132. löggjafarþing — 49. fundur,  24. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[00:19]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið aftur og hrósa hv. þingmanni fyrir að vera málefnalegur í sinni umræðu um þetta mál, málefnalegri en sumir aðrir sem tekið hafa til máls hér úr hans flokki um þetta frumvarp.

Ég ætla svo sem ekki að fjalla miklu meira um fjölmiðlaskrifstofu Evrópuráðsins. En mig langar til þess að víkja að öðru atriði og það er nú kannski það sem hv. þingmaður nefndi hér síðast. Hv. þingmaður sagðist ekki treysta Sjálfstæðisflokknum. Hann óttaðist það að með því að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag yrði stigið fyrsta skrefið í þá átt að selja RÚV.

Gott og vel. Nú stendur reyndar í frumvarpinu að það standi ekki til að gera það og að það sé beinlínis óheimilt. En það er greinilegt að hv. þingmaður treystir ekki stjórnarflokkunum og sérstaklega ekki Sjálfstæðisflokknum. Hann treystir okkur varla — hvað eigum við að segja — út í sjoppu í þessu máli, ef svo má að orði komast. En mig langar til þess spyrja hv. þingmann af því að hann hefur nú talað hér fyrir sjálfseignarstofnunarforminu og svona haft efasemdir um hlutafélagsformið: Ef við gefum okkur að Ríkisútvarpinu yrði breytt í sjálfseignarstofnun og ef við gefum okkur líka að einhver ríkisstjórn, hvort sem það væri þessi ríkisstjórn eða önnur, jafnvel sú sem hv. þingmaður ætti aðild að, fengi nú þá hugmynd að selja Ríkisútvarpið, einkavæða Ríkisútvarpið, hvaða máli mundi þá skipta fyrir meðferð slíks máls, meðferð slíkra breytinga hvort Ríkisútvarpinu væri breytt hér í hlutafélag eða í sjálfseignarstofnun? Í mínum huga mundi það ekki skipta neinu máli. Í báðum tilvikum þyrfti viðkomandi ríkisstjórn að grípa til nákvæmlega sömu aðgerða (Forseti hringir.) vildi hún hrinda slíkum áformum í framkvæmd.