132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[23:00]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hóf mál sitt á því að vitna í grein eftir hv. þm. Kristin H. Gunnarsson þar sem var seilst aftur til ársins 2001 og rifjaðar upp samþykktir flokksþings Framsóknarflokksins þá. Nú háttar svo til að flokkurinn verður 90 ára á þessu ári og það er spurning hvort hv. þingmaður ætti ekki að ganga enn lengra aftur og rifja upp fyrstu samþykktir flokksins. Ég hygg að þar hafi ekkert verið minnst á hlutafélög og þá má álykta með sama hætti og hv. þingmaður gerir, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gerir reyndar í þessari grein.

Staðreyndin er sú, herra forseti, að á síðasta flokksþingi Framsóknarflokksins, sem er líklega eitt það fjölmennasta sem haldið hefur verið í mörg herrans ár, var mikil vinna lögð í þetta, bæði í aðdraganda þess þings og í sérstökum málefnahópi um menntamál þar sem megináherslan var lögð á þetta. Það varð skýr niðurstaða, eftir að hafa skoðað ýmsa möguleika var þetta skýr niðurstaða flokksþingsins og ég bið hv. þingmann um að virða þá niðurstöðu. Það var fjöldi fólks sem að þeirri vinnu kom og þetta var hin sameiginlega niðurstaða.

Þá er líka rétt að rifja upp af hverju þessar breytingar og ég gerði grein fyrir því í ræðu minni hér. Afstaða til sölu eða ekki sölu hafði nefnilega ekki legið fyrir m.a. af hálfu Sjálfstæðisflokksins. Hún liggur núna alveg skýr fyrir og til að segja það rétt einu sinni þá stendur ekki til að selja Ríkisútvarpið. Það er auðvitað útgangspunktur í þessu sem hv. þingmaður veit og hann á þá að virða það. Ég veit að hann hefur hlustað á þetta hjá hæstv. menntamálaráðherra og hjá þeim stjórnarsinnum sem hér hafa talað. Þess vegna átta ég mig ekki alveg á því nema það sé gert í einhverjum svona hræðsluáróðurstilgangi (Forseti hringir.) að halda því stöðugt fram að grunnurinn að þessu frumvarpi sé sá að selja eigi Ríkisútvarpið. Svo er ekki.