132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[23:04]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Herra forseti. Svo sem hv. þingmaður veit á hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson til að synda nokkuð sínar eigin leiðir. Ég vil árétta að sú niðurstaða sem fékkst á síðasta flokksþingi Framsóknarflokksins var mjög skýr. Menn tóku burt fyrri samþykktir og vildu opna fyrir breytt rekstrarform rétt eins og samþykkt Starfsmannafélags Ríkisútvarpsins er.

En syndin er lævís og lipur, hv. þingmaður gefur í skyn að á bak við þetta frumvarp búi einhver lævís tilhneiging til að stíga skref rétt eins og sé verið að blekkja. Svo er ekki. Það kann vel að vera að hv. þingmaður telji að með því að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag sé verið að auðvelda sölu. Til þess þarf pólitískan vilja. Eins og komið hefur ítrekað fram í umræðunni er sá vilji ekki til staðar. Það er nákvæmlega enginn meiri hluti fyrir því á hv. Alþingi og ég dreg mjög í efa að hann muni myndast í náinni framtíð. Hvað gerist í einhverri óralangri framtíð vitum við hvorugur um.

Hitt er svo annað mál að mér finnst hv. þingmaður oft agnúast um of gegn því formi sem heitir hlutafélag. Það form hefur rutt sér til rúms, ekki bara hérlendis heldur víða í heimi vegna þess að menn hafa góða reynslu af slíku formi, reynslu af því að standa í rekstri vegna þess að það form felur m.a. í sér ákveðinn sveigjanleika og sá sveigjanleiki er mjög nauðsynlegur Ríkisútvarpinu. Það er það sem starfsmenn Ríkisútvarpsins kalla á vegna þeirrar hörðu samkeppni sem komin er upp á fjölmiðlamarkaði. Að sjálfsögðu vilja starfsmenn, ágætt starfsfólk Ríkisútvarpsins, standa sig í þeirri samkeppni og eru að gera vel en munu gera enn betur þegar þessi formbreyting hefur átt sér stað. Ótti hv. þingmanns um sölu er algjörlega ástæðulaus.