132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[23:13]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er augljóst að vonbrigðin leyna sér ekki hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni í garð Framsóknarflokksins. En á sömu rökum hlýtur hv. þingmaður hafa orðið fyrir verulegum vonbrigðum með málflutning Samfylkingarinnar. Því er haldið fram að verið sé að reka einhvern fleyg á milli stjórnarandstöðuflokkanna í málinu. Ef það hefur verið gert eru það ekki við í stjórnarliðinu sem höfum gert það heldur einhverjir aðrir.

Ég sé ekki mikinn samhljóm í málflutningi Samfylkingarinnar annars vegar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hins vegar. Ég trúi því heldur ekki að hv. þingmaður hafi ekki skoðanir á málflutningi Samfylkingarinnar vegna þess að nógu miklar skoðanir hefur hann haft í gegnum tíðina á málflutningi annarra stjórnmálaflokka og þá kannski sérstaklega Framsóknarflokksins.

Ég ítreka því spurningu mína um afstöðu og viðhorf hv. þm. Ögmundar Jónassonar til stefnu Samfylkingarinnar í málinu.

Síðan er annað sem ég vil spyrja hv. þingmann um vegna þess að hann virðist hafa miklar áhyggjur af því að framkvæmdastjóri Ríkisútvarpsins væntanlegur muni hafa of mikil völd, muni hafa of mikið um það að segja hverjir eru ráðnir og hverjir eru reknir. Ég vil benda hv. þingmanni á að auðvitað mun þessi nýi framkvæmdastjóri og útvarpsstjóri starfa undir stjórn félagsins og vera undir boðum hennar eða skipunarvaldi settur. Hann mun bara hafa sömu völd og framkvæmdastjórar (Forseti hringir.) í öðrum hlutafélögum hafa. Ég spyr: Hvers vegna eiga aðrar reglur að gilda um framkvæmdastjóra Ríkisútvarpsins en gilda um framkvæmdastjóra í öðrum félögum?