132. löggjafarþing — 49. fundur,  24. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[00:47]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki kemur mér til hugar að ég greini hroka eða því um líkt í máli hv. þingmanns, það kemur mér ekki til hugar. En ég get ekki annað en bent hv. þingmanni á þau lög sem eru í landinu og kynna sér þau betur jafnframt því að koma með þennan málflutning í hv. menntamálanefnd.

Ég vil einnig geta þess, og það hef ég líka margoft sagt, að varðandi frekari útfærslu á því hvaða hlutverki við viljum sjá Ríkisútvarpið gegna og hvernig það á að starfa þá höfum við verið að skoða það og ég hvet hv. þingmenn í menntamálanefnd til að athuga það sérstaklega og forvitnast betur um hvernig t.d. samkomulag hefur tekist á milli Danmarks Radio og menningarmálaráðherrans eða ráðuneytisins þar eða hvaða fyrirkomulag er varðandi útfærslu á menningarhlutverki og almannaþjónustuhlutverki BBC í Bretlandi.