríkisstjórnarinnar nær fram að ganga.

Síðan er það sjálfstæðið. Það er ekki tryggt samkvæmt þessu frumvarpi. Flokkspólitísk völd yfir stofnuninni eru treyst, meirihlutavaldið er geirneglt í stjórn stofnunarinnar þannig að það er ekki verið að tryggja sjálfstæðið.

En hvað þá með sjálfseignarstofnunina sem menn eru að hefja hér upp til skýjanna? Ég hef ákveðnar efasemdir um að nokkur þörf sé á að fara út á slíkar brautir. Ég vek athygli á því að ástæðan fyrir því að menn vilja fara yfir í breytt rekstrarform er fyrst og fremst ein, að skerða réttindi starfsmanna, að hafa af starfsfólkinu þau kjör og réttindi sem það býr við núna. Það er deginum ljósara að starfskjör nýráðinna starfsmanna, samkvæmt þeim hugmyndum sem reifaðar hafa verið í dag, eru rýrari en þau hafa verið, það liggur ljóst fyrir. Þar horfum við í (Forseti hringir.) lífeyrisréttinn sérstaklega en einnig önnur réttindi starfsmanna.